Ásgeir: „gætum mögulega haldið áfram að lækka vexti“

Ásgeir Jónsson er nýtekinn við embætti seðlabankastjóra. Hann ræddi við Jón G. Hauksson í þættinum Viðskipti með Jóni G. á Hringbraut í gærkvöldi. Þegar Ásgeir tók við lyklavöldum að embættinu lét hann hafa eftir sér að um væri að ræða eina starfið sem hefði getað dregið hann úr Háskóla Íslands, þar sem hann var forseti hagfræðideildar. Hann segir:

„Ég er lærður peningamálahagfræðingur þannig að það að fá að stjórna Seðlabankanum og þá seðlaprentun landsins hlýtur að vera æðsta markmið hvers peningamálahagfræðings.“

Einnig hefur Ásgeir sagst vilja gera embættið gagnsærra en það hefur verið. „Gagnsærra að því leyti að ég held að það sé mikilvægt að fólk átti sig á hvaða starf Seðlabankinn er að vinna. Helstu verkefni og líka þessar vaxtaákvarðanir, til dæmis að hækka vexti er ekki bara til þess að pína fólk eða vera leiðinlegur, það eru ástæður fyrir þessu. Við höfum ákveðið hlutverk.“

Eitt af því fyrsta sem peningastefnunefnd Seðlabankans gerði undir stjórn nýs seðlabankastjóra var að lækka stýrivexti, en þeir eru nú 3,5 prósent. Atvinnulífið fagnaði þeirri ákvörðun. Aðspurður um hvaða áhrifa megi vænta af þessari lækkun segir Ásgeir: „Bankarnir á Íslandi eru einkum í því að fjármagna fyrirtækin í landinu. Núna er niðursveifla og þá þurfum við að örva fjárfestingu. Þetta er mjög jákvætt, við erum að sjá gengi krónunnar vera mjög stöðugt.“

Niðursveiflan sem nú gengur yfir hefur ekki leitt til gengisfellingar krónunnar. „Fram til þessa, þegar það hefur komið niðursveifla, þá höfum við alltaf verið með svo mikinn halla og gengi krónunnar hefur fallið þannig að við höfum þurft að hækka vexti til að verja gengið. En ekki núna. Núna getum við lækkað vexti til þess að styðja við hagkerfið. Verðbólga hefur verið að ganga niður og ef þetta heldur áfram gætum við mögulega haldið áfram að lækka vexti.“

Viðtalið við Ásgeir í heild sinni má nálgast hér: