Uppskrift: ekta ítalskt lasagna sem allir sælkerar elska

Á fallegum haustkvöldum er fátt betra en að snæða sælkeramáltíð og njóta með fjölskyldunni við kertaljós. Sjöfn Þórðar, sælkeri, er iðin við að elda sælkeramáltíð fyrir fjölskylduna og nýtur hverra stundar meðan eldað er. „Þessi uppskrift af ekta ítölsku lasagna er í miklu uppáhald á mínu heimili og matargestir okkar eru trylltir í þetta lasagna. Þessi uppskrift kemur frá góðu stjúpu minni og er heimsins bezta lasagna sem ég hef smakkað,“ segir Sjöfn. Það verður enginn svikinn af þessari uppskrift.  Það er bæði hægt að nota ferskar lasagnaplötur eða þessar hörðu.

Ekta ítalskt lasagna að hætti stjúpu

fyrir 6-8

Bolognese-sósan

Olífuolía til steikingar

2 laukar saxaðir

6 hvítlauksrif söxuð

2-3 stiklar sellerí saxaðir

2-3 gulrætur saxaðar

1 kg nautahakk

2 dósir eða krukkur af niðursoðnum eða maukuðum tómötum

svartur pipar eftir smekk

oreganó eftir smekk

Fyrir samsetninguna á lasagna í lokin:

1 poka rifinn mozzarella ost

1 parmesanost

1 pakka/poka lasagnaplötur

Byrjið á því að saxa grænmetið og steikið síðan á meðalheitri pönnu upp úr olífuolíu. Látið malla þar til grænmetið verður mjúkt.  Setjið grænmetið í stóran pott þegar það er orðið mjúkt og steikið hakkið sér á pönnu.  Setjið hakkið síðan út í pottinn með grænmetinu og loks niðursoðnu/maukuðu tómatana út í.  Látið kjötsósuna malla í tvo til þrjá tíma og hrærið af og til í blöndunni. Hellið af og til örlitlu vatni út í og það má líka setja smá rauðvín út í sem gerir bragðið en betra.

Béchamelsósa

3 msk. smjör

3 msk. hveiti

2-3 dl mjólk

parmesanostur, rifinn 

Þegar kjötsósan er búin að malla í góðan tíma, er béchamelsósan löguð og ofninn hitaður. Hitið ofninn í 200°gráður og hafið hann á blæstri. Byrjið á að gera smjörbollu úr smjörinu og hveitinu og þynnið síðan varlega út með mjólkinni. Bætið við mjólk ef ykkur finnst hún vera of þykk, en verið þolinmóð, það tekur smá tíma fyrir sósuna að þykkna.  Bætið við rifnum parmesanosti eftir smekk.

Þegar béchamelsósan er tilbúin er næsta skref að setja saman lasagna í eldfast mót eða fat.  Byrjið á því að setja smá olífuolíu á botninn og síðan raða lasagnaplötunum á.  Raðið lasagna saman í eftirfarandi röð, þrisvar sinnum, Lasagnaplötum, béchamelsósu, smyrjið yfir pastaplöturnar og kjötsósu til skiptis og  á efstu hæðina béchamelsósu og dreifið síðan yfir rifinn parmesan- og mozzarellaost eftir smekk.

Bakið í ofni í 30-35 mínútur eða þar til osturinn verður orðinn gullinbrún og fallegur. Berið fram með fersku salati, góðu hvítlauksbrauði eða súrdeigsbrauði. Ég baka gjarnan ítalskt sælkerabrauð þegar ég er með ítalska rétti en bregð stundum út af vananum og er með volgt hvítlauksbrauð eða nýbakað súrdeigsbrauð frá Brauð&Co. Einnig er ljúffengt að vera með saxaða basilku til að strá yfir lasagna þegar það er framreidd.

Njótið vel.