Mýkingarefni leysir vandann

Þegar sólin er lágt á lofti á Íslandi, ekki síst á þeim árstíma sem nú varir, geta gluggarnir í heimahúsum verið æði skrautlegir að sjá. Seltan eftir kafaldsbylina allan harðaveturinn virðist beinlínis hafa étið sig inn í utanverða gluggana og stundum eru þeir lítið skárri að innanverðu; rykugir og kámaðir svo varla sér almennilega út um þá. Mörg undraefnin hafa verið auglýst til að taka á þessum vanda, en það virðist einu gildi hvað þau heita æsilegum nöfnum; ekkert þeirra hefur virkað sem skyldi. Heillaráðið er að nota mýkingarefni, sem vanalega er notað í þvottavélar, til að taka á þessum hversdagslega vanda. Það dugar að setja einn tappa af efninu út í fötuna og strjúka svo með hreinni tusku yfir gluggana, jafnt að utan sem innan.


Árangurinn lætur ekki á sér standa;


Mýkingarefnið leysir upp óhreinindin og skilur ekki eftir sig rákir eins og gjarnan gerist þegar önnur efni eru notuð á rúðurnar.