Steindór átti rendezvous-fund með Tom Cruise: „Það er hreinlega óraunverulegt að sjá hann“

Blaðamaðurinn Steindór Grétar Jónsson er staddur á Cannes-kvikmyndahátíðinni í Frakklandi. Þar fékk hann að mæta á svokallaðan rendezvous-fund með ástsælu kvikmyndastjörnunni Tom Cruise, en hann segir frá því í stórskemmtilegum pistli sem birtist vef Stundarinnar í dag.

„Hvað gæti ég mögulega spurt þessa mannveru, sem fyrir mér hefur í raun alltaf verið til, en ég hef aldrei séð í eigin persónu? Ég gæti alveg eins fallið á kné fyrir framan altaristöflu og spurt Jesúm út í ferilinn hans. Með hverjum af lærisveinunum fannst þér best að vinna? Hvert var, að þínu mati, þemað í Brúðkaupinu í Kana? Kemur framhald?“ skrifar Steindór sem í kjölfarið veltir fyrir sér Tom Cruise og fer yfir ferill hans.

Þá fer Steindór að fjalla um þennan fund sem blaðamenn áttu með kvikmindastjörnunni. „Ég geng inn í salinn, vitandi að ég þori ekki að spyrja hann um það. Ég þori í raun ekki að spyrja hann um neitt. Hvað getur reykvískur drengur svo sem lært af manni sem deilir hreinlega ekki sama stigi meðvitundar og hann?“

Hann lýsir því þegar Tom Cruise labbar inn í umræddan sal og hvernig hann nær salnum á sitt band.

„Eftir 20 mínútna myndband með mestu tilþrifunum úr kvikmyndum Tom gengur maðurinn sjálfur á svið við dynjandi lófatak. Það er hreinlega óraunverulegt að sjá hann. Svartklæddur frá toppi til táar, spengilegur og með skjannahvítt bros, jafnvel aðeins hávaxnari en ég bjóst við. Hann ber ekki árin utan á sér. Hvað er eiginlega í vígða vatninu þarna í Vísindakirkjunni? „Eftir allt sem við höfum gengið í gegnum er þetta svo fallegt augnablik að vera hér í kvikmyndahúsi með ykkur,“ segir Tom og salurinn bráðnar.“

Þá greinir Steindór frá því að það sé einungis fundarstjóri sem fær að pyrja Tom Cruise spuringa. Hann greinir þó fra´umfjöllunarefnum leikarans.

„En fljótt kemur í ljós að það er einungis fundarstjórinn sem fær að spyrja hann spurninga. Tom ræðir um mikilvægi kvikmyndalistarinnar, kvikmyndahúsanna sjálfra, samvinnunnar á bak við hverja mynd og hvað hann njóti mikilla forréttinda að vera í þeirri stöðu sem hann er í. Hann rifjar upp æsku sína, hvernig hann var alltaf að framkvæma sín eigin áhættuatriði inni á heimilinu. Hvernig hann mokaði snjó til þess að eignast pening fyrir bíómiðum. Og satt best að segja, þá fer mér smá að leiðast. Hann endurtekur sig og þó að hann sé sjarmerandi þá tekur hann hvorki mikla áhættu né berskjaldar sig. Ekki þegar hann leikur hlutverkið „Tom Cruise“. Það hefur ekkert bitið á hann hingað til og mig grunar að þó að beinagrindurnar brjótist einn daginn út úr skáp Vísindakirkjunnar, þá muni það varla á hann fá. Tom er mögulega „too big to fail“ í svokallaðri slaufunarmenningu samtímans og fundarstjórinn spyr hann allavega ekki að neinu erfiðu.“

Hægt er að lesa pistill Steindórs í heild sinni hér.