Greinendur stjórnmálaástandsins hér á landi þykjast nú merkja meiri undiröldu innan ríkisstjórnarinnar en áður hefur sést. Þótt talsmenn stjórnarflokkanna reyni stundun að bera sig mannalega og tali um að þeir taki ekkert mark á skoðanakönnunum eru þeir nú komnir upp að vegg eftir að hver Gallupkönnunin hefur rekið aðra þar sem fylgi ríkisstjórnarflokkanna hefur hrunið og sígur heldur niður á við með hverjum mánuðinum sem líður.
Þeir eru vissulega ekki öfundsverðir af því að þurfa að svara fyrir nýjustu niðurstöðu Gallups sem birtist þann 1. ágúst sl. Þá mældist flokkur vinstri grænna utan þings með 3,5 prósent fylgi og tapar því öllum átta þingsætum sínum. Sjálfstæðisflokkurinn fengi samkvæmt þeirri könnun 17,2 prósent og tapaði 5 þingmönnum miðað við núverandi stöðu og Framsókn fengi einungis 7,2 prósent atkvæða sem gæfi þeim 5 þingmenn, en 8 þingmenn Framsóknar myndu tapast. Þetta eru hrikalegar niðurstöður, vægast sagt. Stjórnarflokkarnir mælast einungis með 27,9 prósenta fylgi samtals - en Samfylkingin ein er með 27,6 prósent í sömu könnun.
Að undanförnu hefur mátt greina vaxandi óvild frá sjálfstæðismönnum í garð Framsóknar. Illyrðin hafa einkum beinst að Ásmundi Einari Daðasyni menntamálaráðherra vegna ágreinings meðal skólamanna um aðferðir við að mæla árangur eða árangursleysi barna. Gefið hefur verið til kynna að brotalamir finnist í kerfinu og mætti ætla að þær séu allar á ábyrgð Ásmundar.
Flokksmenn virðast hafa gleymt öllum þeim menntamálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins sem hafa ríkt í ráðuneytinu árum og áratugum saman. Eflaust gengur mönnum erfiðlega að muna eftir menntamálaráðherrum flokksins, þeim Illuga Gunnarssyni og Kristjáni Þór Júlíussyni, sem gegndu embættinu árin 2013 til 2017 en komu nær engu í verk á embættisferli sínum. Annað gildir um Björn Bjarnason sem var starfssamur ráðherra menntamála og er einn þeirra sem hafa verið með skæting á síðum Morgunblaðsins í garð Ásmundar Einars.
Þá þykir næsta hjákátlegt að Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur hafi verið teflt fram í deilur um málefni barna og barnafjölskyldna þar sem hún hefur lýst miklum skoðunum á því hvað börnum og barnafjölskyldum sé fyrir bestu hvað varðar skólamáltíðir og námsgögn. Varla er hún mestur sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í barnauppeldi og skólamálum. Þá er áberandi hve mikið Morgunblaðið hefur látið ágreining um samræmd próf til sin taka. Meðal annars hefur blaðinu þótt ástæða til að birta um það leiðara þar sem fyrirsögnin er „Lausung í ríkisstjórn“.
Greinendur eiga því ekki að venjast að skólamál af þessu tagi séu skyndilega gerð stórpólitísk. Af nógu er að taka varðandi óafgreidd mál þessarar ríkisstjórnar sem engin samstaða virðist vera um á vettvangi stjórnarinnar. Ætla mátti að stjórnarflokkarnir myndu reyna að einbeita sér að því að ná samstöðu um stóra málaflokka sem ágreiningur er um. Í stað þess er nú bryddað upp á nýjum ágreiningi og spjótum beint að Framsókn, einkum ráðherra flokksins Ásmundi Einari Daðasyni.
En hvar skyldu skýringar liggja? Því er nú haldið fram að formaður Sjálfstæðisflokksins sé að vakna til vitundar um það að verði ekki gripið til áhrifamikilla aðgerða muni staðan einungis versna fram að næstu kosningum og versna því meira sem kosningar dragist lengur. Bent er á að verði kosningar dregnar í rúmlega heilt ár enn gæti niðurstaðan orðið flokknum skelfileg útreið sem tæki mörg kjörtímabil að jafna sig á.
Nú leikur grunur á því að sjálfstæðismenn séu komnir með stórt plan sem gæti litið svona út:
Litið er svo á að Vinstri græn geti ekki rétt úr kútnum og séu úr leik. Sjálfstæðisforystan óttast að Framsókn vilji ekki vinna með þeim eftir næstu kosningar og telur sig hafa heyrt orðróm um að sumir forystumenn flokksins, eins og t.d. Ásmundur Einar Daðason, vilji samstarf við Samfylkinguna og fleiri flokka í nýrri ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna var nú tekið fyrsta skref til að reyna að ófrægja Ásmund vegna umræddra skólamála.
Þetta þykir bera vott um vanhugsaða áætlun og mikið stress í Valhöll. Tilhugsun forystumanna Sjálfstæðisflokksins um að lenda utan ríkisstjórnar skelfir þá. Minnast menn yfirstandandi eyðimerkurgöngu í borgarstjórn Reykjavíkur sem virðist engan enda ætla að taka. Í ljósi þessa er nú unnið að því að koma með raunveruleg eða tilbúin ágreiningsmál upp á yfirborðið til þess að geta tekið forystu um stjórnarslit sem þykir vera mikilvægt innlegg í kosningabaráttu.
Þannig vakti það athygli í viðtali sem birtist við formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Hildi Sverrisdóttur, um helgina að hún sagði með afgerandi hætti að framhald á núverandi stjórnarsamstarfi kæmi ekki til greina eftir komandi kosningar. Þeir sem til þekkja vita að hún hefur ekki farið í þetta viðtal og ekki sagt þetta nema með vitund og vilja Bjarna Benediktssonar formanns flokksins. Nú sér Sjálfstæðisflokkurinn ekki aðra leið en að freista þess að ná bærilegum kosningaúrslitum og fá að skríða inn í hlýjuna hjá Samfylkingunni. Tæpast mun Samfylkingin selja sig svo ódýrt.
Draga verður þær ályktanir af yfirlýsingu formanns þingflokksins að senn megi vænta tíðinda. Og þá mun Sjálfstæðisflokkurinn ná forskoti inn í kosningabaráttu taki hann frumkvæðið og takist á við þau mörgu vondu mál sem ríkisstjórnin þarf að horfast í augu við með því að þakka sér það sem vel hefur tekist en kenna Vinstri grænum og Framsókn um það sem farið hefur úrskeiðis. Til þess verður vel æfðum og ófyrirleitnum áróðri beitt – og miklum peningum því að Sjálfstæðisflokkurinn á nú næga peninga í sjóðum eftir að Reykjavíkurborg leyfði honum að selja byggingarreiti á lóð sinni við Valhöll.
Peningar munu nú skipta meira máli en oft áður þegar einn flokkur á nóg til en allir aðrir flokkar eru staurblankir að vanda.
- Ólafur Arnarson.