Vonbrigði Brynjars skiljanleg en afneitun hjálpar ekki

Í gær var haft eftir Brynjari Níelssyni, fyrrverandi þingmanni Sjálfstæðisflokksins og núverandi aðstoðarráðherra, að staða flokks hans í Reykjavík væri „hörmuleg“ eftir að Fréttablaðið birti skoðanakönnun sem sýnir hrun í fylgi flokksins sem er komið niður í 16,2 prósent samkvæmt nýrri könnun. Fyrir fjórum árum hlaut flokkurinn 30,8 prósent sem þótti ekki góður árangur þá og leiddi til stöðugrar gagnrýni á þáverandi leiðtoga, Eyþór Arnalds. Nú hefur flokkurinn valið sér nýjan oddvita, Hildi Björnsdóttur, sem leiðir flokkinn áfram niður í djúpan dal. Margir eru þegar farnir að sakna Eyþórs.

Auðvelt er að skilja vonbrigði og áhyggjur Brynjars en hann er enn í forystusveit Sjálfstæðisflokksins þar sem mönnum er varla svefnsamt þessa dagana, gangi skoðanakannanir af þessu tagi eftir næsta laugardag.

Athyglisvert er hins vegar hvernig Brynjar tjáir sig um vanda flokksins í borginni. Hann virðist ekki vilja horfast í augu við raunveruleikann en slær þess í stað um sig með staðhæfingum sem halda ekki vatni, en hafa einkennt niðurrifsstefnu flokksins allt kjörtímabilið.

Nú er að koma á daginn að ómálefnaleg gagnrýni sjálfstæðismanna og Vigdísar Hauksdóttur í borgarstjórn virkar ekki. Miðflokkur Vigdísar er að þurrkast út og Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er í frjálsu falli. Brynjar talar um að borgin „standi höllum fæti, fjármál, skipulagsmál og húsnæðismál í ólestri…….“ Allar þessar fullyrðingar eru rangar en þessu hefur flokkurinn haldið fram allt kjörtímabilið og komist upp með rangindin. Þar til komið er að skuldadögunum, sjálfum kosningunum, en kjósendur hafa séð í gegnum blekkingarnar og svara flokknum í samræmi við það.

Sem dæmi má nefna að nýlega voru birtar óumdeildar staðreyndir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um fjármál allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þar stóð Reyklavík best metið á alla mismunandi mælikvarða. Staðan var síst hjá Hafnarfirði þar sem Sjálfstæðisflokkurinn myndar meirihluta. Þá vakti athygli hvernig fjárhagsstaða Seltjarnarnesbæjar var á hraðri niðurleið en flokkur Brynjars hefur ráðið þar ríkjum í áratugi.

Ætli Sjálfstæðisflokkurinn að reyna að rétta hlut sinn í Reykjavík, verða Brynjar og aðrir í forystusveit flokksins í borginni að hætta að blekkja sjálfa sig og horfast í augu við staðreyndir, þótt þær séu ekki allar skemmtilegar:

  1. Framboðslisti flokksins vegna borgarstjórnarkosninganna er misheppnaður.
  2. Hildur Björnsdóttir, oddviti listans, er ekki að virka sem forystumaður. Ekki hefur það orðið til að hjálpa henni að verða uppvís að vinnusvikum gagnvart borginni upp á fjórar milljónir króna en hún hefur ekki mætt á fundi frá miðjum febrúar sl. en þegið 1,4 milljónir króna á mánuði í laun. Kjósendur sætta sig ekki við vinnusvik.
  3. Niðurrifsstefna minnihlutans í borgarstjórn á yfirstandandi kjörtímabili fellur kjósendum ekki í geð enda er hún ekki málefnaleg.
  4. Sjálfstæðisflokkurinn í borginni er þverklofinn um bandamenn Guðlaugs Þórs annars vegar og Áslaugar Örnu hins vegar. Að margra mati er flokkurinn ekki stjórntækur þess vegna. Brynjari hlýtur að vera þetta ljóst.
  5. Núverandi meirihluti hefur unnið saman af heilindum og hefur enga ástæðu til að breyta til, haldi hann meirihlutanum.
  6. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki getað kynnt neina trúverðuga stefnu sem gæti heillað kjósendur. Einungis er talað og auglýst með almennum upphrópunum sem ganga út á að gera allt fyrir allt – og það strax! Slíkt er óábyrg póitík.
  7. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hamast gegn stefnu meirihlutans um þéttingu byggðar sem gengið hefur mjög vel á kjörtímabilinu. Flokkurinn hefur reyndar ekki lýst mikilli andstöðu við þéttingu byggðar eftir að borgin samþykkti heimild til Sjálfstæðisflokksins um að byggja 50 íbúðir á lóð flokksins við Valhöll. Talið er að flokkurinn geti selt þann byggingarrétt fyrir 500 milljónir króna. Það eru þó góðar fréttir fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borginni!

- - -

Þó að útlitið sé „hörmulegt“ hjá Sjálfstæðisflokknum í borginni þremur dögum fyrir kosningar geta Brynjar og félagar glaðst yfir því að vænta má lélegrar kjörsóknar sem yfirleitt kemur sér vel fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Gæti flokkurinn þá eitthvað bætt sinn hag frá því sem skoðanakannanir sýna nú.

En það sem er mikilvægara fyrir Brynjar og félaga hans í forystu flokksins er að láta af langvarandi afneitun og byrja að horfast í augu við vanda flokksins sem er margvíslegur. Ekki gengur lengur að benda á andstæðingana og ætla þeim allt hið versta. Vandinn er heimatilbúinn. Hæg eru heimatökin.

- Ólafur Arnarson