Þegar góða fermingarveislu gjöra skal

Nú styttist óðum í páskana og fermingartímabilið. Mikilvægt er að hefja undirbúning og skipulagningu tímanlega, því meiri tími sem lagður er í undirbúninginn verður skipulagið betra. Ferming er ein af stóru stundunum í lífi hvers barns og hefur að geyma dýrmætar minningar. Það er mjög mikilvægt að leyfa fermingarbarninu tilvonandi að vera með í ráðum og hafa áhrif á hvernig umgjörð dagsins verður.

Hér eru nokkur góð ráð sem vert er að hafa í huga þegar fermingardagurinn er undirbúinn, bæði hvað varðar athöfnina og veisluna sjálfa. Fyrst og fremst skiptir skipulagið máli. Þessi ráð eru hugsuð sem hugmyndir í sarpinn fyrir fermingarbarnið og fjölskyldu þess.

Dagsetningin er yfirleitt valin í samráði við viðkomandi aðila sem sér um athöfnina og um leið og búið er að ákveða daginn er brýnt að huga að því hvort veislan á að vera heima eða finna henni annan stað.

Kynning á fermingarveislunni sem er framundan, það skapar eftirvæntingu og spennu.

  • Í kaffisamlæti, fjölskylduboði eða við annað skemmtilegt tækifæri.
  • Á lokaðari fésbókarsíðu þar sem vinir og vandamenn eru upplýstir smám saman hvernig fermingardagurinn muni verða. Hægt er að nýta lokuðu fésbókina fram að fermingardeginum sem og á deginum sjálfum og einnig sem stað þar sem gestir geta sett inn myndir frá athöfninni og veislunni eftir viðburð.
  • Með þessum hætti er hægt að auka stemninguna fyrir veisluhöldin og tryggja góða mætingu.

Gestalistinn

  • Mikilvægt að skrifa niður hverjum á að bjóða, oft þarf að finna meðalveg og oftar en ekki langar öllum að bjóða fleirum en raunhæft er. Finna viðmið sem fermingarbarnið og aðstandendur eru sáttir við.

 Boðskort

  • Hanna boðskort.
  • Hægt að gera með margvíslegum hætti, heimagerð kort, fá hönnuð til aðstoðar, auglýsingastofu, hvaðeina sem fólki dettur í hug.
  • Fram í boðskorti þarf að koma tilefni, dagsetning, tími, staður og biðja fólk um að svara hvort það komi, annaðhvort í gegnum tölvupóst eða með símtali. Gott er að netföng aðstandenda séu til staðar ásamt símanúmerum.
  • Senda boðskortin út með um það bil mánaðar fyrirvara.

 Ljósmyndari

  • Mælum með faglærðum ljósmyndara eða vönum aðila sem tengist fjölskyldunni til að fanga rétta augnablikið hverju sinni, í athöfninni og veislunni.
  • Undirbúa ljósmyndarann og skipuleggja myndatökuna.
  • Instagram myndir, einnig er hægt að fá gesti til að taka þátt í myndatökum og hvetja þá til að setja svokallað myllumerki # á myndirnar. Vera með tilbúið myllumerki fyrir veisluna, til dæmis nafn fermingarbarnsins. Þannig getur fjölskyldan safnað saman myndunum frá veislugestum og fangað minningarnar.

Staðsetning fyrir veisluna - velja staðsetningu í samræmi við þema veislunnar, form veitinga og fjölda gesta. Margir staðir koma til greina og til að koma með hugmyndir má nefna eftirfarandi staði:

  • Heimilið
  • Veislusalur
  • Veitingastaður
  • Hlaða
  • Bóndabær
  • Félagsheimili
  • Vöruskemma
  • Allt kemur til greina

Þema fermingarbarnsins skiptir máli og er brýnt að velja það tímanlega. Stundum þarf að panta skraut erlendis frá og þá er gott að hafa nógan tíma. Blóm þarf líka að panta tímanlega. Einnig er gaman að föndra skrautið og þá þarf einnig að gefa sér tíma í föndrið.

  • Velja litaþema, fyrir borðskraut, blóm, áprentaðar servíettur, fylgihluti og annað sem gefur veislunni lit. Margir gera merkimiða og raða gestum til borðs og þá er gott að hafa það í huga.
  • Þema ferminga eru gjarnan einkennandi fyrir fermingarbarnið á einhvern hátt, minningar frá bernsku, myndir frá æskuáunum, fyrstu skórnir, uppáhalds litir, tónlist, blóm, tengjast áhugamálum, íþróttum eða öðru sem fermingarbarnið hefur lagt stund á. Fjölmargt kemur til greina og um að gera að leyfa fermingarbarninu að koma með sínar óskir.

Form fermingarveislunnar og veitingar, það er hægt að hafa form veislunnar með ýmsu hætti og margar leiðir færar. Velja veitingar í samræmi við þema fermingarbarnsins.

  • Dögurður
  • Hádegisverður
  • Hefðbundið kaffisamsæti
  • Standandi boð – smáréttaveisla
  • Grillveisla
  • Kvöldverður
  • Götuvagnaveisla - Streetfood matur, matar- og eftirréttavagnar fengnir í veisluna
  • Sælgætisbar að hætti fermingarbarnsins

 Veitingarnar – margir möguleikar eru fyrir hendi þegar veitingarnar eru valdar og undirbúnar.

  • Hægt er að panta veitingarnar gegnum veisluþjónstur, veitingastaði eða panta kokk til að sjá um veitingar.
  • Heimatilbúnar veitingar og þá skiptir undirbúningurinn höfðuðmáli og að einhver hafi yfirumsjón með þeim. Skipuleggi innkaup, undirbúning og framreiðslu.
  • Mikilvægt að velja drykkjarföng í samræmi við veitingarnar.
  • Fermingarterta eða kransakaka er ómissandi í hverja fermingarveislu hvernig sem form á veitingum er.

Umsjón með skreytingum

  • Brýnt að einn aðili hafi umsjón með skreytingum fyrir veisluna til að tryggja að ekkert gleymist.

Umsjón með veitingum og drykkjum

  • Brýnt að einn aðili hafi umsjón með veitingum og drykkjum í samræmi við hvaða leið verður valin hvað veitingar varðar.

Samkvæmisleikir

  • Skemmtilegt að brjóta veislu upp með skemmtilegum samkvæmisleikjum.

Myndasýning

  • Hægt að láta myndir rúlla af fermingarbarninu í veislunni og þá þarf að vera til staðar skjávarpi, tjald/skjár og tölva.
  • Undirbúa þarf myndasýningu með góðum fyrirvara og gefa sér tíma til að raða myndum inn.

Gestabók – getur verið í ýmsum formum.

  • Hefðbundin gestabók til að rita í.
  • Strigi til að rita á sem síðan verður innrammaður með mynd af fermingarbarninu.
  • Gestir taka mynd af sér með polaroid myndavél við myndavegg sem settur er upp og líma inn í gestabók og rita hamingjuóskir í.
  • Ljósmyndari tekur myndir af gestum, hverjum fyrir sig við myndavegg.
  • Hægt er að leigja svokallaðan stafrænan ljósmyndakassa sem er mjög vinsælt í veislum þessa dagana.

 Þakkarkort/þakkarkveðja

  • Vert að muna eftir að þakka fyrir sig og það er hægt að gera með því að senda þakkakort, senda tölvupóst eða taka símtalið.

Engar tvær veislur eru eins og það er einmitt það skemmtilega við veislur. Hver og einn setur sinn persónulega stíl á sína veislu og um það snýst athöfnin og fermingardagurinn.