Af hverju stafar hjartaáfall er ein meginspurninganna sem svarað var í fræðsluþættinum Líkaminn á Hringbraut í gærkvöld, en þar sitja læknar og aðrir sérfræðingar á sviði heilbrigðisvísinda fyrir svörum.
Þáttinn má nú sjá á vef stöðvarinnar - undir flipanum sjónvarp - en inntak hans er með þeim hætti að í hverjum þætti er þremur áhugaverðum spurningum um mannslíkamann og starfsemi hans svarað af fagfólki - og fyrir utan spurninguna um hjartaáfallið fá áhorfendur þáttarins í kvöld að kynnast því hvað blóðið gerir og af hverju það skiptist í jafn marga flokka og raun ber vitni, en einnig er fjallað um fyrstu hjálp og farið yfir þá þætti sem helst þarf að hafa í huga þegar slys verða á vegi manns.
Umsjármenn Líkamans eru hjúkrunarfræðingurinn Helga María Guðmundsdóttir og sjónvarpsmaðurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson og eru þættirnir frumsýndir öll miðvikudagskvöld klukkan 20:00.