Ég get varla búið með sjálfum mér

Það er sannkölluð sagnastund í Mannamáli vikunnar þar sem Hrísfirðingurinn Rúnar Þór Pétursson sest í stólinn við hliðina á Sigmundi Erni og segir þar frá lífi sínu og leik, en rokkarinn at arna er ættaður jafnt frá Ísafirði og úr Hrísey.

Þáttinn má nú sjá hér á vef stöðvarinnar, en þar lýsir hann skrautlegum æskuárunum af hispursleysi, þegar hann linaði óróa athyglisbrestsins með mentol-spritti í frímínútum í barnaskólanum vestra og sat fyrir vikið í fyrsta skipti kjurr í stærðfræði í næsta tíma á eftir, eða þegar hann ásamt Óskari bróður og einum til stal tíu hjóla bæjartrukknum og rúntaði sem oftar um kajann; Rúnar við stýrið, Óskar á gírnum og vinurinn undir sætinu með lófana til skiptis á bensíngjöfinni og kúplingunni.

Hann byrjaði að drekka vel eftir fermingu en magnið varð strax í meira lagi. Þó langaði hann eiginlega alltaf að hætta að drekka eftir að hann byrjaði á því - og rétt ríflega tvítugur var hann kominn í Hlaðgerðarkot innan um rígfullorðna róna og duggulega drykkjumenn. Á fyrstu samkomunni settist hann á aftasta bekk og hafði enga trú á guðsorðunum sem flutu í söngvum yfir salinn, en kleip sig samt í handlegginn og bað guð, ef hann væri á annað borð til, að lina skjálftann og timbrið innra með sér - og það gerðist umsvifalaust, Rúnari til stórrar undrunar - og guðsmaðurinn á gítarnum frammi við sviðið kvaðst meira að segja hafa séð það þegar rokkarinn frelsaðist á aftasta bekk. Svo var kallað í kost og þegar Rúnar gekk inn í matsal hugsaði hann með sér, æ nei, ég er bara 21 árs gamall og get ekki verið svona frelsaður og rólegur innan um alla miðaldra karlana það sem eftir er - og þar með skipti engum togum, á svipstundu fann hann til gamalkunnugs skjálftans og skelþynnkunnar og allrar þeirrar pínu svo hann náttúrlega sá strax eftir að hafa efast svona kæruleysislega um meistarans orð og efndir - og um leið og hann baðst vægðar heyrði hann einhvern segja að vissulega gæti maður gantast með margt, en ekki guðsins vilja og verk. Hann sumsé affrelsaðist sama daginn og hann frelsaðist.

Það er líka áheyrilegt að heyra kappann rifja upp tilurð plötunnar Rimlarokks með Litla-Hrauns-grúppunni Fjötrum í byrjun níunda áratugar síðustu aldar og kynni hans af Sævari Marinó Ciesielski sem hann tók undir það síðasta upp í bíl sinn á rúntinum þar sem Sævar, fallinn á bindindinu, grét við hlið hans; nú væri orðið sama þótt sannleikurinn kæmi í ljós, það væri búiðð að eyðileggja hann endanlega.

Og svo er það talið um öll hans börn, sjö að tölu með einum átta eða níu konum, eins og hann man það best. Hann kveðst lánsamur í einkalífinu, eiga frábæra afkomendur og dásamlegar barnsmæður, en hann vilji samt búa einn. Það sé varla að hann geti búið með sjálfum, hvað þá annarri manneskju. 

Sagnastundin í Mannamáli er sem fyrr segir á vef stöðvarinnar, en þættirnir eru frumsýndir öll fimmtudagskvöld klukkan 20:30.