Yfirklór sigmundar davíðs

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur sent frá sér upplýsingar um skattgreiðslur þeirra hjóna síðustu 9 árin. Morgunblaðið slær þessu upp á forsíðu í dag og leggur sig svo mikið fram um að gera sem mest úr skattgreiðslum þeirra hjóna að blaðið reiknar þær til verðlags í dag. Verðbætir fjárhæðina um 100 milljónir. Þetta er óvenjulegt hjá blaðinu og sýnir að mönnum er mikið í mun að gera sem mest úr skattgreiðslum þeirra.

Stór hluti af fréttinni skiptir engu máli og getur varla talist til uppljóstrana. Svo sem eins og að þau hafi greitt tekjuskatt og útsvar á Íslandi á þessu tímabili, samtals um 30 milljónir króna. Enginn launþegi kemst undan því hér á landi en Sigmundur hefur þegið laun sem þingmaður og ráðherra frá árinu 2009 og greitt af þeim skatta sem varla getur talist til tíðinda. 

Einig kemur fram að þau hjón greiddu 85 milljónir króna í auðlegðarskatt á árunum 2009 til 2013. Það hefur einnig legið fyrir lengi og verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Varla getur það talist mikil skattlagning á 5 árum þegar um svo miklar eignir er að ræða eins og raun ber vitni. Rétt er að minna á að auðlegðarskatturinn var svo afnuminn árið 2013 eftir að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hafði tekið við völdum. 

Eina sem skiptir máli í þessari umfjöllun og hefur ekki verið til opinberrar umfjöllunar áður, er að á þessum 9 árum hafa hjónin greitt samtals 174 milljónir króna í fjármagnstekjuskatta, eða að meðaltali um 19 milljónir króna á ári. Menn geta velt því fyrir sér hvort það er mikil eða lítil skattlagning þegar á það er litið að eignir eiginkonu Sigmundar í skattaskjólinu eru metnar á nærri einn og hálfan milljarð króna. 19 milljónir eru um það bil 1,3% af þeirri fjárhæð.

Þessi uppsláttur Morgunblaðsins er væntanlega hugsaður til að reyna að hjálpa Sigmundi Davíð við að endurheimta völd sín. Þetta breytir engu um það sem áður hefur verið upplýst. Staðreynd er sú að þau hjón geyma mikla fjármuni í skattaskjóli án þess að stjórnmálamaðurinn hafi gert kjósendum eða Alþingi neina grein fyrir því fyrirfram. Siðferðislega féll hann algerlega á því prófi og honum bjóðast ekki nein upptökupróf til að bæta fyrir fallið.

Enginn hefur efast um að Sigmundur Davíð skilaði útsvari og tekjuskatti af launum sínum á Íslandi. Auðlegðarskattur þeirra hjóna hefur ítrekað verið til umfjöllunar fjölmiðla og engan þarf að undra að þau þurfi að greiða fjármagnstekjuskatt af digrum sjóðum sínum. Þó nú væri.

Eftir stendur að þau hafa séð ástæðu til að fela eigur sínar í skattaskjólum. Hvers vegna er fólk yfir höfuð að geyma eigur sínar í skattaskjólum? Er það ekki til þess að skýla sér fyrir sköttum eins og nafnið bendir til? 

Þeir sem eru með allt sitt alveg á hreinu og hafa ekkert að fela, hljóta að geyma eignir sínar hjá sér og sem næst sér til að hafa sem besta yfirsýn yfir þær. Ef allt er á hreinu þá þarf ekki að vera í neinum feluleik með eignir og verðmæti. Þeir sem eru með hreinan skjöld eru með allt uppi á borðunum. Hinir fela.