Ofurtollaðir túlípanar

Fréttablaðið hefur flutt fréttir á síðustu mánuðum af vonlítilli baráttu blómabúða í landinu gegn gríðarháum blómatollum. Alls skoruðu 25 blómabúðir meðal annars á stjórnvöld að lækka blómatolla. Fáránleiki núverandi regluverks hefur kristallast í máli í kringum innflutning, viðskiptahindranir og tolla á túlípönum.

Á árunum 2016 og 2017 var hrint í framkvæmd áformum um niðurfellingu tolla á öllum vörum nema matvörum. Tollar á blóm urðu af einhverjum ástæðum eftir, þótt blóm verði seint flokkuð sem matvara. Ofurtollar liggja í annars vegar 30 prósenta verðtolli og hins vegar 95 króna stykkjatolli sem leggst á hvern afskorinn túlípana. Tíu túlípana búnt, sem kostar 600 krónur í innkaupum, fær á sig 1.130 krónur í toll, þannig að innkaupsverðið þrefaldast hér um bil. Búnt af innfluttum túlípönum kostar nú 3.000 krónur út úr búð, samanborið við um 1.000 krónur í öðrum norrænum löndum.

Innlend framleiðsla á afskornum blómum annar ekki eftirspurn. Því gefa íslenskir kommissarar náðarsamlegast heimildir tvisvar á ári til innflutnings tollkvóta á lægri tollum. En það hefur ekki dugað til.

Kerfið sem hefur verið komið á til að meta hvort skortur sé á vörum, þannig að lækka megi tolla á þeim, er einkennilegt. Opinber nefnd spyr innlenda framleiðendur og dreifingaraðila hvort þeir eigi eitthvað til af vörunni. Svör þeirra eru tekin góð og gild. Svo virðist sem ekki sé farið til dæmis í verslanir og kannað hvað sé til af vörunni og á hvaða verði. Óralangt er á milli nýlegrar niðurstöðu opinberu kommissaranna, að ekki sé skortur á túlípönum, og þess veruleika sem allir neytendur sjá í búðunum.

Ýmsum kann að finnast þetta blómatollamál ómerkilegt. Eru blóm ekki óttalegur óþarfi og lúxus? Hömlur og skattar geta raunar gert tilteknar vörur að lúxus. Á Norðurlöndum eru blóm ekki talin munaðarvara. Fólk grípur með sér búnt úr búðinni án mikillar umhugsunar til að gleðja einhvern nákominn eða prýða heimilið. En hér virðist sú skoðun samt eiga einhverju fylgi að fagna að blóm eigi að selja í svipuðu viðskiptaumhverfi og ávexti þegar þeir fengust bara fyrir jólin.

Svo má spyrja hvern sé verið að vernda með tollunum. Íslenskir túlípanar fást í um 4-5 mánuði á ári. Er ekki hægt að hafa innflutning frjálsan afganginn af árinu?

Í grunninn lýtur þetta mál að sjálfsagðri neytendavernd og sanngjörnum kröfum gegn bjánalegum viðskiptahindrunum. Það er hvorki vit né sanngirni í því að láta íslenska neytendur borga þrisvar sinnum meira fyrir einhverja vöru en tíðkast í nágrannalöndunum. Hvar eru nú stjórnmálamennirnir sem kjörnir eru til að gæta hagsmuna almennings en ekki til að fórna þeim í hendur kommissara? Eigum við virkilega að trúa því að þingmenn og ráðherrar telji hag almennings best borgið með þessu móti?

Koma svo!