Gunnhildur Þorbjörg Sigþórsdóttir bjargaðist fyrir algert kraftaverk úr alvarlegu bílslysi þegar hún var á sautjánda ári og bíll sem hún ók í óleyfi hafnaði ofan á henni utan vegar svo bæði lungun sprungu.
Hún sagði áhorfendum Hringbrautar sögu sína í gærkvöld svo eftir var tekið, en eftir slysið tók við tveggja mánaða dá á meðan ættingjar hennar biðu á milli vonar og ótta um hvort hún myndi lifa slysið af. Og stúlkan hafði að lokum betur, þótt hún missti annað lungað og nánast allar tær sakir þeirrar kælingar sem læknismeðferðin krafðist. Hún á bata sinn ekki hvað síst að þakka hæfu og þrautseigu heilbrigðisstarfsfólki og byltingarkenndri meðferð sem hafði aldrei verið reynd áður, en vegna slyssins söfnuðu heimamenn Gunnhildar á sunnanverðum Vestfjörðum með hjálp margra annarra landsmanna fyrir fyrsta lungna- og hjartatækinu í sögu íslenskrar spítalaþjónustu. Læknisaðgerðin á Gunnhildi reyndist að lokum vera flóknasta og dýrasta lækning sögunnar hér á landi, en hún markaði tímamót í slysalækningum hér á landi og vakti athygli víða um heim.
Saga Gunnhildar er einstök og afar áhrifarík, enda er hún saga sigurvegara frammi fyrir nánast óvinnandi og ómögulegri læknisaðgerð fyrir aldarfjórðungi.
Örlögin eru endursýnd í dag, en eru einnig sjáanleg hér á vef Hringbrautar.