Uppskrift: piparmyntu ljóskurnar hennar maríu gomez með hvíta súkkulaðinu gerast ekki jólalegri

Fyrsti í aðventu er framundan um helgina og þá er lag að huga að gæðastundum með sínum uppáhalds.   Aðventan er heillandi tími og margir eiga góðar minningar tengdar aðventunni sem hlýja og gefa. Aðventan er tími til að njóta, skapa og útbúa ljúffengar kræsingar, líka tími til að búa til minningar með komandi kynslóðum. 

Sjöfn Þórðar heimsótti Maríu Gomez, matar- og sælkerabloggara með meiru og bað hana um að svara nokkrum spurningum tengdum aðventunni og undirbúningi jólanna líkt og fleiri viðmælendur þessa dagana.  María er mikill fagurkeri og allt sem hún gerir er fágað og fallegt. Hún er lista góður kokkur og líka góður bakari.  Sjöfn fékk Maríu til að baka eina af sínum uppáhalds kökum sem hún bakar í aðventunni fyrir lesendur Hringbrautar og svipta hulunni af uppskriftinni um leið. María var ekki lengi að töfra fram jólalega og fallega köku sem bragð er af auk þess sem hún er einstaklega falleg í jólalitunum klassísku, rauðu og hvítu.

Bakar þú mikið?

„Nei, ég get ekki alveg sagt það en það er misjafnt þó, tek svona tarnir þar sem ég baka meira en ég viðurkenni það alveg að ég er meira fyrir að elda.“

Á kakan sem þú bakaðir einhverja sögu?

„Ein jólin þegar við vorum að baka engiferkökur langaði mig svo ofboðslega mikið í eitthvað með myntu og hvítu súkkulaði. Ég bjó þá til þessa uppskrift sem lukkaðist svona vel líka og hefur eiginlega orðið ein af þessum kökum sem við verðum að baka fyrir jólin.“

Er mikið haft fyrir jólunum á þínu heimili?

„Ekkert meira en venjulega held ég. Við setjum upp jólaljós á húsið og bökum alltaf engiferkökur sem er föst hefð hjá okkur. Svo fer desember svoldið meira í að eiga gæðastundir með krökkunum og til dæmis föndra og mála piparkökur. Mér finnst að skapa hlýjar minningar skipta meira máli en að reyna að gera allt fullkomið fyrir jólin.“

Hvað finnst þér skemmtilegast við jólin?

„Að taka því rólega með fjölskyldunni og kúra upp í sófa með eitthvað gott að japla á og horfa á jólamyndir.“

Áttu þér uppáhalds jólaskraut?

„Allt það skraut sem börnin mín fjögur hafa föndrað handa mér í gegnum tíðina.“

Áttu þér uppáhalds jólalag?

„Fairytale in New York með The Pogues.“

Heldur þú í hefðir í jólaundirbúningnum og/eða um jólin?

„Já, við bökum alltaf engiferkökur fyrir jólin eins og ég nefndi áðan, sem er föst hefð sem kemur með manninum mínum. Ég er líka föst á því að byrja ekki að skreyta fyrr en á aðventudag og svo skreytum við tréið alltaf á Þorláksmessu, en þannig var það hjá okkur báðum hjónum sem börnum. Svo er það jólamaturinn en áður reyndi ég að bregða út af hefðunum og hafa eitthvað allt annað og það skemmdi nánast jólin fyrir elsta barninu. Eftir það höfum við haldið fast í að hafa hamborgarahrygg á aðfangadag með sykurpúðasalati sem er komið frá manninum mínum og svo hangikjöt og laufabrauð á jóladag en það eru þær matarhefðir sem við maðurinn minn ólumst bæði upp við, svo það er mjög þægilegt og engin ágreiningur um hvað á að hafa í jólamatinn.“

Um Maríu Gomez – Uppáhaldslistinn

Maki: Ragnar Már Reynisson.

Börn: Gabríela 20 ára, Reynir Leo 6 ára, Mikael 5 ára og Viktoría Alba 4 ára.

Gæludýr: Nei.

Uppáhaldsjólamynd:  The Holiday og The family man.

Ómissandi á aðventunni:  Engiferkökur og heitt kakó.

Jólamatur:  Aðfangadagur er hamborgarahryggur, sykurhúðaðar kartöflur, sveppasósa og sykurpúðasalat en á jóladag er hangikjöt, uppstúfur og laufabrauð.

Jóladrykkur: Heitt súkkulaði með þeyttum rjóma eða ís og súkkulaðispænum.

Hvít eða rauð jól? Hvít klárlega en bara yfir jóladagana svo má snjórinn fara.

 

Hér sviptir María hulunni af uppskriftinni sinni af ómótstæðilegu piparmyntukökunum sem kitla bragðlaukan og bráðna í munni.

Piparmyntu ljóskur með hvítu súkkulaði

Botn

¾  bolli bráðið smjör

¾ bolli sykur

2/3 bolli ljós púðursykur

3 egg við stofuhita

1 tsk. vanilludropar

2 tsk. piparmyntudropar

2 2/3 bollar hveiti

½  tsk. lyftiduft

½ tsk. salt

2 plötur hvítt gróft saxað súkkulaði

Krem

450 g rjómaostur

1 bolli flórsykur

1 tsk. vanilludropar

¾  bolli piparmyntubrjóstsykur eins og jólastafir eða Bismark brjóstsykur

Botninn

Byrjið á því að hita ofninn í 175°C. Hrærið síðan saman í eina skál bræddu smjöri, sykri, púðursykri, eggjum, vanillu og piparmyntudropum. Ekki stífþeyta eða hræra mikið heldur bara þannig að hráefnin séu orðin ágætlega blönduð saman. Takið aðra skál og setjið í hana hveitið, lyftiduftið og saltið og hrærið því saman með matskeið.  Blandið svo hveitinu smátt saman við eggjablönduna og hrærið þar til blandast saman en ekki of mikið. Ekki þeyta á full speed heldur bara annað hvort hafa á lægsta hraða eða helst gera með sleif í höndunum. Deigið getur verið stíft og erfitt að hræra en þannig á það að vera.  Setjið smjörpappa í bökunarskúffu, helst í stærð 33x22, ef þið eigið, og dreifið deiginu jafnt yfir skúffuna.  Bakið svo á 175 °C í 30-35 mínútur. Gott er að stinga hníf í miðjuna og ef hann kemur hreinn upp þá er kakan til.  Kælið vel áður en kremið er sett á.

Kremið

Þeytið saman rjómaost, flórsykur og 1 teskeið af vanilludropum.  Þeytið þar til kremið verður loftkennt og létt.  Þegar kakan hefur kólnað, smyrjið þá kreminu yfir hana alla og skreytið svo með mulnum piparmyntustöfum eða Bismark brjóstsykri.  Ég notaði mortel til að mylja brjóstsykurinn en það má líka setja hann í poka og lemja með kökukefli. Hann á ekki að verða að dufti en ekki heldur of grófur.  Þessi gerist ekki jólalegri.

Gleðilega aðventu.