Uppskrift: gómsæt lúðusúpa sem albert eiríksson sælkeri með meiru elskar

Þegar fer að kólna og vetur gengur í garð finnst mörgum gott að fá sér heitar og matarmiklar súpur. Sjöfn Þórðar hafði samband við Albert Eiríksson sælkera og matarbloggara með meiru sem heldur úti hinni vinsælu matarbloggsíðu alberteldar.com og fékk hann til deila með okkur uppskrift sinni af uppáhaldssúpu „Lúðusúpu“ og sögunni bak við hana.

 „Eins og stundum áður ákvað ég að fara aftur í barnæsku mína austur á Fáskrúðsfirði í huganum og deila minni uppáhalds súpu frá þeim árum. Satt best að segja voru það tvær súpur sem komu upp í hugann. Auk lúðusúpunnar góðu var ég, og er enn, afar sólginn í rúgbrauðssúpu með rúsínum, mörgum sítrónusneiðum og vel af þeyttum rjóma,\" segir Albert og bætir við að ekki sé sama hvaða brauðsúpa.  Hann vill brauðsúpu þar sem blandað er saman brauði og rúgbrauði, og rúgbrauðssúpa. 

„Uppskriftin að Lúðusúpunni kemur úr Nýju Matreiðslubókinni sem fylgt hefur móður minni öll hennar búskaparár frá því hún var á Kvennaskólanum á Blönduósi á sjötta áratugnum,“ segir Albert og er afar spenntur fyrir því að elda hana í framhaldinu. Albert heldur því jafnframt til haga að lúða sé hollur og feitur fiskur. Hún sé stærsti flatfiskur sem finnst hér við land og stærsti beinfiskur innan íslensku lögsögunnar. „Árið 1935 veiddist stærsta lúða sem vitað er um að veiðst hafi hér við land var 3,65 metra löng og vó hvorki meira né minna en 266 kg,“ segir Albert sposkur á svip.

Hér kemur uppskriftin af þessari gómsætu og matarmiklu súpu, Lúðusúpunni miklu. 

Lúðusúpa
1 kg lúða
1 l vatn
salt + pipar eftir smekk
1 dl sveskjur
1 dl rúsínur
1 msk .sykur
4 msk.edik
40 g smjör(líki)
40 g hveiti
1 lárviðarlauf

Byrjið á því að bræða smjörið í potti, bætið við hveiti og hrærið vel saman. Hellið vatni saman við og hitið. Hrærið í þegar vatnið er orðið volgt, hrærið þar til blanda verður orðin kekkjalaus. Látið suðuna koma upp og bætið við salti, sveskjum, rúsínum, sykri, ediki og lárviðarlaufi. Skerið lúðuna í frekar litla bita og bætið út í. Sjóðið í nokkrar mínútur.

Njótið vel.