Betri nætursvefn

Dr. Erla Björnsdóttir svefnráðgjafi mætti til Helgu Maríu í Hugarfar og gaf góðar ráðleggingar fyrir fólk sem vill ná betri nætursvefni.

Erla mælir með að nota birtu til að vakna á morgnana. Birtan hefur hamlandi áhrif á melatónín í líkamanum og gerir það að verkum að við verðum ekki jafn þreytt og komumst fyrr á gott ról. Rútína og regla er aðal hjálpartækið þegar kemur að góðum nætursvefni segir Erla, en hver eru önnur ráð sem hægt er að fara eftir, fyrir t.d. fólk í vaktavinnu sem er líklegra til þess að vera með svefnvandamál?

,,Við erum auðvitað í aukinni slysahættu ef við erum illa sofin, við gerum fleiri mistök, viðbragðsflýti okkar er ekki sérstaklega góð og einbeiting ekki heldur og svo er auðvitað þessi hætta að sofna við stýrið, það er annar þáttur sem skiptir mjög miklu máli,” segir Erla.

Hún bætir við að fólk eigi ekki að hrósa sér fyrir að sofa lítið og að það sé ekki tákn um dugnað. Hvíldin er bæði jafn mikilvæg fyrir heilann og líkamann. Við lítinn svefn eykst bólgumyndun í líkamanum og við förum að sækja í óhollara fæði. Það á að setja svefninn í forgang og hún mælir með að stytta vinnuvikuna.

Helstu ráðleggingar Erlu eru:

  • Hafa reglu og rútínu fyrir svefninn
  • Ekki vera í raftækjum fyrir svefninn
  • Hafa huggulegt inni í svefnherberginu
  • Huga að því hvað við gerum áður en við förum að sofa
  • Ekki drekka koffín fyrir svefn og ekki borða þunga máltíð
  • Deyfa birtuna fyrir svefn 

 Viðtalið við Dr. Erlu Björnsdóttur í heild má finna í myndbandinu hér fyrir neðan: