Karl Ágúst al­var­lega veikur og dregur sig í hlé: „Ekki er fram­tíð manns alltaf fyrir­sjáan­leg“

Karl Ágúst Úlfs­son, einn ást­sælasti leikari, leik­stjóri og rit­höfundur þjóðarinnar, greindist með heila­æxli fyrir þremur mánuðum. Karl greindi fé­lögum sínum í Rit­höfunda­sam­bandinu (RSÍ) frá þessu í morgun. Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins.

Æxlið, sem reyndist góð­kynja, var fjar­lægt með skurð­að­gerð en vegna veikinda sinna hefur Karl á­kveðið að draga sig í hlé sem for­maður sam­bandsins. Karl Ágúst birti til­kynningu þess efnis í lokuðum hópi fé­laga í Rit­höfunda­sam­bandinu og stað­festi hann þessi tíðindi í sam­tali viðFrétta­blaðið.

Karl var endur­kjörinn for­maður til tveggja ára á aðal­fundi sam­bandsins á síðasta ári.

„Í ljósi þess reiknaði ég með að gegna því starfi í sex ár saman­lagt, eða frá 2018 til 2024. En ekki er fram­tíð manns alltaf fyrir­sjáan­leg og nú hefur komið í ljós að svo muni ekki verða. Það eru heilsu­fars­leg skakka­föll sem valda því,“ sagði Karl Ágúst meðal annars.

Karl segir að að­gerðin þar sem æxlið var fjar­lægt hafi heppnast vel en þrátt fyrir það eigi hann langt í land með að stunda þau störf sem hann hafði tekið að sér.

„Eitt af þeim er for­mennska RSÍ. Á­hrif skurð­að­gerðar á heila manns geta verið mikil og erfið viður­eignar. Að­gerðin dró stór­lega úr líkam­legri getu minni, en ég hef náð að endur­heimta hluta hennar með sjúkra­þjálfun. Það er þó einkum og sér í lagi breytt starf­semi heilans sem háir mér og á að öllum líkindum eftir að skila sér til baka á löngu tíma­bili,“ segir hann í færslu sinni.

Hann bætir við að þetta hafi kveikt hjá honum al­var­legan efa að hann búi nú um all­nokkurt skeið yfir and­legri og vits­muna­legri getu sem honum þykir nauð­syn­leg til að sinna for­mennsku sam­bandsins jafn vel og æski­legt er.

„Af þeirri á­stæðu óska ég eftir að stíga út úr starfi formanns RSÍ. Ég mun sem sagt ekki gegna em­bættinu fram að aðal­fundi ársins 2024.“

Margrét Tryggva­dóttir, vara­for­maður sam­bandsins, mun gegna skyldum formanns þangað til annað verður á­kveðið, að sögn Karls.

„Mér þykir afar vænt um Rit­höfunda­sam­band Ís­lands og hef tekið að mér marg­vís­leg verk­efni fyrir það á þeim fjöru­tíu árum sem liðin eru frá því ég gerðist þar fé­lagi. Ég hef haft mikla á­nægju af starfi sem for­maður og þykir því býsna sárt að kveðja það fyrr en ég ætlaði. Ég tel það þó rétta á­kvörðun og óska eftir að ein­hver taki við keflinu sem ræður við það betur en ég um þessar mundir. Loks vil ég þakka það traust sem mér hefur verið sýnt og gott sam­starf við annað stjórnar­fólk, samninga­nefndir og alla þá sem tekið hafa að sér að þjóna hags­munum rit­höfunda á öllum sviðum,“ segir Karl og sendir að lokum bestu kveðjur til fé­laga sinna í sam­bandinu.

Fleiri fréttir