Þeir koma færandi hendi

Ríkisstjórnin virðist ætla að takmarka rétt útlendinga til að leggja jarðeignir undir sig. Vanda verður löggjöf um þetta enda verður reynt á hana fyrir rétti.

Til er álitsgerð (Innanríkisráðuneytið 30.5.2014) um þetta. Þar kemur fram að setja má, skv. EES/ESB, takmarkanir um jarðakaup, að því tilskildu að sömu reglur gildi um alla, Íslendinga jafnt sem útlendinga. Aðallega hefur fólk áhyggjur af jarðasöfnun einstakra og/eða tengdra aðila. Í rauninni gildir þá einu um þjóðerni kaupenda.

Í nefndarálitinu kemur fram að takmarkanir geti verið margvíslegar. Nefnd eru skipulagsmál, öryggismál, stærðarmörk lands, og að áskilja megi lögheimili og virka búsetu eiganda og/eða landseta. Nefnd er landnýting til landbúnaðar, umhverfisvernd og vernd menningarsvæða og þjóðgarða. Til greina koma takmörk um áhrif á verðlag og um fjárhagslegt ofurvald. Ekki síst er að nefna takmörk á umfangi jarðakaupa sama og/eða tengdra aðila, á söfnun eða uppkaupum margra jarða og takmörk á fjölda eigna í sömu höndum.  

Brýnt er að lögfesta slíkar takmarkanir. Og sams konar takmarkanir þarf einnig að setja um aðrar fasteignir og lóðir í þéttbýli, um vatnsréttindi, veiðiár, hitaréttindi og önnur hlunnindi. Og huga þarf að aðstöðu fátækra fjölskyldna sem ætla að selja eignir, að réttur þeirra og tækifæri verði sanngjarnlega varin, og eins hinna sem hafna gylliboðum. Þetta er ekki vandalaust.

Reglur verða að gilda jafnt um alla, hverrar þjóðar sem eru, íslenska sem erlenda. Auðmenn segjast alls ekki ætla að beita ofurvaldi sínu. Þeir eru fullir aðdáunar á landinu og áhuga á vernd byggðar og umhverfis og vernd dýrastofna, laxa og annarra. Þeir koma færandi hendi, en öll þessi fyrirheit eru annað mál og geta líka umsnúist að geðþótta.  

Höfundur er fyrrverandi skólastjóri