Fjórflokkurinn aldrei mælst veikari

„Fjórflokkarnir fá í þessari nýju könnun MMR einungis 52,4% fylgi sem mér sýnist vera nýr botn í samanlögðu fylgi þeirra flokka á kjörtímabilinu og reyndar minna en nokkru sinni.“

Þetta segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við HA, þegar Hringbraut biður hann að túlka þær sögulegu niðurstöður sem birtust í fylgiskönnun stjórnmálaflokka hjá MMR um helgina.

Vantraust á fjórflokkinn

Grétar Þór segir um stöðuna eins og hún birtist honum nú að þegar breytingar á fylgi, eins og sjást nú í mælingu MMR, séu meiri en verið hefur um nokkurt skeið sé rétt að bíða aðeins fleiri kannana til að staðfesta hreyfingarnar.

„Þetta virðist nú allt vera innan skekkjumarka hvað varðar hreyfingu Pírata upp á við og Sjálfstæðisflokksins niður á við. Engu að síður liggur leið Pírata frekar uppávið frekar en hitt og leið Sjálfstæðisflokksins niðurávið frekar en hitt.“

En hvað er um stöðu ríkisstjórnar að segja þegar einn dvergþingflokkur í stjórnarandstöðu hefur náð hartnær þriðjungi meira fylgi skv. skoðanakönnun MMR en samanlagður stuðningur landsmanna við stjórnina?

„Ég er ekki endilega viss um að fylgisaukning Píratanna sé vitnisburður um sérstakt vantraust á stjórnvöld. Greiningar MMR sýna jú að Píratarnir taka langsíst fylgi af Sjálfstæðisflokki en sýnu meira af gömlu stjórnarflokkunum og Bjartri framtíð. Þeir taka einnig fylgi frá Framsókn, en þar ber að hafa í huga að mikil fylgisaukning þeirra átti  sér skýringu í stóra loforðinu um leiðréttinguna – eitthvað sem tæplega hefur orðið til þess að halda í það fylgi. Því hefur fylgisaukningin líkast til verið tilfallandi.“

Grétar telur að stuðningur við Pírata sé skilaboð til stjórnmálanna í heild. „Það vantraust sem felst í linnulausu háflugi Pírata ætti frekar að túlka sem almennt vantraust á hin hefðbundnu stjórnmál – að mestu fjórflokkinn gamla. Fjórflokkarnir fá í þessari nýju könnun MMR einungis 52,4% fylgi sem mér sýnist vera nýr botn í samanlögðu fylgi þeirra flokka á kjörtímabilinu og reyndar minni en nokkru sinni.

Stjórnarsáttmáli fyrirfram – ekki eftir á

Birgitta Jónsdóttir, Pírötum, segir aðspurð hvort stjórnin ætti að fella tjöldin og blása til kosninga að í sambærilegri stöðu í nágrannalöndunum séu ýmis dæmi þegar svo illa gengur fylgislega að formenn flokka segi af sér. Þá komi sú krafa frá flokksmönnum sjálfum en hér sé venja að menn hangi á völdunum.

„Þetta eru mjög sérkennilegir tímar í íslensku stjórnmálalífi,“ segir Birgitta.

Hún segist velta fyrir sér hvort uppgefinn stuðningur við Pírata skýrist af því að fólk þyrsti í stjórnmálaafl sem ekki hafi svikið það. „Ég skynja það mjög sterkt frá fólki sem hringir í mig af öllu landinu að fólk krefst raunverulegra breytinga, ekki innantómra loforða sem eru kannski svikin strax að loknum kosningum. Ég held að það sé mjög brýnt að við förum að sjá stjórnarsáttmála fyrir kosningar en ekki eftir á.“

Um það hvort Píratar hyggist lýsa vantrausti á stjórnina eða hvort hún eigi að stíga til hliðar, segir Birgitta að eina leiðin sem sé fær í þeim efnum sé að fólkið í landinu krefjist þess.

\"En þegar fólk er komið með völdin þá sleppir það helst ekki og á því þarf að taka. Kannski er ég eins og rispuð plata en það eru mörg verkfæri í nýrri stjórnarskrá sem myndu valdefla almenning þannig að við gætum losnað við þá sem við treystum ekki lengur,“ segir Birgitta í viðtali við Hringbraut.

Ríkisstjórnin hlýtur að vera hugsi

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, er stödd í útlöndum en segir í svari við fyrirspurn Hringbrautar um tíðindin að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hljóti að vera mjög hugsi yfir stöðu sinni. „Ríkisstjórnin hefur rekið mjög massífa hægristefnu. Á sama tíma og almenningur sér hina hefðbundnu hagvísa benda í rétta átt upplifir fólk ekki að gæðunum sé skipt með réttlátum hætti. Þar nægir að nefna skattabreytingar sem gagnast þeim sem best hafa það, auðlegðarskatt, orkuskatt, veiðigjöld og fækkun þrepa, hækkun á matarskatti, en síðan er ekki ráðist í innviðafjárfestingu í menntun og heilbrigði.\"

Óboðlegt bankaferli – róttækar breytingar

Spurð hvað fleira skýri óvinsældir meirihlutans bendir Katrín á að VG hafi lagt fram ríkisfjármálaáætlun fyrir kosningar 2013 sem gerði ráð fyrir að þessir tekjustofnar yrðu áfram nýttir til að byggja upp innviðinaog kannski vilji þjóðin það. „Við sjáum líka vinnubrögð sem eru óboðleg þar sem ríkisbankinn selur verðmæti í lokuðu ferli en ekki opnu útboðsferli, vinnubrögð sem eiga að heyra til horfnum tíma. Þess vegna er ákall um róttækar breytingar, ný vinnubrögð en líka breytta skiptingu gæðanna. Ríkisstjórnin hlýtur að vera hugsi yfir stöðu sinni og hverju stefna hennar og vinnubrögð eru að skila að mati almennings.“

Hringbraut hefur sent tveimur ráðherrum ríkisstjórnarinnar fyrirspurn þar sem spurt er hvort til greina komi í ljósi vantrausts mikils meirihluta þjóðarinnar gagnvart verkum og stefnu meirihlutans að bregðast sérstaklega við. Engin svör höfðu borist áður en þessi frétt var birt.

(Fréttaskýring: Björn Þorláksson, [email protected])