Ísland tapar tækifæri

Nokkrir þingmenn reyndu á dögunum að koma höggi á Katrínu Jakobsdóttur fyrir þá sök að ríkisstjórn hennar bauð Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna í heimsókn. Þeir eru eins og fleiri ósáttir við skoðanir hans.

En Ari Trausti Guðmundsson brá skildi fyrir forsætisráðherra og spurði réttilega hvort stjórnmálamenn kynnu ekki grunnreglur formlegra samskipta. Það var klók vörn.

En hann hefur sennilega ekki vitað að forsætisráðherra ætlar ekki að vera á landinu þegar varaforsetinn kemur. Það er að kunna ekki grunnreglur formlegra samskipta.

Ámælisverð háttsemi gagnvart íslensku þjóðinni

Ræða á fundi norrænna verkalýðsfélaga á að sjálfsögðu að víkja fyrir þeim skuldbindingum sem slíku heimboði fylgir. Í fjarverunni eru því fólgin formleg skilaboð.

En með fjarveru sinni er forsætisráðherra líka að senda efnisleg skilaboð. Þau skaða gestinn lítið en veikja því meir málefnalega stöðu Íslands. Og það er sú háttsemi  sem er ámælisverð.

Ríkisstjórnin á að nýta þann styrk sem felst í breyttum aðstæðum

Þetta er ekki kurteisisheimsókn. Hún er til vitnis um alveg nýjan áhuga Bandaríkjanna á að ræða við ríkisstjórn Íslands um afar mikilvæg efni.

Það er áhrifakapphlaupið á Norðurslóðum sem mestu veldur um þennan áhuga. Landfræðileg staða Íslands hefur aftur gildi eins og í kalda stríðinu. En forsendurnar nú eru ekki þær sömu og þá.

Þessi staðreynd styrkir Ísland í samskiptum við Bandaríkin. Ísland á að nota það tækifæri þegar Bandaríkin bjóða upp á samráð um efnahagsmál og viðskipti annars vegar og viðræður um varnir og varnarviðbúnað hins vegar. En til þess að svo megi verða  þarf hún að hafa skýra sýn og klár markmið í þessum mikilvægu samtölum.

Enginn veit neitt um markmið ríkisstjórnar Íslands

Varaforseti Bandaríkjanna kemur hingað til að fylgja hugmyndum ríkisstjórnar sinnar eftir.  Enginn veit hins vegar hvort ríkisstjórn Íslands hefur sett sér markmið. Hún hefur að minnsta kosti ekki kynnt þau fyrir fólkinu í landinu.

Forsætisráðherra segir réttilega að utanríkisráðherra og stórskotalið embættismanna hafi sömu hæfileika til að tala fyrir Ísland og hún. Munurinn er sá að enginn þeirra er forsætisráðherra. Og þeir hæfileikar breyta því ekki að bandarísk stjórnvöld draga ályktanir af fjarverunni. Þar á bæ kunna menn grunnreglur formlegra samskipta engu síður en Ari Trausti.

Þau geta litið á fjarveruna til marks um að ríkisstjórn Íslands sé klofin um markmiðin. Einnig geta þau hugsað sem svo að Íslandi finnist þessi viðfangsefni léttvæg. Þetta verður vafalaust líka metið í ljósi þess að forsætisráðherra er formaður þjóðaröryggisráðs.

Verst væri þó ef ríkisstjórn Bandaríkjanna fengi það á tilfinninguna að Ísland hefði alls engin sjálfstæð markmið í þessum samtölum. En því miður bendir margt til að svo sé.

Íslandi stendur meiri ógn af loftslagsbreytingum en umsvifum Rússa

Forsætisráðherra virðist ganga í kringum varnar- og öryggismál þjóðarinnar eins og heitan graut frá löngu liðnum tíma kaldastríðsáranna. En það eru breyttir tímar. Þeir kalla á nýja hugsun.

Það er til að mynda grundvallarbreyting að Alþingi kom sér fyrir þremur árum saman um þjóðaröryggisstefnu. Þar er að finna miklu víðtækari skilgreiningar á þeim ógnum sem að steðja en var á kaldastríðsárunum. Váin í loftslagsmálum er nú öryggismál.

Umsvif Rússa á Norðurslóðum eru vissulega umhugsunarefni sem taka þarf alvarlega og ræða af ábyrgð við Bandaríkin og Norðurlönd. En Rússar ögra ekki öryggi Íslands með sama hætti og í kaldastríðinu. Öryggi Íslands stendur nú meiri hætta af loftlagsbreytingum.

Ísland á að kynna Bandaríkjunum jákvæð og ábyrg markmið

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar greindi frá því í vikunni að hún hefði lagt til í utanríksimálanefnd að tengja samtöl um varnarviðbúnað við nýjar skilgreiningar á öryggismálum, þar á meðal við virkar aðgerðir í loftslagsmálum. Við þurfum einmitt að tefla fram af Íslands hálfu jákvæðum en um leið sjálfstæðum markmiðum  af þessu tagi.

Í raun væri ekki fjarri lagi að binda ákvarðanir um varnarumsvif hér vegna Norðurslóða við endurkomu Bandaríkjanna að Parísarsáttmálanum.

Enginn veit hvort Ísland hefur erindi sem erfiði með þessu. En við höfum gildar ástæður til að láta á það reyna.

En klípa Íslands er sú að ríkisstjórn sem ekki getur teflt fram nýjum hugmyndum varðandi markmið í öryggis- og varnarmálum er ekki líkleg til að áorka miklu. Ísland tapar tækifæri.