Lúbarðir ráðherrar framsóknarflokks

Ljóst er að ráðherrar Framsóknarflokksins koma ekki óskaddaðir frá stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn, ekki síst úr slagsmálunum við Bjarna Benediktsson.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra sagðist síðast í gær að allt þetta kjörtímabil hafi verið slagsmál innan ríkisstjórnarinnar. Ekki síst milli hennar og Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins. „Bjarni situr á buddunni,“ sagði Eygló á einum stað í gær.

Eygló reyndi, að eigin sögn, að gera hvað hún gat til að fá Bjarna og hans fólk til að vera rausnalegri við þá sem verst standa. Það gekk lítt. Hún sagði Sjálfstæðisflokkinn helst, og jafnvel aðeins, vilja lækka skatta á þá sem mest hafa og mest eiga.

Sjálfstæðisflokkurinn hafði betur í átökunum milli flokkanna hvað varðar lög um stjórn fiskveiða. Framsóknarflokkurinn, þá með varaformanninn í öndvegi, varð að beygja af leið og afleggja annars tilbúið lagafrumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Sjálfstæðisflokkurinn beitti neitunarvaldið og sá til þess að frumvarpið var ekki lagt fyrir Alþingi.

En hvers vegna? Jú, vegna þess að Framsóknarflokkurinn gat ekki sæst á tvær veigamiklar kröfur Sjálfstæðisflokksins. Sú fyrri var um að skýrt yrði kveðið á um að veiðiheimildirnar yrðu eign útgerðarinnar og hins vegar að öll kvótaviðskiptin yrðu gerð fyrir opnum tjöldum, á kvótaþingi. Þetta varð til þess að Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra fór í fýlu, sagði frumvarpið ekki verða lagt fram á þessu þingi og ekki heldur á því næsta. Sigur Sjálfstæðisflokksins, sem vildi halda lögunum óbreyttum, varð algjör.

Eftir að Sigurður Ingi varð forsætisráðherra spurði ég hann hvort hann hyggist beita nýfengnu valdi til að taka málið upp aftur. Svarið var einfalt; nei.

Niðurlæging Framsóknar hefur líklega verið algjör.