Uppskrift: ilmurinn af jólunum kemur með engiferkökunum hennar ömmu fríðu

Það styttist óðum í aðventuna sem er heillandi tími og margir eiga góðar minningar tengdar aðventunni sem hlýja og gefa. Aðventan er tími til að njóta, skapa og útbúa ljúffengar kræsingar, líka tími til að búa til minningar með komandi kynslóðum. 

Sjöfn Þórðar heimsótti Evu Maríu Hallgrímsdóttur, eiganda kökugallerísins Sætar Syndir og bað hana um að svara nokkrum spurningum tengdum aðventunni og undirbúningi jólanna.  Evu Maríu er margt til lista lagt og er hún einstaklega lagin við að skreyta hnallþórur og baka hinar flóknustu kökur eftir séróskum sem koma til hennar daglega. 

Jafnframt fékk Sjöfn, Evu Maríu til að gefa upp uppskriftina af sínum uppáhalds smákökum sem hún bakar í aðventunni. Eva María var svo sannarlega til í það og ljóstrar hér upp sinni uppáhalds uppskrift sem hefur fylgt fjölskyldunni alla vega þrjá ættliði. 

Bakar þú mikið?
„Þar sem ég vinn í kökugerð þá, já, baka ég ansi mikið, mest megnis kökur en svo baka ég alltaf einhverjar smákökur fyrir jólin og þá sérstaklega með syni mínum.“

Eiga smákökurnar sem þú bakaðir sér einhverja sögu?

„Ég bakaði æðislegar engifersmákökur sem leynast í gamalli uppskriftarbók sem amma mín heitin Fríða átti. Amma mín handskrifaði allar uppskriftir í sína uppskriftarbók en hún var í Húsmæðraskólanum á Ísafirði á sínum tíma og þetta er algjör gullkista af uppskriftum. Í bókinni leynast svo krot og teikningar eftir föður minn þegar hann var lítill polli en mér þykir mjög gaman að baka þær og lyktin þegar þær eru í ofninum getur ekki verið jólalegri,“ segir Eva María og brosir.\"\"

Mynd úr uppskriftarbók

Er mikið haft fyrir jólunum á þínu heimili?

„Já, en samt bara temmilega, ekkert stress. Við skreytum auðvitað allt heimilið og bökum einhverjar smákökur.  Ég skreyti til að mynda piparkökur eða piparkökuhús með syninum og svo er náttúrulega algjörlega ómissandi að horfa á fullt af jólamyndum saman.“

Hvað finnst þér skemmtilegast við jólin?

„Fyrir mér eru jólin hátíð barnanna og eftir að ég eignaðist son minn gleður mig fátt meira en að sjá hann spenntan yfir jólasveininum sem gefur í skóinn eða þá biðinni eftir jólapökkunum.“

Áttu þér uppáhalds jólaskraut?

„Tengdamóðir mín prjónaði svo fallegan aðventukrans fyrir okkur hjúin fyrir nokkrum áðum síðan en mér þykir mjög vænt um hann og gaman að hengja hann upp á vegg fyrr jólin.“

Áttu þér uppáhalds jólalag?

„Jólalög eins og Ó, helga nótt og Dansaðu vindur eru hátt á vinsældarlistanum.“

Heldur þú í hefðir í jólaundirbúningnum og um jólin?

„Já, við gerum það.  Skreytum heimilið, skreytum smákökur, bökum og horfum alltaf á jólamyndir, aðdragandi jólanna er svo yndislegur.

 

Um Evu Maríu – uppáhaldslistinn

Maki:  Halldór Ólafsson.

Börn:  Eyrún Björt og Hilmir Freyr.

Gæludýr: Úlfur.

Uppáhaldsjólamynd:  Planes, Trains and Automobiles & National Lampoon\s Christmas Vacation.

Ómissandi á aðventunni:  Jólalög og kertaljós.  

Jólamatur:  Léttreyktur lambahryggur og Hamborgarhryggur.

Jóladrykkur:  Malt og appelsín.

Hvít eða rauð jól?  Hvít jól