Veikindi og smithætta - hvenær má barnið mæta í skólann?

Nú fer vetur konungur senn að skella á landinu þrátt fyrir að veðrið hafi verið með besta móti undanfarna daga. Fljótlega fer að kólna í veðri, börnin eru byrjuð í skólanum og foreldrarnir líklega strax farnir að hafa áhyggjur af veikindum sem fara að öllum líkindum að mæta á svæðið.

Börn eru öll misjafnlega byggð og hvert og eitt þeirra getur tekist á við veikindi á mismunandi hátt, alveg eins og við fullorðna fólkið. Sum börn fæðast með verra ónæmiskerfi en önnur og grípa hverja pestina á fætur annarri á meðan önnur börn fá varla kvef.

Það getur því verið gott að hafa til hliðsjónar hvernig best sé að bregðast við þegar pestirnar ákveða að láta sjá sig.

Hiti hjá börnum

„Almennt er talað um að börn séu komin með hita ef líkamshiti þeirra fer yfir 38°C, en mörkin eru mismunandi eftir því hvernig hitinn er mældur.“ Segir á heimasíðu Heilsuveru.

Holhandar-, eyrna- og ennismælar eru auðveldari í notkun heldur en endaþarms- og munnmælar en þeir eru ekki eins nákvæmir. Yfirleitt er hægt að nota munnmæla hjá börnum þegar þau hafa náð 4 ára aldri. En endaþarmsmælingin er talin nákvæmust. Áreiðanlegasta hitamælingin fæst ef börn eru í hvíld.

 

Algengustu ástæður fyrir hita hjá börnum eru:

  • Kvef eða flensa
  • Öndunarfærasýking
  • Magapest
  • Börn geta líka fengið hita í kjölfar bólusetningar.

Ráð til að nota heima við

  • Fylgist með hitanum á 2-4 tíma fresti.
  • Haldið vökva að barninu. Börn eru oft lystarlaus þegar þau eru með hita. Leggið því meiri áherslu á að barnið drekki heldur en borði.
  • Gefið hitalækkandi lyf á 4-6 tíma fresti ef barninu líður illa. Hiti er eðlilegt varnarviðbragð líkamans og því er óþarfi að gefa hitalækkandi lyf ef barninu líður ekki illa með hitanum.  
  • Skapið rólegt og notalegt umhverfi fyrir barnið og leyfið því að hvílast þegar það vill, án þess þó að þvinga það til að hvílast.
  • Hafið barnið í léttum og þægilegum fatnaði og notið lak í stað sængur.

Leitaðu ráða hjá heilsugæslu

  • Hiti hefur varað í 3 sólarhringa og lækkar lítið við hitalækkandi lyf eða engin sýnileg ástæða er fyrir hitanum.
  • Gult hor/slím hefur verið samhliða hitanum í yfir 3 sólarhringa.
  • Barn er með langvinnan sjúkdóm, s.s. sykursýki, flogaveiki.
  • Barninu finnst sárt að pissa.
  • Blæðing, útferð eða verkir í leggöngum.
  • Uppköst, niðurgangur eða verkir í maga.
  • Verkur í eyrum, eða hálsi.
  • Barnið er með útbrot.

Leitaðu læknis á bráðamóttöku:

  • Barnið á erfitt með andardrátt.
  • Húð eða varir eru bláleitar.
  • Getur ekki kyngt, slefar mikið.
  • Fjólubláir eða blóðlitaðir litlir punktar eða doppur á húð barnsins.
  • Mikill höfuðverkur eða mikill magaverkur.
  • Krampar
  • Útbrot, rauð tunga og stækkaðir eitlar á hálsi.
  • Barnið virðist mjög veikt, mjög slappt eða mjög pirrað.
  • Ef hitinn (endaþarmsmæling) fer yfir eftirfarandi mörk:
  • Hiti er yfir 38°C hjá börnum yngri en 3 mánaða.
  • Hiti nær 40°C hjá börnum 2-6 mánaða, eða þau eru með niðurgang eða uppköst.
  • Hiti er yfir 40°C og lækkar lítið þrátt fyrir hitalækkandi lyf.
  • Ef merki eru um að barnið er að þorna