Þriggja framsóknarflokka stjórn ?

Fréttablaðið birtir “skoðanakönnun” í morgun sem varla getur staðið undir svo virðulegu nafni. Könnunin byggir á afar fáum svörum, er mjög misvísandi og veik í alla staði. Fáein hundruð aðila svara á sama tíma og mörg þúsund eru á bak við Gallupkönnunina sem birt var sl. föstudag. Veruleg frávik eru milli þessara tveggja kannana og hlýtur maður að treysta stórri og faglegri könnun Gallups betur en þessu framtaki Fréttablaðsins.

Það er engu að síður ástæða til að staldra við það sem kemur út úr könnun Fréttablaðsins. Líklegt er að þingmannafjöldi myndi skiptast sem hér segir, ef niðurstaða kosninganna yrði eins og þarna kemur fram að mati Dagfara:

Sjálfstæðisflokkur fengi væntanlega 17 þingmenn, Píratar 12, VG 9, Framsókn 9, Samfylking 6, Viðreisn 5 og BF 5. Þannig næðu sjö flokkar mönnum inn á þing.

Hvernig stjórnarmynstur gæti svona niðurstaða fært þjóðinni?  Líklegast er að fjórflokkurinn myndi leita allra leiða til að koma saman stjórn án Pírata. Þá er bara ein leið fær til að mynda þriggja flokka stjórn. Það yrði þriggja framsóknarflokka stjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna.

Dagfara finnst þetta vægast sagt hryllileg sviðsmynd sem tryggði óbreytt kvótakerfi, óbreyttan búvörusamning sem bitnar á neytendum, óbreytta mismunun atkvæðisréttar milli þéttbýlis og landsbyggðar þar sem fólkið úti á landi hefur tvö atkvæði á móti einu atkvæði þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu og áframhaldandi hagsmunagæslu Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fyrir hina fáu og ríku eins og verið hefur á yfirstandandi kjörtímabili.

Ráðherrar slíkrar stjórnar yrðu líklaga þessir: Bjarni Benediktsson, Ólöf Nordal, Guðlaugur Þór Þórðarson, Kristján Júlíusson, Katrín Jakobsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Lilja Alfreðsdóttir – og síðast en ekki síst Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Líki kjósendum ekki þessi sviðsmynd, þá er rétt að minna á að þeir hafa valdið á kjördag, þann 29. Október.