Fréttin sem enginn vildi birta; ótrúlega samstaða um þöggun

15. ágúst sl. sendum við, í Jarðarvinum, eftirfarandi fréttatilkynningu á alla helztu fjölmiðla landsins:

Tilvitnun byrjar:

Skv. gagni með yfirskriftinni „Vetrarafkoma íslenskra hreindýrakálfa“, sem Náttúrustofa Austurlands (NA) sendi umhverfisráðherra 17. júlí sl., var meðaldánartíðni hreindýrakálfa, veturinn 2018-2019, 21%. Var dánartíðnin frá 9% upp í 45%, eftir svæðum. Er 45% talan ógnvekjandi; annar hvor kálfur fórst.

Skv. talningu NA í október í fyrra, sem NA staðfesti við okkur 9. ágúst sl., voru hreindýrakýr þá 2.255 dýr, en, þar sem 1.060 kýr höfðu verið drepnar í ágúst/september 2018, voru kýrnar, sem áttu kálfa 2018, 3.315 kýr.

Geldishlutfall hreindýrakúa á Íslandi er 10-15%. Ef reiknað er með, að 15% kúnna 3.315, sem báru kálf vorið 2018, hafi verið geldar, fæddust 2.800 kálfar það vor.

Ofannefnt þýðir, að um 600 hreindýrakálfar hafi farizt– væntanlega mest úr hungri og vosbúð – síðasta vetur í íslenzkum hreindýra-högum.

Frá 1. ágúst 2018 til 15. september 2018 heimilaði umhverfisráðherra dráp á 1.061 kú. Voru yngstu kálfarnir rétt 8 vikna, þegar drápið á mæðrum þeirra hófst. Er sjálfgefið, að mestur hluti kálfanna 600, sem fórust, hafi verið móðurlausir og vanbúnir til að standa á eigin fótum, þó að tíðarfar síðasta vetur hafi verið gott. – Geta menn

ímyndað sér, hvílíkur fjöldi munaðarlausra kálfa hefði drepist, ef harður vetur hefði komið.

Eftir sumarveiðar 2018, þar sem um 1.400 dýr voru felld, var heildarfjöldi hreindýra á Íslandi um 5.500 dýr að sögn NA.

Á dögunum var það heimsfrétt, að 200 hreindýr drápust á Svalbarða. Ástæðan þar var talin loftslagsbreytingar og hitasveiflur, sem þeim tengjast. Haustið 2018 kom þar hlýindakafli og svo hörkufrost ofan í það. Lagðist klakabrynja yfir beitiland dýranna, sem þau komust ekki í gegnum. Því fór, sem fór.

Hörmungarsaga, sem vakti athygli víða um heim. Á Svalbarða eru þó um 22.000 hreindýr. Drápust þannig með þessum hörmulega hætti „aðeins“ um 1% dýranna.

Hér var engum loftslagsbreytingum eða klakabrynjum fyrir að fara, heldur fórust 21% kálfanna, 600 burðalitlir kálfar, á fyrsta vetri, af mannavöldum; skeytingarleysi, vanrækslu og virðingarleysi stjórnvalda gagnvart lífríkinu og náttúrunni.

Umhverfisráðherra hefði getað seinkað veiðitíma hreindýrakúa í ár, á grundvelli þeirra upplýsinga, sem hann fékk frá NA 17. júlí si., en gerði það ekki.

Hreindýr tilheyra flokki hjartardýra. Hér má drepa hreindýrakýr frá 1. ágúst, þegar yngstu kálfar eru 8 vikna. Í Noregi má ekki drepa hreindýrakýr frá kálfum fyrr en með og frá 20. ágúst, en, þar sem kálfar fæðast fyrr í Noregi – þar vorar fyrr – eru kálfar þar minnst 12 vikna, þegar dráp mæðra þeirra hefst.

Í Svíþjóð má ekki drepa skyldar kýr – líka af hjartarættinni – fyrr en 3. september (elgir) og 1. október (dádýr). Þar vorar líka nokkru fyrr. Eru kálfar þessara nátengdu dýra því yngstir 14 vikna og 18 vikna, þegar dráp mæðra þeirra má hefjast.

Til að samræma veiðitíma hreindýrakúa, því sem minnst er á hinum Norðurlöndunum og draga úr því að hreindýrakálfar hér farist í stórum stíl – með kvalafullum og hörmulegum hætti – þyrfti að lengja griðatíma hreindýrakálfa hér til a.m.k. 27. ágúst.

Einhver hluti hreindýrakálfa fellur að vetri af náttúrulegum ástæðum, þó að kálfar njóti móðurmjólkur og móðurverndar, en það hlutfall liggur langt, langt undir nefndri dánartíðni kálfa hér.

Þetta sendist ykkur til góðfúslegrar upplýsingar og – eftir atvikum – umfjöllunar.

Tilvitnun lýkur.

Við, í Jarðarvinum, sendum semsagt ofangreinda fréttatilkynningu, um þennan stórfellda og hörmulega dauðdaga allra þessara litlu hreindýrakálfa, að nokkru eða miklu leyti af mannavöldum, 15. ágúst sl. Fór hún á alla helztu fjölmiðla landsins; dagblöð, sjónvarpsstöðvar, útvarpsstöðvar og alla helztu vefmiðla.

Aðeins einn þeirra hafði sjálfstæði og manndóm í sér til að skýra frá fréttinni; Hringbraut. Allir hinir þögðu þunni hljóði. Á Hringbraut heiður skilinn!

Sátu veiðimenn kannske í rit- eða fréttastjórnum? Eða, beittu kannske allt að 4.000 veiðimenn, sem sumir kalla „hvítflibba“ -hreindýraveiðiferð kostar hundruð þúsunda, ef ekki hálfa milljón -þumalskrúfu auglýsingakaupa eða öðrum persónulegum áhrifum á miðlana?

Skammarlegt aðgerðarleysi og þöggun þeirra, sem einmitt eiga að stuðla að frjálsum fréttaflutningi og bera ábyrgð á lýðræðislegri umræðu í landinu.

Sumir vildu afsaka sig með því, að þetta væri einhliða fréttatilkynning. Af hverju gáfu þessir menn þá ekki Náttúrustofu Austurlands og/eða Umhverfisstofnun, eða þá umhverfisráðherra, eina viku til andsvara, áður en þeir birtu fréttina?

Lélegt frammistaða þeirra, sem eiga að mynda „4. Valdið“ - vald eftirlits, gagnrýni og aðhalds frjálsrar fjölmiðlunar - jafn þýðingarmikið og það er í nútíma þjóðfélagi.

Oft virðist það ekki vera til hér. Þessvegna getur spillingin grasserað nánast óhindrað.