Tortryggnin fær nýtt líf ... og tvíeflist!

Í Hruninu, haustið 2008, blossaði upp þannig ástand í íslensku samfélagi að margir óttuðust að límið í samfélaginu mundi gefa sig, að samfélagðið hreinlega mundi rakna upp eins og kaðalendi sem ekki er bundið fyrir. Þá mundu bræður berjast og að bönum verðast eins og segir í Völuspá. Einhvernveginn tókst þó að halda samfélaginu nógu vel saman til að það fór ekki algjörlega úr böndunum - þótt stundum hefði ekki mátt miklu muna. Smám saman hefur svo öldurnar lægt, þangað til á vordögum þegar Panamaskjölin blésu nýju lífi tortryggni og óþols í þjóðina. Þegar forsætisráðherrann hafði opinberað sig tvísaga og vinnandi gegn þjóðinni í togstreitunni við kröfuhafana á föllnu bankana (sem hann reyndist hafa verið einn af) bættust við uppljóstranir um eignir annarra ráðherra í aflandsfélögum í skattaskjólum, bæði var þar á ferð innanríkisráðherrann fyrir tilstilli maka síns, en einnig sjálfur fjármála- og efnahagsráðherrann, fyrir eigin tilstilli.

Leið þó sumarið án þess að stórsprengingar yrðu og virtist sem þessi umræða um hin undarlegu og óeðlilegu hagsmunatengsl ráðamanna ætlaði að kólna, jafnvel þrátt fyrir Borgunarmálið sem ætt fjármálaráðherrans átti stóra aðild að. Blossar þá ekki allt upp enn á ný og nú af óvæntum ástæðum. Ríkisstjórnin kynnir \"tímamóta\" samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda og launakjara milli opinberra starfsmanna og almenna markaðarins. Hvað geta menn nú séð í því til að spilla friðnum?Pistlahöfundur, bloggari, á Eyjunni, Andri Geir Arinbjarnarson, er afar tortrygginn, hann segir að verði samkomulagið að veruleika spari hið opinbera sér mikla peninga, síðan: \"Það er hins vegar ekki eins auðvelt að skilja hvernig samtök opinberra starfsmann hafa verðlagt verðmæti núverandi kerfis og áhættuna við hið nýja.

Loforð um launahækkanir og launaskriðstryggingar virka eins og verðbólgufugl í skógi. Það er aldrei skynsamlegt að gefa upp réttindindi sem eru verðmæt og munu verða enn verðmætari í framtíðinni á móti ófjármögnuðum loforðum.\" Hann gefur semsagt í skyn að samtök opinberra starfsmanna hafi samið af sér, fjármálaráðherrann og sveitarfélögin hafi snuðað starfsmenn sína. Þetta er þó bara kurteisishjal miðað við það sem bloggari á Stundinni, Agnar Kristján Þorsteinsson, gefur í skyn ( http://stundin.is/blogg/Agnar-Kr-Thorseinsson/mistokin-vi-a-treysta-bjarna-ben/). Hann segir: \"Manni finnst það því stórundarlegt að opinberir starfsmenn skuli treysta því að hann [fjármálaráðherrann] haldi samning og orð sín um að kjör opinberra starfsmanna verði leiðrétt eftir að hann hefur tekið af þeim lífeyrisréttindi. Það er nefnilega eiginlega hægt að treysta á það að þetta verði svikið, sérstaklega í ljósi þess að Bjarni Ben vill keyra lög sem taka lífeyrisréttindi af opinberum starfsmönnum með hraði í gegnum hið hlýðna færiband þingsins og það án þess að nokkrum gefist ráðrúm til að kryfja þau betur.\" 

Hann gefur síðan í og segir fleira hanga á spýtunni: \"Manni finnst það þessvegna líkleg sú kenning sem einhver fleygði fram að það tengist 120 milljarða innspýtingu ríkisins inn í lífeyrissjóði opinberra starfsmanna og að skuggasamkomulag sé í gangi um að hluti þess fé renni í fjárfestingu LSR í kísilverksmiðjunnar Thorsil sem er í eigu innvígðra og innmúraðra Sjálfstæðismanna. Að ógleymdri fjölskyldu Bjarna Ben sem skipaði sjálfur helming stjórnarmanna í LSR.\" Þetta eru glannaleg orð og sannarlega grófar aðdróttanir í garð formanns stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar og fjármálaráðherrans. 

Pistlahöfundurinn vísar hér til greinar sem birtist í sama miðli, Stundinni, 7.7.2016, á bls. 16-17, um kísilmálmfyrirtækið Thorsil í Helguvík, þar segir m.a.: \"Sú staða hefur endurtekið komið upp í ráðherratíð Bjarna Benediktssonar að fyrirtæki Einars Sveinssonar, föðurbróður hans, tengist viðskiptum við opinbera eða hálfopinbera aðila sem lúta ráðherravaldi Bjarna. Nú er það Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins sem íhugar að kaupa hlutabréf í kísilmálmfyrirtækinu Thorsil sem fyrirtæki Einars er hluthafi í en Bjarni skipar fjóra af átta stjórnarmönnum sjóðsins. Gengur þessi staða upp samkvæmt lögum og reglum í íslensku samfélagi?\"

Þarna er ekkert minna en gefið í skyn að fjármálaráðherrann sjálfur sé að misnota gróflega, ekki aðeins aðstöðu sína, heldur gjörvallt opinbera kerfið með því að taka 120 þúsund milljónir króna frá sameiginlegum sjóðum okkar, ríkinu, og nota til að þvinga lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins til að fjárfesta stórt í einkafyrirtæki frænda sinna. Reyndar þyrfti hann ekki 120 milljarða til því heildarfjárfesting Thorsil er áætluð 34 milljarðar skv. úttekt í DV 3.8. síðastliðinn, bls. 10-11.

Nei!

Hér skal þessari samsæriskenningu afdráttarlaust hafnað! Þarna hafa viðkomandi pistlahöfundar gengið allt of langt! Hvað sem segja má um Bjarna og sérhagsmunatengsl hans og fjölskyldu hans verður því auðvitað ekki trúað að hann selji þjóð sína fyrir 30 silfurpeninga!