Streita og streituvaldar

Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir mætti í Hugarfar hjá Helgu Maríu og talaði um algengi þess að fólk viðurkenni ekki streitu og tali ekki um vandamálið. Ólafur talaði um mikilvægi fjölmiðlamanna að opna umræðuna þar sem forvarnir eru ódýrar og árangursríkar. 

Það hefur fátt verið jafn mikið í umræðunni og streita og kulnun í starfi, eflaust sökum þess hversu margir tengja við einkenni streitu. Kröfur samfélagsins eru orðnar óteljandi og ekki möguleiki að framfylgja þeim öllum. Í umhverfinu eru fjölmargir streituvaldar, bæði jákvæðir og neikvæðir. Þeir geta til dæmis verið tengdir fjölskyldunni, vinnunni, peningum, veikindum eða tómstundum en þegar þeir verða of margir á sama tíma eða ef þeir standa yfir lengi hefur það bein neikvæð áhrif á heilsuna okkar. Við þekkjum þetta öll.

Ólafur segir þá sem eru duglegir og vinnusamir vera í meiri hættu á að finna fyrir streitu, en besta leiðin til að koma í veg fyrir streitu er hvíld. Flestir eru að keyra sig út á mikilli hörku og koma dauðþreyttir heim og fara þá að skutla börnunum á æfingar, elda matinn og vinna húsverk. Ólafur hræðist að með því að stytta vinnuvikuna, sem hann er hlynntur, fari fólk aðeins að nýta tímann í að vinna meira heima fyrir, en nýti ekki tímann í hvíld. 

Ólafur bendir á að við þurfum einnig að passa að vera ekki alltaf í vinnunni, snjallsímar gera það að verkum að við erum aðgengileg allan sólarhringinn og okkur finnst við vera ómissandi.

,,Það er svolítið fínt að upplifa sig ómissandi og margir gangast upp í því, þá finnst manni maður vera mikilvægur. Ég verð að viðurkenna að ég vil vera ómissandi og vinsæll læknir, auðvitað, en það er pínulítið óþægilegt að klukkan hálf tvö aðfaranótt sunnudagsins að fá langt bréf frá einhverjum manni úti í bæ sem ég hef aldrei hitt sem er að lýsa mikilli vanlíðan af streitunni. Þá verður maður svolítið hryggur og það hjálpar honum ekki mjög mikið en það kannski getur truflað mig því það verður meira álag á mig,” segir Ólafur Þór.

Streita getur bæði haft andleg og líkamleg áhrif á einstaklinga. Andleg áhrif geta verið til dæmis minnistruflanir, neikvæðni, stöðugar áhyggjur, einmanaleiki, reiði og óhamingja og líkamlegu áhrifin geta sem dæmi verið truflun í ónæmiskerfinu, ófrjósemi og einnig  meltingar-, blóðþrýsings- og húðvandamál. En hvað getum við gert til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif streitu?

Ráð til einstaklinga:

  • Lærðu að hvíla þig og taktu stuttar pásur yfir daginn. Vertu lengi á salerninu, farðu út í bíl og hlustaðu á lag, kjaftaðu aðeins við vinnufélagana og farðu út í smá göngutúr á vinnutíma.
  • Settu sjálfan þig í forgang, hugsaðu um svefninn þinn, hreyfingu og mataræði. Hreyfing er grundvallaratriði þegar það kemur að streitu en passa þarf að hreyfa sig ekki of mikið heldur, ekki keyra sig út.
  • Lærðu að segja nei, ekki ofhlaða á þig verkefnum.
  • Ekki taka hlutina of nærri þér, ekki vera ofurduglegur.
  • Leitaðu aðstoðar, hvort sem það eru ráðleggingar eða að fá einhvern til að hlusta á þig.
  • Ekki drekka áfengi, við viljum ekki skerða dómgreindina þegar við finnum fyrir steitu og einnig skerðast gæði svefns við neyslu áfengis. 

Ráð til þeirra sem stjórna fyrirtækjum, þeir hafa bein og góð áhrif á heilsu starfsmanna. Ekki aðeins líður starfsmönnunum betur heldur lifa þeir lengur:

  • Það má ekki lyfta álagi upp eins og um dyggð sé að ræða.
  • Gefa starfsmönnum tíma til að hvíla sig á vinnutíma.
  • Bjóða upp á hugleiðslu og hollan mat.
  • Hafa góð samskipti og opin.

Hægt er að horfa á allt viðtalið við Ólaf Þór hér fyrir neðan: