Er ekki allt í lagi með þig, drengur?

\"Er ekki allt í lagi með þig, drengur?\"

Þannig spyr faðir ungra barna sem æfa fótbolta á Akureyri fyrrverandi formann skólanefndar Akureyrarbæjar. Tilefnið er umræða hvort Akureyrarbær hyggist fara að dæmi Seltirninga og láta fjalrlægja sem skjótast allt gúmmíkurl við íþróttasvæði en mjög hefur verið fjallað um það álitamál síðustu daga í mörgum sveitarfélögum. Umhverfisstofnun hefur skaðsemina til skoðunar.

\"Ég bíð spenntur eftir sambærilegri frétt um að bæjaryfirvöld á Akureyri ætli að láta fjarlægja þennan óþverra af íþróttasvæðum barnanna okkar,\" skrifaði Þóroddur Bjarnason prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri og foreldri á eigin fésbókarvegg. Hann á börn sem æfa fótbolta á sparkvöllum þar sem grunur leikur á að kurl úr dekkjum geti haft neikvæð áhrif á heilsu iðkenda.

Um mikil útjöld yrði að ræða fyrir sveitarfélögin. Bjarki Ármann Oddsson, fv. formaður skólanefndar Akureyrar, virðist ekki telja að sérstök ástæða sé til að flýta sér í þessum efnum. Í umræðu um málið á fésbókarsíðu Þóroddar kemur fram hjá Bjarka að hann telji engar sannanir fyrir skaðsemi efnanna á íþróttasvæðunum. \"Enn er ekkert sem sannar að dekkjakurlið sé hættulegt, held að prófessorinn ætti að vita að það er betra að styðjast við staðreyndir en getgátur. Það er líka fullt af hættulegum efnum í malbiki - eigum við ekki að skipta því út líka?\" Spyr Bjarki á þræði Þóroddar.

Þóroddur bregst við með því að vitna til greinar í Læknablaðinu. Sex ár séu liðiin síðan Læknafélag Íslands skoraði á stjórnvöld að banna \"þennan ófögnuð\". \"Ég trúi því tæpast að þú sért að leggja til að bíða eftir því að nógu mikill skaði verði af þessu til að bæjaryfirvöld sannfærist,\" spyr prófessorinn og faðirinn Þóroddur Bjarnason fv. formann skólanefndar á Akureyri.

Bjarki svarar: \"Það sem er langverst þegar maður fylgist með þessari umræðu eru öfgarnar og heiftin. Er búinn að sjá fólk leggjast í þvílíkan skotgrafnarhernað eftir því hvort fólk er í meiri- eða minnihluta í sveitarstjórn útum allt land. Þetta er í hæsta falli kjánalegt. Á Íslandi er búið að vera notast við dekkjakurl í 10. ár, ekki eitt krabbameinstilvik eða hvað sem er má rekja til þess.. ekki eitt! Danska umhverfisstofnunin gengur svo langt að fullyrða að ekki sé meiri heilsufarsleg áhætta við að nota gervigrasvelli með gúmmíkurli en venjulega grasvelli.Þó að ekkert bendir til að notkun á dekkjakurli fylgi heilsufarsleg áhætta, þá inniheldur dekkjakurl hættuleg og skaðleg efni sem yfirvöld í Noregi og Svíþjóð vilja draga úr notkun á og því hafa þau gefið út tilmæli um að skipta því út við endurnýjun eða innleiðingu á nýjum gervigrasvöllum.\"

Eftir viðbrögð við þessu bætir fv. formaður skólanefndar Akureyrarbæjar við: \"Haha að lesa þessar \"hugsið um börnin\" röksemdarfærslur frá þér... fleiri börn deyja vegna einbreiðra brúa en gúmmíkurls á Íslandi.. hvar er sá þrýstihópur?\"

Þóroddur spyr þá Bjarka Ármann hreint út: \"Er ekki í lagi með þig, drengur?\"

Áætlaður kostnaður við breytingarnar á Seltjarnarnesi er 75 millj­ón­ir króna, það er að útrýma gúmmíkurlinu. Sagðar hafa verið fréttir af börnum sem séu eins og námugraftrarmenn að lokinni iðkun og mikilli lykt sem fylgi. Fyrir norðan á Akureyri er þetta kurl skv. upplýsingum Hringbrautar ekki bara á sparkvöllum barna heldur einnig í knattspyrnuhúsunum, t.d. Boganum. Ef fer sem horfir verður ekki brugðist við vandanum strax hjá Reykjavíkurborg eftir því sem fra hefur komð í fréttum. Mismikil umræða hefur samkvæmt athugun Hringbrautar verið tekin um þennan vanda í sveitarfélögum víða um land en fjárhagur sveitarfélaga virðist hafa nokkuð um það að segja hvort sveitar- og bæjarstjórnir telji brýnt að bregðast við.

Þá er mikill hiti vegna máls sem mbl.is greinir m.a. frá í dag, þar sem börn voru látin hreinsa klaka af sparkvelli sem er búinn dekkjakurli.