Þriggja flokka meirihluti blasir við

Meirihlutinn í Reykjavík er fallinn. Þetta er nokkuð á skjön við skoðanakannanir síðustu dagana fyrir kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn galt versta afhroð sögunnar. Aldrei fyrr í 93 ára sögu flokksins hefur hann fengið minna en fjórðung atkvæða í Reykjavík. Skoðanakannanir reyndust sannspáar um það.

Þrátt fyrir að Píratar bættu við sig fylgi og einum manni misstu hinir flokkarnir í meirihlutanum fylgi og þrjá menn. Vinstri græn hafa lýst því yfir að flokkurinn muni ekki koma að meirihlutasamstarfi á kjörtímabilinu. Nýr meirihluti verður myndaður í Reykjavík.

Ýmsar samsetningar koma til greina. Ekki samt eins margar og ætla mætti. Sósíalistar og Píratar hafa lýst því yfir að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn komi ekki til greina. Sósíalistar hafa líka útilokað Viðreisn. Þá liggur fyrir að Samfylkingin hyggur ekki á samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.

Sigurvegari kosninganna, Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknar, hefur lýst efasemdum um að Sjálfstæðisflokkurinn í borginni sé stjórntækur vegna innbyrðis klofnings sem ekki hefur farið fram hjá neinum.

Laskaður Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki eiga raunhæfa möguleika á myndun starfhæfs meirihluta. Flokkar, sem saman hafa 11 borgarfulltrúa, hafa í raun útilokað samstarf við hann. Til að mynda meirihluta þyrfti Sjálfstæðisflokkurinn að fá til liðs við sig Framsókn, Flokk fólksins og Viðreisn. Einnig þyrfti flokkurinn að leysa úr innbyrðis klofningi í sínum röðum.

Samfylkingin, Píratar og Framsókn eru saman með 12 borgarfulltrúa af 23. Þetta er eini raunhæfi þriggja flokka meirihlutinn í Reykjavík.

Meirihlutasamstarf þessara þriggja flokka ætti að geta gengið vel upp. Helsta stefnumál Framsóknar í þessum kosningum var krafa um breytingar á stjórn borgarinnar. Ekkert bendir til að mikill ágreiningur sé milli þessara þriggja flokka varðandi samgöngusáttmála, skipulags- og húsnæðismál, velferðarmál eða önnur helstu mál.

Hins vegar er ljóst að Einar Þorsteinsson gerir kröfu um borgarstjórastólinn. Sú krafa er í samræmi við úrslit kosninganna. Stórsigur Framsóknar í Reykjavík er fyrst og fremst persónulegur sigur Einars, sem steig sterkur fram og ávann sér traust kjósenda.

Dagur B. Eggertsson hefur nú leitt öfluga meirihluta í borginni í 12 ár, fyrst sem formaður borgarráðs í borgarstjóratíð Jóns Gnarr og nú í átta ár sem borgarstjóri. Enginn stendur honum á sporði hvað varðar reynslu og þekkingu á borgarmálum. Hann skilar góðu búi því að fjárhagslega stendur Reykjavíkurborg betur en öll önnur stærri sveitarfélög landsins, þrátt fyrir að veita mun umfangsmeiri grunn- og velferðarþjónustu en nokkurt annað sveitarfélag.

Dagur þarf ekki að sitja í stóli borgarstjóra til að finna reynslu sinni farveg í þágu borgarbúa. Eins og hann þekkir mæta vel er embætti formanns borgarráðs þýðingarmikið og áhrifaríkt.

Samfylking, Framsókn og Píratar ættu ekki að vera í vandræðum með að sameinast um áframhaldandi uppbyggingu í höfuðborginni.

Eðlilegt er að Framsókn njóti síns mikla kosningasigurs með því að oddviti flokksins setjist í borgarstjórastólinn. Dagur verði formaður borgarráðs og Píratar fái forseta borgarstjórnar, líkt og nú er.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki stjórntækur, eins klofinn og borgarstjórnarflokkur hans er, og mikilvægt er að mynda hratt nýjan og samhentan meirihluta um áframhaldandi uppbyggingu í Reykjavík.

Ekki er eftir neinu að bíða.

- Ólafur Arnarson