Vígaferlið snýst um hver segir satt

Dagfari 25. sept 2016

 

Dagfari hefur lítinn skilning á þeirri aulafyndni Náttfara að draga fram ofnotaða tilvísun í „breiðu spjótin“  til þess að lýsa vígaferlinu í Framsókn. Það er nútíma reyfari sem á ekkert skilt við fornar bókmenntir og æðri menningararf þjóðarinnar. 

Vígaferlið snýst ekki um málefni.  Það snýst ekki heldur um menn. Báðir hólmgöngumennirnir eru pólitísk mikilmenni að mati þingmanna Framsóknar. Eftir stendur bara spurningin: Hver segir satt.

Sigmundur Davíð segir að Sigurður Ingi hafi lofað að fara ekki gegn sér sem formanni Framsóknar þegar hann brást við aðstæðum vegna Panamaskjalanna með því að segja af sér sem forsætisráðherra. 

Sigurður fullyrðir aftur á móti að þingflokkurinn hafi verið búinn að ákveða að setja Sigmund Davíð af  áður en hann kom saman til fundar þann örlagaríka dag í byrjun apríl. Ákveðið hafi verið að gefa honum svigrúm fram á haust til að ávinna sér traust á ný. Sigurður Ingi þrætir ekki beinlínis fyrir loforðið en skilja má að það hafi verið bundið því skilyrði að Sigmundi Davíð tækist þetta.

Hvor segir satt? Eða geta báðir sagt satt?

Dagfara minnir að hér hafi fleiri komið við sögu. Bjarni Benediktsson dvaldi í makindum á Flórida meðan stjórnarskútan logaði stafnanna á milli vegna umræðna um Panamaskjölin eins og menn muna. Hann hafði ekki nægan andvara á sér og missti af flugi og kom því fyrst heim að morgni þessa dags. 

Fyrsta verk Bjarna eftir heimkomuna var að tilkynna Sigmundi Davíð að hann hefði ekki lengur stuðning Sjálfstæðisflokksins til að sitja áfram sem forsætisráðherra. Eftir það fór forsætisráðherra á frægan fund með forseta Íslands. 

Vel má vera að rétt sé hjá Sigurði Inga að þingmenn Framsóknar hafi verið búnir að sammælast um að setja hnífinn í bakið á Sigmundi Davíð þegar hann kom frá Bessastöðum á þingflokksfundinn. En það breytir ekki hinu að formaður Sjálfstæðisflokksins varð fyrri til. Sigmundur Davíð var því að bregðast við þeirri stöðu.

Í þessu ljósi virkar frásögn Sigmundar Davíðs trúverðugri en skýring Sigurðar Inga á samtali þeirra tveggja um forsætisráðherraskiptin. 

Vörn Sigurðar Inga við ósannindaáburði Sigmundar Davíðs bendir til að það sem raunverulega gerðist bak við tjöldin í Framsókn hafi verið þetta: Meirihluti þingmanna sammælist um að koma Sigmundi Davíð frá. Þeir vilja hins vegar ekki sjálfir reka rýtinginn í brjóstið á honum. Það eiga kjósendur hans í kjördæminu að gera. 

Hefði þetta gengið eftir mátti ljóst vera að Sigmundur ætti ekki annan leik í stöðunni en að segja af sér sem formaður. Þá hefði Sigurður Ingi getað gengið inn á sviðið án þess að ganga á bak orða sinna.

Málin fóru bara á annan veg í kjördæminu en þingflokkurinn hafði ætlað. Svo er annað mál að öflugur stuðningur heima íkjördæmi er ekki endilega nóg til að standa af sér þann stormsveip sem Panamaskjölin ollu. Það hefði Sigmundur Davíð átt að gera sér grein fyrir óháð því hvernig samræður þeirra Sigurðar Inga um forsætisráðherraskiptin fóru fram.

Niðurstaða Dagfara er því sú að báðir halli nokkuð sannleikanum og hvorugur hafi alfarið hreinan skjöld.