Húsnæðislán: fólk leitar tilboða

Almenningur er í auknum mæli farinn að leita tilboða hjá fjármálastofnunum um húsnæðislán, en athygli vekur í þessum efnum hversu stór hlutur lífeyrissjóðanna er að verða á húsnæðislánamarkaðnum.  

Í nýlegri skýrslu Arion banka er greint frá því að meira hefur verið í útlánum húsnæðislána tímabilið júní til september, miðað við mörg undanfarin misseri. Þar segir greiningadeild bankans að húsnæðislán lífeyrissjóðanna nemi nú um 10% og segir Guðbergur Guðbergsson, löggiltur fasteignasali, að húsnæðislán Lífeyrissjóðs VR virðist þar vera hvað vinsælust. Lán frá þeim séu mest áberandi í þeim kauptilboðum sem nú er verið að gera í fasteignum.

Guðbergur segir kjörin hjá lífeyrissjóðunum hagstæð í samanburði við bankana og nú sé það orðið algengara en áður að fólk leiti tilboða hjá fjármálastofnunum um húsnæðislán. Þannig séu kauptilboð stundum kynnt í dag þannig að aðeins komi fram að greitt verði með láni, án þess að nafn lánveitenda komi fram. Það sé vegna þess að þá bíði kaupendur eftir því að sjá hvaða fjármálafyrirtæki bjóði best.

Í þeim efnum segir Guðbergur hins vegar áberandi að samkeppni á milli bankanna sé aðeins til staðar þegar kemur að verðtryggðum lánum. Það séu lánin sem henti best, enda öruggust fyrir lánveitandan. Guðbergur segir stjórnmálamenn skorta það hugrekki sem þarf til að afnema verðtrygginguna. Bankar og lífeyrissjóðir stýri í rauninni landinu og hafi alltof mikil völd. Verðtryggingin þjóni þessum hagsmunaaðilum best og því þurfi að koma til pressa frá almenning um að breyta húsnæðislánakerfinu hér.

Guðbergur segist alls ekki sáttur við stýrivaxtahækkanir seðlabankastjóra og hreinlega ekki skilja þau rök sem Már Guðmundsson hefur lagt fram varðandi þær hækkanir sem verið hafa. Aðalmálið sé að vextir á lánum séu alltof háir hér á landi og þetta varði ekki aðeins fasteignakaupendur, heldur einnig leigjendur. Hár vaxtakostnaður sé hluti af leiguverði.

Aðspurður um þá spá Arion banka að fasteignaverð hækki um 30% að nafnverði fram til ársins 2018, segir Guðbergur það í takt við þá þróun sem hefur verið síðastliðin 2 ár eða svo. Þó þurfi að hafa í huga að spár sem þessar séu ekkert áreiðanlegri en veðurspáin, þær gangi ekkert alltaf eftir. Þannig hafi Íslandsbanki til dæmis gefið út spá stuttu fyrir hrun um að fasteignaverð myndi halda áfram að hækka. Svo hafi þó ekki verið raunin eins og alþjóð viti.
 
Guðbergur var gestur í þættinum Afsal sem sýndur var í gærkveldi á Hringbraut. Þátturinn verður endursýndur í allan dag og kl.21 og kl.23 á mánudagskvöldið.