Segir pólskipti hafa orðið í leikskólanum í London

Sif Sigmarsdóttir, rithöfundur og pistlahöfundur í Fréttablaðinu, spyr í sínum nýjasta pistli í helgarblaði Fréttablaðsins hvort að vandamál tvítyngdra barna sé samfélagslegt, en ekki sjálfri íslenskukennslunni eða málvísindunum að kenna.

Tilefni umræðunnar er ný rannsókn íslenskra vísindakvenna sem fjallað var um í vikunni og sýndi að tvítyngd börn á Íslandi með íslensku sem annað mál læri takmarkaða íslensku í leikskólum. Vísindakonurnar sögðu niðurstöðurnar bæði óvæntar og alvarlegar og að þær kalli á breytt viðhorf í málörvun tvítyngdra leikskólabarna.

Sif heimfærir þetta á sinn eigin veruleika en hún hefur verið búsett í London í 20 ár og alið þar upp börn sín.

„Börnin mín þrjú höfðu öll íslensku að móðurmáli fyrstu ár lífs síns. En í leikskóla urðu pólskipti. Enskukunnáttu þeirra fór hratt fram. Ekki leið á löngu uns annað mál þeirra varð fyrsta mál. Þótt íslenska væri töluð á heimilinu, lesið væri fyrir börnin á íslensku og daglega væri Netflix-fjarstýringin rifin af þeim og þau neydd til að horfa á rispaðan DVD-disk með Skoppu og Skrítlu jókst alltaf bilið milli íslensku- og enskukunnáttu þeirra,“ segir Sif í pistlinum og að margir Íslendingar í London hafi sömu sögu að segja.

„Við Íslendingar í London erum ekki Bretar. Það er samt í gegnum okkur, ekki bara leikskólann, sem börnin okkar verða hluti af bresku samfélagi. Börn innflytjenda á Íslandi standa höllum fæti í íslensku. Getur verið að vandamálið sé ekki aðeins málvísindalegt heldur einnig samfélagslegt? Spyr sá sem ekki veit.“

Pistillinn er hægt að lesa hér.

Fleiri fréttir