Algjörlega óásættanlegt

Það er sorglegt og dapurlegt að viðskiptabankarnir þrír hafi ekki viljað skila þeirri miklu stýrivaxtalækkun sem Seðlabankinn hefur hrint í framkvæmd eftir að lífskjarasamningurinn var undirritaður.

Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að ein af aðalforsendum lífskjarasamningsins var að stýrivextir myndu lækka umtalsvert og að sú vaxtalækkun myndi að sjálfsögðu skila sér til íslenskra neytenda, heimila og fyrirtækja.

En eins og allir vita þá hefur Seðlabankinn lækkað stýrivextina í þremur aðgerðum um 1,25% eftir undirritun lífskjarasamnings.

Ég sagði frá því í nóvember í fyrra að til mín hafi leitað ung hjón sem eiga tvö börn og eitt var á leiðinni, en þau áttu sér þann draum að komast út af leigumarkaðnum vegna þess að leigan var nokkuð dýr eða 180 þúsund á mánuði og einnig leið þeim ekki vel vegna þess óöryggis sem fylgir því að vera á leigumarkaðnum.“

Tóku lán upp á 24,8 milljónir.

Ég benti á að hjónin hafa tjáð mér að þau hefðu keypt þriggja herbergja íbúð í tvíbýli og fengið hana á 28,9 milljónir króna – ekki ýkja stór upphæð á íslenskum fasteignamarkaði en engu að síður stór biti fyrir marga. „Þau tjáðu mér að þau hafi verið búin að safna rétt tæpum 4 milljónum sem þau hefðu notað sem útborgun í umræddri fasteign. Það þýddi að þau þurftu að taka 24,8 milljónir að láni hjá einum af viðskiptabönkunum þremur.“

Ég benti á að lánakjörin sem hjónunum stóðu til boða. Þrátt fyrir að hafa greitt út fjórar milljónir króna þurftu þau að taka þrjú lán hjá bankanum. Með öðrum orðum var þessum 24,8 milljónum skipt niður á þrjú lán sem voru eftirfarandi:

„Fyrsta lánið var 16,3 milljónir verðtryggt jafngreiðslulán til 40 ára með breytilegum vöxtum upp á 3,65%
Annað lánið var 6,5 milljónir verðtryggt jafngreiðslulán til 25 ára með breytilegum vöxtum uppá 4,75%

Þriðja lánið var uppá tæpar 2 milljónir óverðtryggt til 10 ára með breytilegum vöxtum uppá 6,75%

En núna hafa stýrivextir lækkað um 1,25% og því fróðlegt að upplýsa hvernig þessi lán sem öll voru með breytilegum vöxtum hafa þróast eftir að Seðlabankinn hefur lækkað vextina sína um 1,25%

• Fyrsta lánið var 16,3 milljónir verðtryggt jafngreiðslulán til 40 ára með breytilegum vöxtum upp á 3,65% Í dag eru vextirnir á þessu láni 3,30% og hafa lækkað einungis um 0,35%
• Annað lánið var 6,5 milljónir verðtryggt jafngreiðslulán til 25 ára með breytilegum vöxtum uppá 4,75. Í dag eru vextirnir á þessu láni 4,40% og hefur lækkað einungis um 0,35%
• Þriðja lánið var uppá tæpar 2 milljónir óverðtryggt til 10 ára með breytilegum vöxtum uppá 6,75%. Í dag eru vextirnir á þessu láni 6,65% og hefur lækkað einungis um 0,10%

Þetta er að mínu áliti ágjörlega óásættanlegt, að fjármálakerfið skuli ekki skila þessari miklu vaxtalækkun til heimilanna, neytenda og fyrirtækja eins og lagt var upp með.

Hugsið ykkur að hjá þessum ungu hjónum hefur vaxtalækkunin einungis verið 0,35% á verðtryggðu lánunum og 0,10% á óverðtryggðaláninu þrátt fyrir að stýrivextirnir hafi lækkað um 1,25% frá 3. apríl á þessu ári.

Það er alveg morgunljóst að ef fjármálakerfið ætlar sér ekki að skila þessari vaxtalækkun til neytenda nema í algjöru skötulíki, þá mun það kalla á hörð viðbrögð frá verkalýðshreyfingunni, enda var vaxtalækkun ein af aðalforsendum lífskjarasamningsins eins og áður sagði!