Það er ekkert heilbrigði án geðheilbrigðis

Næstu daga ætlar Helga María að gefa heilsuráð sem hún telur vera grunninn að góðri heilsu. Þriðja heilsuráðið snýr að geðheilbrigði.

Algengasta ástæða örorku hér á landi eru geðraskanir. Orsakir geðraskana geta bæði verið líkamlegar og/eða vegna umhverfisþátta. Það er margt sem hefur áhrif á það hvernig okkur líður og einnig margt sem við getum gert til að láta okkur líða betur. Það þarf að huga mjög vel að geðrækt og þá sérstaklega hjá börnum og ungmennum. Við sem erum orðin fullorðin þurfum einnig að passa hvernig við tölum um okkur sjálf því það endurspeglast á börnin okkar hvernig þau hugsa um eigið sjálf. Þetta þýðir að við þurfum öll að setja okkur í fyrsta sætið því það er erfitt fyrir aðra að elska okkur ef við gerum það ekki sjálf.

En þrátt fyrir að þetta hljómi einfalt þá getur þetta verið mjög strembið. Lífið tekur á og við lendum óhjákvæmilega í erfiðum og krefjandi aðstæðum, en það er sama í hvaða aðstæðum við lendum í þá stjórnum við hvernig við tökumst á við þær. Við þurfum að vera jákvæð, staldra aðeins við og reyna að gera lífið einfaldara fyrir okkur. 

Hugað að náunganum

Við þurfum að vera á varðbergi fyrir börn og náungann. Ef einstaklingur missir allt í einu áhugann á því sem það áður hafði gaman af, ef hann sefur illa, hefur litla matarlyst, gengur illa í skóla eða starfi, sýnir sterk viðbrögð við einföldum hlutum eða sýnir depurð eða vonleysi þurfum við að takast á við ástandið. Tala um tilfinningar okkar og leita aðstoðar. Ef ég fengi að ráða væri starfandi sálfræðingur í öllum grunnskólum og helst í öllum skólum landsins, við þurfum alveg á því að halda. Geðrækt er mjög mikilvæg þótt hún fái ekki háan sess í heilbrigðiskerfinu að mínu mati, en þess vegna er enn mikilvægara að við höfum augun opin og ræðum saman. Góð og jákvæð uppbyggjandi samskipti er lykilatriði. Við viljum koma fram við annað fólk þannig að því líður vel þegar það skilur við okkur. 

Hugarfar

Hugleiðslu tel ég bara vera af hinu góða. Ég man þegar vinkona mín átti erlendan kærasta þá sagði hún að þau rifust aldrei af því að hún varð alltaf að hugsa áður en hún svaraði og þá gat hún vandað orðin og ekki látið eitthvað flakka sem hún myndi strax sjá eftir. Það er svolítið þannig sem ég lít á hugleiðslu, það er að gefa okkur tíma, staldra aðeins við og hugsa hvernig við eigum að bregðast við aðstæðum og orðum þannig að útkoman verði sem best.

Hamingja er ekki hlutur sem við eignumst eða vinna sem við fáum. Hamingja er atferli, einhver aðgerð. Þegar okkur gengur vel í vinnunni eða eigum í góðum samskiptum við makann okkar erum við hamingjusöm. Hamingjan kemur þegar við leysum vandamál, ekki við að vera laus við vandamál. Það eina sem kemur í veg fyrir að við leysum vanda er þegar við lítum framhjá vandamálum eða sjáum okkur sem fórnarlamb og getum ekkert að gert. Það kann að láta okkur líða betur í smá tíma en það er ekki langtíma lausn. Það að leysa vandamál gerir okkur ánægð og hamingjusöm. 

En það að vera við góða geðheilsu þýðir ekki að okkur geti ekki liðið illa eða höfum engin vandamál. Makinn sem þið veljið ykkur er einnig sá einstaklingur sem þið rífist við, húsið sem þið keypið ykkur er eignin sem þið þurfið að gera við og draumastarfið sem þið fenguð er einnig starfið sem þið stressið ykkur yfir. En það þýðir að slæmu dagarnir eru töluvert færri en þeir góðu og að það eru þeir góðu sem standa uppúr. Munið að þið eruð öll æðisleg á ykkar eigin hátt og það mun enginn elska ykkur jafn mikið og þið sjálf svo það er um að gera að elska sjálfan sig alveg eins og maður er.  

Nokkur ráð sem tekin eru af síðu landlæknis til að styrkja þína geðheilsu eru:

  1. Borða reglulega og velja hollan mat
  2. Fá nægan svefn og hvíld
  3. Hreyfa sig reglulega, ég mæli með göngutúr í náttúrunni
  4. Vera í góðum félagsskap og sinna áhugamálum
  5. Slaka á með t.d. tónlist, bók eða hugleiðslu
  6. Hrósa og gefa af sér
  7. Standa með sjálfum sér og vera heiðarlegur
  8. Tala um líðan sína, íhuga hvað eykur orku og vellíðan
  9. Hugsa jákvætt og brosa 
  10. Leita eftir aðstoð

Fyrri heilsuráð:

#1 Ekki drekka sykurbætta drykki

#2 Besta leiðin til að fá góðan nætursvefn