Forsætisráðherra rær einn á báti

Forsætisráðherra rær einn á báti

 

Forsætisráðherra hefur lagt fram þingmannafrumvarp um breytingar á stjórnarskránni. Það eru í sjálfu sér nokkur tíðindi.

En þau óskrifuðu tíðindi sem felast í framlagningu frumvarpsins valda hins vegar vonbrigðum. Þegar forsætisráðherra leggur einn fram þingmannafrumvarp um stjórnarskrárbreytingu er það einfaldlega yfirlýsing um að honum hafi mistekist að ná breiðri samstöðu.  

Markmiðið með skipun stjórnarskrárnefndar 2013 var að ná víðtækri samstöðu um áfangaskiptingu á stjórnarskrárbreytingum. Niðurstaða nefndarinnar var með ýmsum fyrirvörum. Nú er endanlega ljóst að ætlunarverkið tókst ekki. Frumvarpið er fyrst og fremst viðurkenning forsætisráðherra á þeirri staðreynd. Það er eins konar uppgjafarplagg.

Það sem meira er: Framlagning frumvarpsins er einnig yfirlýsing um að forsætisráðherra hafi ekki tekist að ná samstöðu með stjórnarflokkunum um þær stjórnarskrárbreytingar sem þeir sögðust þó vera  einhuga um að fara af stað með fyrir þremur árum.  Það segir meir en mörg orð um stjórnarsamstarfið.

Í raun bendir flest til að hugur hafi aldrei fylgt máli af hálfu Framsóknar, forystuflokks ríkisstjórnarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur heldur ekki verið kappsamur um framgang málsins. Tilgangurinn með framlagningu þingmannafrumvarps nú er sá einn að reyna að koma upp þeirri stöðu fyrir kosningar að halda megi því fram að aðrir flokkar hafi verið í hlutverki Þrándar í Götu.

Satt best að segja er nokkuð til í því. Af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna bera Píratar og Samfylkingin mesta ábyrgð á því að þessar tillögur til breytinga hafa steytt á skeri. Allir flokkarnir féllust á að taka þátt í vinnu sem miðaði að tilteknum breytingum í fyrsta áfanga stjórnarskrárbreytinga.

Píratar eru minnsti flokkurinn á Alþingi en stærstir í skoðanakönnunum. Þeir tóku þátt í nefndarstarfi sem byggði á áfangaskiptingu. Þegar því lauk sneru þeir við blaðinu og sögðust einungis sætta sig við óbreyttar tillögur stjórnlagaráðs í heild sinni.  

Þingmenn Samfylkingarinnar þorðu ekki að hafa sjálfstæða afstöðu og gerðust sporgöngumenn Pírata. VG hefur haldið sig til hlés. Björt framtíð hefur sýnt ábyrgustu afstöðuna í mengi stjórnarandstöðuflokkanna.

Ef stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu sýnt raunsæi og raunverulegan  vilja til að stíga skref fram á við hefðu þeir auðveldlega getað haldið ríkisstjórninni við efnið. Hún hefði ekki getað hlaupið frá málinu ef stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu einhuga fallist á að ljúka því á þeirri forsendu sem þeir hófu starfið í stjórnarskrárnefnd.

Kjarni málsins er sá að það voru engir forystusauðir til að reka málið áfram, hvorki í stjórnarflokkunum né stjórnarandstöðunni.

Þetta mál getur svo haft víðtækari skírskotun varðandi tvo af þeim stjórnarmyndunarkostum sem eru í boði:

Annars vegar eru stjórnarflokkarnir sem leggja af stað með áform um áfangaskiptar stjórnarskrárbreytingar og ná ekki einu sinni saman innbyrðis.

Hins vegar er tilboð VG og Samfylkingar um nýja hreina vinstri stjórn með Pírötum. Ef taka má leikaðferð Pírata í þessu máli sem fyrirmynd um það hvernig þeir munu virka sem kjölfesta í því samstarfi er hún ekki til þess fallin að byggja upp traust; svo ekki sé dýpra í árinni tekið.    

Nýjast