Björt framtíð yfirgefur miðjuna

Björt framtíð yfirgefur miðjuna

 

Pírötum hefur nú tekist að leiða VG, Samfylkinguna og Bjarta framtíð að viðræðuborði um nýja vinstri stjórn fyrir kosningar. Þetta hefur lengi verið til tals og kemur að því leyti ekki á óvart.  En helstu tíðindin eru þau að Björt framtíð skuli fyrir kosningar yfirgefa þá stöðu sem hún virtist vera komin í á miðjunni til að tryggja sér aðild að nýrri vinstri stjórn.

Allt fram á haust bentu skoðanakannanir til að Björt framtíð gæti átt það á hættu að fá ekki mann kjörinn. Vandi hennar var fyrst og fremst sá að í nánu samstarfi stjórnarandstöðuflokkanna náði hún ekki að skapa sér sérstöðu. Atkvæðagreiðslan um búvörusamningana gjörbreytti þessari stöðu.

Samfylkingin sem lengi hafði talað með digrum barka um nauðsyn breytinga í landbúnaði varð að gjalti þegar hún ákvað að sitja hjá í þeirri atkvæðagreiðslu. Það er mesta hjálp sem núverandi ríkisstjórn hefur fengið til að viðhalda kyrrstöðu um sérhagsmuni.

Samfylkingin var í þeirri klípu að þurfa að velja á milli tveggja kosta: Annars vegar að sýna kjósendum að hún væri trú eigin málflutningi í þessu máli sem snerist um grundvallaratriði í átökunum milli sérhagsmuna og almannahagsmuna. Hins vegar að halda trúmennsku við  fyrirheitið um samstarf við VG eftir kosningar. Það hefði augljóslega beðið hnekki ef leiðir hefðu skilið í svo stóru máli á loka dögum þinghaldsins.

Kannski áttuðu Píratar sig ekki á að þetta var mál sem varðaði almannahagsmuni. En líklegra er að þeir hafi einnig látið skoðanir flokksins liggja milli hluta til þess að halda samstöðunni við VG og veikja ekki hugmyndina um vinstra samstarf. 

Björt framtíð valdi hinn kostinn.  Í beinu framhaldi fór fylgið að vaxa í skoðanakönnunum og margt benti til að flokkurinn væri að hasla sér sjálfstæðan völl á miðjunni.

Nú viku fyrir kosningar gengur Björt framtíð til liðs við hjásetuflokkana á vinstri vængnum til þess að fá sæti við þeirra borð. Upplýst hefur verið að engin stór mál skilji flokkana að. Skilaboðin til kjósenda eru þau að engar málefnalegar hindranir standi í vegi vinstri stjórnar.

Ef til vill breytir þetta ekki svo miklu. Björt framtíð átti alltaf þann kost að semja við vinstri flokkana eftir kosningar. Einu málefnalegu áhrifin eru þau að Björt framtíð missir samningsstöðu. Nú hefur hún fyrir fram bundið sig í þetta samstarf án þess að búið sé að gera út um málefnin. Eftir kosningar hefur hún því mjög veika samningsstöðu um málefni.

Í raun þýðir þetta að Píratar og VG þurfa ekki að fórna neinu í málefnum sem einhverju skiptir til að hafa Bjarta framtíð með. En þeir þurfa að gefa einn ráðherrastól eftir.

 

 

 

Nýjast