Opið bréf til útvarpsstjóra – afrit til menntamálaráðherra

Í kvöld­frétt­um sl. föstu­dag var fjallað um rjúpna­veiðar og það sem kallað var hluti af sjálfbærninámi Hall­ormsstaðarskóla. Fínt orð sjálfbærninám auðvitað, en það átti ekki við hér.

Frétt­in kom frá Rún­ari Snæ Reyn­is­syni. Þar var sýnt hvernig væng­ir voru höggn­ir af rjúpu og hún síðan skor­in og tætt í sund­ur. Al­gjört virðing­ar­leysi við þenn­an fal­lega og skaðlausa fugl, þessa tign­ar­legu líf­veru, sem auðgar og fegr­ar nátt­úru Íslands með feg­urð sinni og líf­legu korri.

Um leið sýn­ir RÚV í raun mikið til­finn­inga­leysi og virðing­ar­leysi al­mennt við villt dýr, nátt­úru og líf­ríki lands­ins.

Börn og ung­ling­ar horfa auðvitað líka á kvöld­frétt­ir. Þessi heift­ar­lega meðferð á rjúp­un­um gat verið eins og kennslu­stund í því að þetta eru „bara dýr“, í raun bara hlut­ir sem drepa má, mishöndla og mis­bjóða að vild og eng­an rétt eða virðingu eiga skilið.

Ef þetta hefði nú verið í mat­reiðsluþætti hefði kannski mátt flokka þetta und­ir smá glóru.

Hvernig þetta á að telj­ast til sjálfbærnináms Hall­ormsstaðarskóla er með öllu óskilj­an­legt.

Rjúp­an stend­ur mjög höll­um fæti í ár. Á 26 af 32 taln­ing­ar­svæðum þar sem Nátt­úru­fræðistofn­un Íslands fram­kvæmdi taln­ingu nú í sum­ar dróst stofn­stærð sam­an um allt að 70% frá í fyrra. Aðeins á sex svæðum styrkt­ist stofn­inn lít­il­lega. Í raun hefði átt að banna veiðar í ár eða í það minnsta tak­marka þær við ákveðin fá landsvæði. Í stað þess er fjöldi veiðidaga stór­auk­inn und­ir þrýst­ingi veiðimanna.

Í raun virðist til­finn­ing fréttastjórnar RÚV fyr­ir dýra­vel­ferð, nátt­úru og um­hverfi vera tak­mörkuð og frétt­ir ykk­ar manna á Aust­ur­landi oft vafa­sam­ar í þessu til­liti.

15. sept­em­ber sl. voruð þið með frétt, líka í kvöld­frétt­um, sem líka var kennd við sjálfbærninám í Hall­ormsstaðarskóla, þó að þetta „nám“ hafi gengið út á og sýnt dráp á gæs­um með hagla­byssu, og voru fugl­arn­ir ekki kallaðir gæs­ir held­ur „hrá­efni“. Þessi frétt var líka frá Rún­ari Snæ. Góður smá­sagna­höf­und­ur, er sagt, en til­finn­inga­lít­ill fyr­ir dýr­un­um og líf­rík­inu virðist vera.

Sýnt var hvernig skotið var á fljúg­andi gæsa­hóp eft­ir að farið var að rökkva og illa sást til og sást hvar tvær eða þrjár féllu til jarðar sýni­lega dauðar. „Hrá­efni“. Eng­um sög­um fór af þeim fugl­um sem komust und­an, særðir af högl­um, án þess að drep­ast strax, eða af dauðastríði þeirra næstu daga. Þetta þótti frétta­stofu greini­lega líka flott og skemmti­legt; fín frétt.

Vænt­an­lega hugðu frétta­menn ekki mikið að því að flest­ar gæsa­teg­und­ir eru á vál­ista Nátt­úru­fræðistofn­un­ar Íslands, rjúp­an reynd­ar líka.

Að und­an­förnu höf­um við í Jarðar­vin­um verið að berj­ast fyr­ir því að lengja griðatíma hrein­dýr­skálfa, en eins og kunn­ugt er hefst dráp þeirra með nú­ver­andi fyr­ir­komu­lagi þegar þeir yngstu eru rétt átta vikna. Sýnd­um við fram á að allt að 600 litl­ir hrein­dýr­skálf­ar hefðu far­ist í ís­lensk­um hrein­dýra­hög­um síðasta vet­ur, að nokkru eða veru­legu leyti vegna þess að mæður þeirra voru drepn­ar frá þeim of snemma.

Frétta­menn RÚV birtu frétt­ir um það fyr­ir nokkru að 200 hrein­dýr hefðu far­ist á Sval­b­arða vegna lofts­lags­breyt­inga, en þar lifa um 22.000 hrein­dýr. Fórst þannig 1%, þó að það hafi auðvitað verið nógu hörmu­legt.

Hér fór­ust síðasta vet­ur um 10% allra hrein­dýra í land­inu, en frétta­menn sáu enga ástæðu til að gefa því gaum. Flest­ir aðrir fjöl­miðlar fjölluðu þó um málið og t.a.m. Stöð 2 mjög mynd­ar­lega.

Æskilegt væri að þú eða eft­ir­maður þinn færuð ofan í saum­ana á mál­efn­inu dýra-, nátt­úru- og um­hverf­is­vernd við frétta­menn ykk­ar og að ráðherra hefði þenn­an mik­il­væga framtíðarþátt líka í huga við skip­an eft­ir­manns þíns. Því fær hún af­rit.

Ég vona að við get­um öll verið sam­mála um að virðing fyr­ir líf­ríki jarðar og vernd þess og varðveisla sé líka menn­ing – af því að hún er ykk­ur báðum mjög hug­leik­in – ef þessi vernd og varðveisla er ekki einn helsti inntak­spunkt­ur henn­ar.