Þrír nýir formenn stjórnarflokkanna á nýju ári?

Mikil þreyta er komin í stjórnarsamstarf núverandi stjórnarflokka. Ágreiningsmálin eru mörg. Formenn allra þriggja flokkanna hafa setið lengi á þingi, verið formenn á krefjandi tímum, og nú er COVID-veiran ekki lengur til að veita þeim skjól eins og árin 2020 og 2021. Þegar veirufjandinn virðist vera að baki er eðlileg stjórnmálabarátta hafin að nýju. Ríkisstjórninni líður mun verr við þessar breyttu aðstæður en áður.

Meðal þess sem ógnar ríkisstjórnarsamstarfinu er fjöldi mála sem ekki er lengur samstaða um. Staða formanna flokkanna er veikari en áður, þeir eru þreyttir og leiðir og það dylst engum. Allir íhuga þeir nú stöðu sína og gætu jafnvel valið að stíga frá borði á nýju ári, meðan vandinn er orðinn meiri en raun ber vitni en verðbólga gæti enn vaxið, vextir eru tæplegaá niðurleið í bráð – hagvöxtur er viðkvæmur og gæti hreinlega þurrkast út.

BJARNI BENEDIKTSSON

 • Þreyta vegna margra erfiðra mála einkennir hann.
 • Um útlendingamálin er engin samstaða. Jón Gunnarsson veldur Vinstri grænum miklum áhyggjum.
 • Margir sjálfstæðismenn styðja stefnu og úrræði Jóns Gunnarssonar í þeim málum enda eru þau farin úr böndum. Þeim líkar illa undanhald á borð við að fresta afgreiðslu laga fyrir jól.
 • Fjárlög ríkisins eru áfram skelfileg. Veirunni verður ekki lengur kennt um. Formaður Sjálfstæðisflokksins er ábyrgðarmaður óábyrgustu fjármálastjórnar ríkisins í marga áratugi. Að afgreiða fjárlög fyrir árið 2023 með 130 milljarða halla – í góðæri – er hræðilegt og lýsir skorti á raunsæi. Nægur var fjárlagahallinn árið 2022, 2021 og 2020 vegna veiruvandans. Þá höfðu stjórnarherrar afsökun. Ekki núna. Fjárlög eru afgreidd með bandormi sem hækkar alla gjaldtöku ríkisins um 7 prósent. Kannski er það ætlað sem framlag ríkisstjórnarinnar til að ná niður verðbólgu? Eins og að kasta olíu á eld.
 • Formaður Sjálfstæðisflokksins á í vök að verjast. Sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka á þessu ári þykir eitt mesta klúður ársins. Í sjálfu sér er það ómerkilegt mál í stóra samhenginu sem vitanlega er hryllilegur rekstur ríkissjóðs í bullandi halla, útþenslu og eyðslu – allt í boði fjármálaráðherra, formanns Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Benediktsson veit þetta manna best. Lítið heyrist samt frá honum og fyrir því eru gildar ástæður.
 • Bjarni vill forða sér áður en skriða fjármálaóreiðu ríkisins fellur yfir þjóðina. Þegar það gerist vill hann vera kominn annað.
 • Formaður Sjálfstæðisflokksins hugðist að hafa nýliðinn landsfund flokksins öðru vísi en hann varð. Þetta átti að verða haleljúa fyrir hann eftir 13 ára formannsferil við minnsta fylgi í sögu flokksins. Landsfundurinn átti að klappa hann og núverandi varaformann upp og hylla. Guðlaugur Þór Þórðarson, eini alvörustjórnmálamaðurinn í forystu flokksins, bauð sig hins vegar fram gegn Bjarna og setti allt í uppnám. Bjarna og hans nánasta liði mun hvorki takast að koma Guðlaugi Þór út úr ríkisstjórninni né gera hann áhrifalausan í flokknum eins og áformað var. Til þess mældist stuðningur flokksmanna við Guðlaug Þór á landsfundinum allt of mikill.
 • Bjarni er hins vegar nær bugaður af árangursleysi flokksins. Á hans vakt hefur fylgið farið úr 40 prósentum niður undir 20 prósent. Hann hefur það sér til hróss að halda Sjálfstæðisflokknum við völd í ríkisstjórn, gegn vilja þorra kjósenda. Í sjálfu sér er það vel af sér vikið. Bjarni mun hins vegar ekki ná lengra en það. Flokkurinn mun ekki ná völdum í Reykjavíkurborg, sem lengst af var krúnudjásn Sjálfstæðisflokksins. Nú er flokkurinn dæmdur til varanlegrar minnihlutastöðu í höfuðborginni. Bjarni kemst ekki lengra með flokkinn. Samt er þetta nokkuð gott hjá Bjarna þegar öllu er á botninn hvolft. Einungis Ólafur Thors hefur setið lengur á formannsstóli og hann hefur setið í ríkisstjórn allt frá árinu 2013 þó að hann hafi misst fylgið niður í eitthvað sem áður var talið skelfilegt. Eru ekki bara ekki nýir tímar?
 • Láti Bjarni Benediktsson af formennsku á næsta ári tæki varaformaðurinn, Þórdís Kolbrún, við.

SIGURÐUR INGI JÓHANNSSON

 • Formaður Framsóknar stendur nú á hátindi ferilsins. Hann vann stórsigur í síðustu Alþingiskosningum og einnig síðastliðið vor í sveitarstjórnum. Sérstaklega í Reykjavík þar sem flokkurinn komst í meirihlutasamstarf eftir langa eyðimerkurgöngu. Nú verður fulltrúi flokksins loks borgarstjóri að ári liðnu. Engu breytir þótt um sé að ræða fyrrum sjálfstæðismann úr Kópavogi!
 • Sigurð Inga langar að verða forsætisráðherra aftur. Gott væri að kveðja stjórnmálin þannig en það er er einnig gott að kveðja á toppi fylgisvinsælda. Viðbúið er að slíkt verði ekki endurtekið.
 • Hermt er að Sigurð langi alltaf aftur í sveitina. Í hestana og lífið fyrir austan.
 • Hví skyldi hann ekki hætta á toppnum?
 • Ákveði Sigurður Ingi að stíga niður verður slagur um formannsstólinn í Framsókn.
 • Lilja Alfreðsdóttir er nú varaformaður flokksins. Traust til hennar hefur fallið mjög hratt. Hún hefur lofað mörgu en staðið við fátt. Þá eru klúðursmál hennar ófá og vandræðaleg. Vart tekur hún við formennsku í Framsóknarflokknum. Ásmundur Einar Daðason er mun líklegri til þess.

KATRÍN JAKOBSDÓTTIR

 • Hún og hennar flokkur eru með „allt í skrúfunni“, eins og sagt er. Fylgið hefur hrunið í kosningum og svo áfram í skoðanakönnunum. Katrín er ekki lengur vinsælasti stjórnmálamaður landsins samkvæmt skoðanakönnunum.Kristrún Frostadóttir, nýr leiðtogi Samfylkingarinnar, skákar henni þar. Þá fóru Vinstri grænir einstaklega illa út úr síðustu sveitarstjórnarkosningum og eru nánast hvergi með í myndun meirihluta og hafa misst fulltrúa í stórum sveitarstjórnum. Flokkurinn á mjög undir högg að sækja á vettvangi sveitarstjórna, öfugt við Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn.
 • Horfinn er sá ljómi sem Katrín naut á síðasta kjörtímabili. Hún er ekki lengur bjargvættur í heimsfaraldri, sameiningartákn. Nú er hún bara einn af stjórnmálamönnunum sem verðskuldað njóta takmarkaðs trausts. Katrín er sögð taka gagnrýni afar illa og virka engan veginn í mótbyr eins og þeim sem nú mætir flokki hennar og reyndar ríkisstjórninni allri.
 • Forsætisráðherra gerði athyglisverða tilraun til að lyfta ímynd sinni með því að gerast meðhöfundur með Ragnari Jónassyni að krimma sem hann sendi frá sér nýlega. Þar er Katrín Jakobsdóttir skráð sem meðhöfundur. Eftir jólabókavertíðina tekur kaldur raunveruleikinn við að nýju.
 • Vinstri grænir eru æfir út af stöðu útlendingamála og mjög ósáttir við Jón Gunnarson, fyrrum bónda úr Miðfirði, núverandi dómsmálaráðherra. Hann virðist vera grjótharður á því að koma í gengum þingið lagabreytingum sem eru Vinstri grænum alls ekki að skapi. Þeir bíða eftir ráðherraskiptum og telja sig vita að komi Guðrún Hafsteinsdóttir í stól Jóns muni ekkert gerast. Það gerist ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir sex mánuði. Á meðan þurfa Vinstri grænir að þjást. Þá er Íslandsbankamálið búið að vera flokknum þungt í skauti og reyndar sitthvað fleira.
 • Því er spáð að Katrín Jakobsdóttir gæti alveg hugsað sér að hverfa af vettvangi íslenskra stjórnmála. Hún er sögð þreytt og leið og fullyrt að hana langi að flytjast til Parísar og koma til starfa hjá UNESCO þar í borg. Hermt er að hún hafi fyrir löngu lagt inn gott orð þar á bæ. Ekki skrítið að hún vilji yfirgefa stjórnmálin úr stöðu forsætisráðherra á meðan vandamálin eru ekki enn orðin óyfirstíganleg. Kveðji Katrín á næsta ári tekur varaformaðurinn við. Hann heitir Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Komi til framangreindar breytinga mun landslagið í íslenskum stjórnmálum breytast mikið – jafnvel til bóta.

- Ólafur Arnarson.