Næsta ríkisstjórn fær skellinn

Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur, fyrrverandi alþingismaður og nú rektor á Bifröst, sagði í viðtali við mig að ekkert komi í veg fyrir djúpa efnahagslega lægð innan fimm ára. Trúlegast skellur hún á okkur á næsta kjörtímabili. Síðustu ár höfum við vísvitandi hlaðið í bálköstin, að mati Vilhjálms.

Dómur Vilhjálms er þungur. Hann segir okkur hafa vitandi vits lagt af stað í öngstræti sem við eigum bara eina leið úr; skell.

Við höfum blásið í launabólu.

„Besti mælikvarðinn á hana er að ársbreyting launavísitölu hefur nú sex mánuði í röð verið í tveggja stafa tölu og horfur á því að þessi hækkunarferill haldi eitthvað áfram. Undanfarin ár hefur hinn mikli uppgangur ferðaþjónustunnar leitt hagvöxtinn og hann verið það sem kallað er útflutningsdrifinn. Nú eru tölurnar frá Hagstofunni farnar að snúast hratt við og öll merki farin að benda til þess að hagvöxturinn verði í síauknum mæli neysludrifinn.“

Við blásum í fleiri bólur. „Hagvöxturinn er nú aftur að verða neysludrifinn og ekkert lát er á launahækkunum umfram það sem atvinnulífið í raun rís undir er hægt að byrja að telja niður í að bólan springi.  Verðhækkun á fasteignum er ein birtingarmyndin og það verður athyglisvert að fylgjast með því hvernig aðgerðir í húsnæðismálum sem auðvelda ungu fólki að fá fasteignalán sig munu koma fram í enn hærra fasteignaverði og aukinni skuldsetningu ungs fólks sem mun þá mynda næsta „leiðréttingarhóp“ þegar skellurinn kemur.

Vonandi er þetta rangt, en vissulega er þetta trúlegt. En bjargar ferðaþjónustan okkur ekki?

„Uppgangurinn í ferðaþjónustunni hefur búið til ákveðið „nesti“ í þessari vegferð efnahagslífsins.  En hætt er við því að jafnvel ferðaþjónustufyrirtæki hafi ekki undan þegar kostnaðurinn hækkar sífellt á sama tíma og gengi krónunnar hækkar og Ísland verður dýrara fyrir erlenda ferðamenn. Þegar ég hugsa um þetta mál fyrir mig segi ég við sjálfan mig að líklega dugi „nestið“ frá ferðaþjónustunni næstu tvö árin en að við eigum eftir að sjá launabóluna springa með fyrirsjáanlegum afleiðingum innan fimm ára.“

Það var og.