Munurinn á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum í dag

Fasteignaviðskipti eru alla jafna stærstu fjárhagslegu viðskipti sem einstaklingar gera á lífsleiðinni og þau viðskipti eru ekki tíð. Því er mikilvægt að afla sér góðra upplýsinga áður en haldið er af stað, fá útskýringar frá sérfræðingum, kynna sér markaðinn vel sem og sértstaklega þau lánakjör sem í boði eru. Við heimsóttum Pál Frímann Árnason vörustjóra útlána hjá Íslandsbanka til að fara yfir muninn á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum eins og staðan er í dag.

Hver er munur á því að taka verðtryggt og óverðtryggt lán í dag?

„Verðtryggð lán eru tengd vísitölu neysluverðs og breytast þegar verðlag í landinu hækkar eða lækkar. Í upphafi er greiðslubyrði verðtryggðra húsnæðislána léttari en af óverðtryggðum lánum. Fyrir vikið er eignamyndum yfirleitt hægari og verðbólgan er eins og vextir sem leggjast við höfuðstólinn. Greiðslubyrði óverðtryggðra lána er hins vegar þyngri í upphafi en af verðtryggðum lánum og eignamyndum yfirleitt hraðari á óverðtryggðum lánum. Hjá Íslandsbanka er hægt að blanda þessum lánsformum saman og þannig má sameina eiginleika mismunandi lánstegunda.“

Hvort mælið þið með því að þeir sem eru að kaupa sína fyrstu eign taki verðtryggt eða óverðtryggt lán?

„Við hvetjum alla til að kynna sér ólíka eiginleika lánsformanna til meta hvað hentar best með tilliti til greiðslugetu, eignamyndunar og markmiðum hvers og eins. Það er mjög persónubundið hvað hentar fólki hvað þetta varðar og það fer auðvitað oft eftir greiðslugetu. Þar sem greiðslubyrði af verðtryggðum lánum er yfirleitt lægri í upphafi er ekki óalgengt að þeir sem kaupa sína fyrstu eign leiti þangað en það þarf að taka meira með inn í reikninginn. Til að mynda eru ýmis úrræði sérstaklega í boði fyrir fyrstu kaupendur, sem vert er að skoða. Dæmi um það er skattfrjáls notkun séreignarsparnaðar til fyrstu kaupa en einnig bjóðum við hjá Íslandsbanka upp á sérstakt aukalán að hámarki 3.000.000 kr. fyrir þá sem eru að kaupa húsnæði í fyrsta skipti, þar sem það getur verið áskorun að brúa bilið við fyrstu fasteignakaup.“

Hvað eru vextirnir á þessum lánum hjá ykkur, Íslandsbanka í dag?

„Vextir á húsnæðislánum eru skv. vaxtatöflu bankans hverju sinni og taka meðal annars mið af fjármögnunarkostnaði bankans, stýrivöxtum Seðlabanka Íslands og svo framvegis. Í dag eru óverðtryggðir húsnæðislánavextir á bilinu 5,40 – 7,45% og verðtryggðir vextir frá 3,30 – 4,65%.“