Framsókn færir rússum neitunarvald

 

Á flokksþingi Framsóknar í byrjun þessa mánaðar var samþykkt ályktun sem útilokar flokkinn frá þátttöku í hverri þeirri ríkisstjórn sem vill framlengja þvingunaraðgerðir  ríkja Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins gegn Rússum. Ekki er ofsagt  að þetta sé tímamótaályktun.

Flokksþingið sýnist þannig hafa gjörbreytt möguleikum til stjórnarmyndunar eftir kosningar.

Forsaga málsins er sú að deilur komu upp um það í ríkisstjórninni hvort Ísland ætti að taka þátt í þvingunaraðgerðum ríkja Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins gegn Rússum. Formenn stjórnarflokkanna vildu fórna heildarhagsmunum landsins fyrir þrönga hagsmuni nokkurra áhrifaríkra fyrirtækja sem flutt hafa vörur til Rússlands.

Utanríkisráðherra ákvað hins vegar með heimild í lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða að hvika hvergi frá þeirri grundvallarafstöðu sem Ísland hefur haft í áratugi í vestrænni samvinnu. Hann naut stuðnings bæði fyrrverandi og núverandi formanna utanríkisnefndar Alþingis og stjórnarandstöðunnar að mestu leyti.

Fyrrverandi forseti Íslands gaf sendiherra Rússlands í samráði við þáverandi forsætisráðherra fyrirheit um áfangalausn. En hann gat ekki efnt það fyrirheit vegna afstöðu utanríkisráðherra og utanríkisnefndar.  Þegar Lilja Alfreðsdóttir kom í utanríkisráðuneytið ítrekaði hún sérstaklega afstöðu forvera síns um áframhaldandi samstöðu með vestrænum þjóðum í þessu efni.

Á flokksþingi Framsóknar á dögunum var svo gerð breyting á fyrirliggjandi tillögu að ályktun um utanríkismál. Bætt var inn málsgrein þar sem segir: „Ísland taki ekki þátt í viðskiptaþvingunum, nema þeim sem ákveðnar eru á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og samþykktar hafa verið af Alþingi í hvert sinn.“

Flokksþinginu hefur þótt nauðsynlegt að binda hendur Lilju Alfreðsdóttur í þessu efni. Hvorki hún né aðrir höfðu uppi andmæli gegn þessari breytingu.

Með því að Rússar hafa neitunarvald í öryggisráðinu þýðir þetta að Ísland getur aldrei tekið þátt í þvingunaraðgerðum gegn þeim með bandamönnum sínum eigi Framsókn aðild að ríkisstjórn.  Í raun hefur Framsókn gefið Rússum neitunarvald þegar til álita kemur hvort Ísland vill standa með bandalagsþjóðum sínum í Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu.

Fullyrða má að það heyrir til undantekninga að stjórnmálaflokkar ákveði fyrir sitt leyti að framselja með slíkum hætti fullveldisrétt landsins þegar mikilvægir almennir varnar- og viðskiptahagsmunir eru í húfi.

Lilja Alfreðsdóttir hefur komið með býsna miklum styrk inn í ríkisstjórn og forystu Framsóknar. Eini tilgangur flokksþingsins  með því að samþykkja þessa breytingu á utanríkismálaályktuninni sýnist vera sá að læsa þeirri sjálfstæðu stöðu sem hún hafði tekið sér í þessu máli.

Eftir þessa flokksþingssamþykkt verður ekki séð að Framsókn geti farið í stjórn með Samfylkingu, Bjartri framtíð eða Viðreisn. Þeir flokkar standa nú helst vörð um gildi vestrænnar samvinnu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið klofinn í þessu grundvallarmáli íslenskrar utanríkisstefnu. Stjórnarflokkarnir stefna báðir að því að framlengja stjórnarsamstarfið fái þeir til þess umboð. Það þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn verður nú að gera grein fyrir því hvort hann ætlar að fylgja Framsókn eftir í þessu máli.

Feti Sjálfstæðisflokkurinn í fótspor Framsóknar geta stjórnarflokkarnir einungis unnið með VG sem sennilega getur staðið beggja megin. Ákveði hann aftur á móti að halda fast í fyrri stefnu sína þarf hann að líta til annarra en Framsóknar um samstarf. Það er mikil breyting í íslenskri pólitík.

Einhverjir kunna að segja að stjórnamálaflokkar taki eigin ályktanir mátulega hátíðlega. Sé svo í þessu tilviki verður að hafa í huga að þetta mál snýst um sjálfan grundvöll utanríkisstefnunnar. Forysta Framsóknar þarf því að upplýsa fyrir kosningar hyggist hún hafa þessa samþykkt að engu.