Kraftur - lífið er núna

Hulda Hjálmarsdóttir framkvæmdarstjóri styrktarfélagsins Krafts sigraðist á hvítblæði á unglingsárum. Hún segir okkur frá hversu mikilvægt er að hafa fólk í kringum sig á erfiðum tímum til að leita til, til huggunar, stuðnings og skilnings. Hún kynnist Krafti eftir sín veikindi og sá strax fyrir sér að verða mikilvæg stoð í félaginu. Í dag er Hulda framkvæmdarstjóri Krafts sem stendur fyrir átakinu Krabbamein kemur öllum við - Lífið er núna. Í tengslum við átakið fékk Kraftur 22 einstaklinga til þess að segja  og skrifa eigin reynslusögu og vekja athygli á því að krabbamein fer ekki í manngreinaálit og kemur öllum við.

Njáll Þórðason er einn  22 einstaklinga sem fram koma, hann er með 4. stigs ristilkrabbamein og lýsir í þættinum  hvernig veikindin hafa mikil áhrif á alla í kringum sig. Njáll er tveggja barna faðir, eiginmaður, vörustjóri hjá Símanum og auðvitað sjálfskipaður sendiherra Stykkishólms. Hann er með einstakt hugarfar og sjaldséðan drifkraft. 

 Átakið felur í sér söfnun til styrktar allri starfsemi félagsins með sölu á fallegum handperluðum armböndum. Kraftur hefur fengið hundruði íslendinga í sjálfboðavinnu við að perla armböndin og hefur salan farið fram úr væntingum.

Lokahnykkur átaksins fer fram í Hörpu næstkomandi sunnudag 4. febrúar þar sem stefnt er að að setja Íslandsmet í fjölda einstaklinga sem koma saman á einn stað og perla armbönd þann 4. febrúar sem er Alþjóðadagur gegn krabbameini og þar af leiðandi tilvalin dagur til að slá íslandsmetið í samstöðu og stuðningi.