Sú ágæta útvarpsstöð Útvarp Saga hefur deilt funheitum brennidepli umræðunnar síðustu daga ásamt forsætisráðherrahjónunum. Tundurskeytin ganga á milli Sögu og Stundarinnar annars vegar og Sögu og Gunnars Waage, trommuheila, hins vegar. Síðdegis Tótinn á Hringbraut FM 89.1 fór yfir málið í beinni um daginn og las þá upp inngang þessarar greinar sem birtist í tímaritinu MAN skömmu eftir áramót.
Ég (Tóti FM 89.1) hef fengið góðfúslegt leyfi Bjarkar Eiðsdóttur, ritstýru MAN, til þess að birta hér greinina í heild enda tel ég ekki veita af vitrænu innleggi í sturlaða umræðuna. Gott fólk: Hér er það yfirvegaðasta og vitrænasta sem skrifað hefur verið um Útvarp Sögu, amk síðasta áratuginn.
HLUSTIÐ Á UMRÆÐUNA UM ÚTVARP SÖGU HJÁ TÓTA Á HRINGBRAUT FM 89.1
Útvarp Saga er kynlegur kvistur í fjölmiðlaflórunni á Íslandi og í raun stórmerkilegt fyrirbæri. Stöðin á sér dyggan og ákafan hóp hlustenda sem þykir beinlínis vænt um stöðina sína, ekki síst vegna þess að Símatíminn á Sögu gefur þeim kærkomið tækifæri til þess að tjá sig og kannski ekki síst fá útrás fyrir heitar tilfinningar sínar, helst ótta og reiði.
Stórskotalið hlustenda Útvarps Sögu hringir nánast inn daglega, margir eru með sömu málin á heilanum og hafa farið með sömu möntruna af mikilli innlifun árum saman. Öryrkjar og eldri borgarar eru áberandi í hópnum og óhætt er að fullyrða að hvergi fá raddir þeirra að heyrast jafn hátt og snjallt og á Útvarpi Sögu.
MAN lagði við hlustir og kynnir hér helstu innhringjendurna, viðhorf þeirra og skoðanir. Margir fordæma þetta fólk, sem heild, fyrir rasisma og fleiri brengluð viðhorf. En allt eru þetta einstaklingar. Margir í hremmingum. Fólk sem er reitt og hrætt um framtíð sína og sinna. Hvorki verri né betri en aðrir en þurfa að fá útrás og smá knús og það fá þau á Útvarpi Sögu. Hér heyrum við viðhorf nokkurra dyggra innhringjenda. Fólks sem allir hlustendur Sögu þekkja og ýmist elska, eða elska að hata.
Sjö árum eftir hrun, eða það sem kallað er á Útvarpi Sögu „rán“ eru byggingakranarnir farnir að sveifast á ný, gróði bankanna er svimandi og nýtt góðæri hefur verið boðað. Neyslubrjálæðið er byrjað aftur, eins og ekkert hafi í skorist, og fólk hafi aldrei safnast saman á Austurvelli, bandbrjálað og barið á potta og pönnur.
Maður þarf þó ekki að hlusta lengi á Útvarp Sögu til þess að skynja að þetta er ekki svona einfalt og að enn er margt rotið í ríki Ólafs Ragnars. Fólk er enn reitt og hrætt. Fólkið sem ber minnst úr býtum og hangir á horriminni. Þetta á ekki síst við um aldraða og öryrkja. Fólkið sem hlustar og hringir, öðrum fremur, í Útvarp Sögu.
Þetta er fólkið sem stendur þétt að baki forsetanum og vill að hann sitji sem lengst á Bessastöðum. Þetta er fólkið sem vildi ekki borga Icesave og trúir því að Íslendingar hafi sloppið við það uppgjör þótt reikningurinn hafi nánast verið greiddur upp í topp úr þrotabúi Landsbankans.
Það sem helst sameinar duglegustu innhringjendurna er hómófóbía, guðsótti, hræðsla við hið óþekkta; innflytjendur, hælisleitendur, múslima og pírata. Þau hata verðtrygginguna og vaxtaokrið. Þau sjá landráð og þjóðníðinga í hverju horni en trúa á íslenska yfirburði. Þetta eru fórnarlömb lífeyrissjóðasukksins, útrásarbófanna, Tryggingastofnunar og stjórnvalda sem þau telja víst að hati sig.
Þetta er gott fólk sem fyrirlítur „góða fólkið“, vinstrisinnað menntafólk og femínista og alla þá sem hafa áhrif í samfélaginu en nota þau til þess eins að ota eigin tota frekar en að láta hugsjónir ráða för og hlúa að okkar minnstu, innfæddu bræðrum. Þetta er Sögufólkið og það er eitthvað af þeim í okkur öllum og það er til vitnis um hroka og öðruvísi fordóma að afgreiða þetta fólk allt sem heimska rasista sem séu ekki dæmigerðir Íslendingar.
Þetta fólk hefur rétt á sínum skoðunm og rödd þess á að fá að heyrast og Útvarp Saga tryggir það. Stöðina er ekki hægt að strika út sem gróðrarstíu fordóma og mannhaturs. Í raun sinnir hún mikilvægu samfélagslegu hlutverki með því að leyfa hrædda og reiða fólkinu að tappa af í Símatímanum fyrir hádegi alla virka daga. Þetta fólk myndi ganga endanlega af göflunum ef það hefði ekki þann öryggisventil sem Útvarp Saga er.
Í nafni málfrelsis
Eigandinn og útvarpsstjórinn Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson, sem stjórnar flestum símatímum af röggsemi og festu, eru prímusmótorar Útvarps Sögu, andlit og rödd stöðvarinnar út á við, og óhætt er að segja að þau skötuhjú séu ekki síður umdeild en stöðin sjálf. Þau eflast þó við hverja raun og láta mótlætið ekki buga sig. Þau hafna því alfarið að þau séu útlendingahatarar, rasistar og hvað annað sem þau hafa verið kölluð.
Þau líta á Útvarp Sögu sem útvörð málfrelsis og gjallarhorn í samfélagi sem vill undir merkjum manngæsku þagga öll sjónarmið sem eru „góða fólkinu“ ekki þóknanleg. Og víst er að málfrelsið dafnar á Sögu og er vissulega hömlulaust. Þar er allt látið flakka af slíkum tilfinningahita að Símatíminn er án efa skemmtilegasti og besti útvarpsþáttur landsins. Í Símatímum fá valdhafar og fjármálabraskarar á baukinn daglega og þessu liði er óskað út í hafsauga reglulega. Eða eins og Einar, sem er í krossferð gegn lífeyrissjóðunum, segir: Burt með allt þetta pakk!
En yfir til ykkar Sögufólk. Línan er laus:
Konur eru enn í minnihluta þeirra sem hringja í Útvarp Sögu en þeim fer stöðugt fjölgandi og óhætt er að segja að þær séu tannhvassari en karlarnir, ef eitthvað er. Guðrún hringir inn af og til og hefur mestar áhyggjur af innflytjendum og þá helst múslimum. Hún dregur hvergi af sér og kærir sig kollótta um að sumir telji hana rasista.
„Mér datt í hug hvort þetta með líknardráp og fóstureyðingar væri ekki bara ágætt til þess að flýta fyrir múslimavæðingu á Íslandi. Þessir flokkar þarna, sem eru ákafastir í að fá innflytjendur og múslima inn í landið, þeir vilja ekki búa með Íslendingum. Þar feilreikna þeir sig því að þetta fjölgar sér svo ört að það verður í meirihluta innan skamms. Ég held að þessi gulhærði bjáni ætti nú bara að fara af þingi. Hann á ekkert þar heima. Þessi Proppé, svartrar framtíðar. Það á bara að útrýma Íslendingum. Þeir vinna að því statt og stöðugt. Og mæta engri mótspyrnu. Það er það versta.”
Sá sannkristni kaþólikki Jón Valur Jensson lætur ítrekað að sér kveða á Sögu. Um tíma var hann með fasta pistla á stöðinni en verður nú að láta sér nægja að hanga á línunni með hinum. Hann berst vasklega gegn ESB-aðild, innflytjendum og með kristnum gildum amast hann við hommum og fóstureyðingum.
„Sæll Pétur, það er Jón Valur Jensson hérna, mig langar bara að benda á eitt; þessir sósíalistar hjá Reykjavíkurborg eru núna að dæla ómældum peningum í þessa Hinsegin göngu sem beinist gegn kristnum gildum okkar og enginn, ég endurtek, enginn hefur beðið um! Það væri fróðlegt að sjá endanlegt reikningsuppgjör vegna þessara hátíðarhalda og hvað ríki og borg hafa lagt þar fram. Hvenær fáum við dag fatlaðra og öryrkja og sambærilega umhyggju yfirvalda fyrir þeim?”
Fullar fyrir meðlagið
Strætóbílstjórinn Guðjón, sem er einn allra hressasti innhringjandinn á Sögu, hefur skoðanir á flestu en jafnréttisumræðan brennur einna heitast á honum og femínistar eru eitur í hans beinum:
„Það sýndi sig í tölum frá Fréttablaðinu að karlar kaupi 40% af lúxusvörum heimsins. En þeir eru rúmlega helmingur. Þeir eru 55% heimsins en fá bara 40% þannig að konur eru að fá meira heldur en karlar samt eru þær alltaf vælandi yfir jafnrétti, þessar konur. Það er ekkert jafnrétti í gangi Pétur, þetta er forréttindaklíka í heiminum og það heitir konur.”
Einstæðar mæður sérlega varasamar að mati Guðjóns: „Og þessar einstæðu mæður Pétur, eyða svo peningunum sem þær fá í meðlag í fínan borðbúnað, jafnvel úr dýrum búðum og svo fara þær niður í bæ, bindfullar og ná sér í einhvern annan kall sem fær svo að borða af fínu diskunum sem einhver annar hefur borgað fyrir, í gegnum meðlagsgreiðslur!“
Borðaði kattamat á aðventunni
Eins og fyrr segir hefur Útvarp Saga gefið öryrkjum og þeim sem minnst mega sín í samfélaginu rödd. Helga er í fylkingarbrjósti öryrkjanna sem hringja inn og skefur ekki utan af kröppum kjörum þeirra.
„Það er komið tæm bara á borgarastyrjöld hérna. Því meira og lengra sem þeir ganga í að murka lífið úr fólki. Hvað þetta er mannvonska á hæsta stigi. Og setja öryrkja og ellilífeyrisþega á raðgreiðslur. Þeir eiga ekki fyrir lyfjum,” sagði Helga Nótt á sínum tíma þegar leysa átti aukinn lyfjakostnað með greiðsludreifingu.
Hún sagðist hafa 29 þúsund krónur til ráðstöfunar nú í desember eftir að hafa greitt húsaleigu og annan fastan kostnað. Þá má geta þess að í desember fyrir nokkrum árum var hún svo blönk að hún þurfti að borða kattamat upp úr dós.
„Ég er ekkert að væla. Ég er búin að fá upp í kok af þessum mönnum. Og hvað þá borgarstjórn og ég vil þetta djöfulsins pakk út á hafsauga og skóflupakkið á þing, sem að hefur vit og getu og þurft að berjast fyrir lífinu. En að ætla að svelta úr öldruðum og þeim sem minna mega sín líftóruna, bæði matarlega og andlega og á allan hátt. Það á ekkert líf og engar vonir og hver einustu mánaðamót þá vaknar maður í staðinn fyrir að hlakka til þess að það eru mánaðamót þá er maður lamaður af skelfingu fyrir næsta mánuði. Og ekki er þetta til að bæta heilsu fólks.”
Og áfram heldur Helga: „Hvað er að í þessu þjóðfélagi? Hvar eru samborgarar okkar sem eru að bjarga flóttamönnum og skammta þeim 200 þúsundum á mánuði? Við getum gert það Pétur minn þegar við eigum sjálf peninga og getum sjálf lifað. En hverslags gleðileg jól eru þetta? Ég segi bara: Bjarni Ben. Ég vona að þú njótir jólanna.”
Hann Þórir er rólegt prúðmenni, öryrki sem hefur talað fjálglega um geðræn vandamál sín og tilraunir danskra lækna til þess að drepa sig fyrir nokkrum áratugum. Hann er sprenglærður og kann lausnir á ýmsum vandamálum en er mjög mikið niðri fyrir þegar kjör öryrkja eru annars vegar: „Hann hefur ekki fyrir mat og lyfjum. Þetta er ekkert annað en morð. Pétur. Ég meina bara þetta er gjörsamlega siðlaust.”
Ofbýður þingmennskan
Eldri borgarar eiga vart háværari málsvara en sjómanninn fyrrverandi Sigurð Hólm. Hann býr á hjúkrunarheimilinu EIR og missti allt sitt í kringum fjármálasukkið þar og talar mest um Eirarmálið og gerir endalausar kröfur um úrbætur. Án árangurs hingað til. Hann er einnig mikill dansáhugamaður og á það til að snupra RÚV fyrir að sniðganga þá íþrótt. Og svo eru það auðvitað lygnir þingmenn, svikarar við eldri borgara:
„Það er bara þeirra mottó sem eru á þingi að segja aldrei satt. Það er bara mottóið. Já! Segja aldrei satt! Vilja ekki viðurkenna skömmina sína sem þeir eru í en vilja ljúga. Þú horfir á þingið dag eftir dag og þetta er ekkert annað en skrípaleikur. Þetta er til háborinnar skammar að hafa þetta opið í sjónvarpinu. Háborinnar skammar!
Þeir hljóta að eiga föður og móður þessir á þingi, ég trúi ekki öðru. Ha? Ég bara trúi því ekki, sko! Og ef menn geta hagað sér svona, Pétur, þá eiga þeir ekki að fá að vera á þingi. Mér ofbýður þingmennskan í dag. Mér ofbýður stundum þetta unga fólk sem er að koma inn sem að, ja, er varla byrjað að vinna enn. Hvurnig það hagar sér á þingi. Mér ofbýður það. Ha? Aldrei hefur verið hringt í mig. Ég lendi aldrei í þessum skoðanakönunum. Furðulegt alveg! “
Og ekki dunar dansinn sem skyldi: „Heyrðu Pétur það var danskeppni um helgina og var sýnt frá henni? Nei, það held ég ekki, bara einhver helvítis landsleikur gegn Tyrkjum og hann tapaðist! Hvar er jafnræðisregla stjórnrskráinnar núna, ég bara spyr!“
Illir andar á Alþingi
Baldur heitir maður Bjarnason, samkynhneigður Íslendingur sem býr í Svíþjóð. Hann er í öndvegi innhringjenda og reyndist hlustendum haukur í horni þegar þeir fóru á límingunum yfir fyrirhugaðri hinsegin fræðslu í grunnskólum Hafnarfjarðar. Þá var ekki ónýtt að hafa í sínum röðum homma sem fordæmdi uppátækið af krafti.
Baldur er óþreytandi í að vara Íslendinga við að hleypa innflytjendum inn í landið í stórum hópum, enda reynslunni ríkari af dvölinni í Svíaríki sem er að hans sögn á heljarþröm vegna innflytjenda. Hann styður Hægri græna á Íslandi og segir íslenskum kjósendum lítil vorkunn ef þeir ætli endalaust að halda áfram að kjósa fjórflokkinn yfir sig.
Nýlega viðraði Baldur þá kenningu sína að einhver óværa þrifist í veggjum þinghússins og réttast væri að brenna það. Undir þetta tók hún Sólveig sem hringir stundum utan af landi:
„Ég er sammála Baldri um að það eigi að brenna alþingishúsið vegna þess að það séu illir andar þar. Meðan menn vinna í þessu húsi þá verður þetta alla tíð svona. Það er í húsinu ég fer ekkert ofan af því. Ég hef aldrei komið þarna en ég skynja það bara í gegnum sjónvarpið. Þegar maður er að horfa. Það er ekki hægt að lýsa þessu eiginlega.” Sólveig leggur til að sjáendur verði fengnir til þess að taka þinghúsið út og staðfesta veru illra anda þar.
Hér sveltur enginn nema hann sé í megrun
Svarti Péturinn í hópi innhringjenda Útvarps Sögu er Viðar Guðjohnsen, eldri. Hann kynnir sig reglulega til leiks sem “sjálfstæðismann” en hefur í seinni tíð skreytt sig með því að vera „öfga hægrimaður.”
Viðar boðar fagnaðarerindi Bjarna Benediktssonar af miklum móð og lætur svipuhöggin dynja á öldruðum og öryrkjum þannig að allt verður vitlaust. Hann er tröllið á Sögu og æsingurinn í kringum hann hefur orðið svo mikill að blásaklausum nafna hans hefur verið hótað lífláti og líkamsmeiðingum. En Viðar gefst ekki upp og er enn að hringja þótt Pétur hafi skellt á hann með látum.
„Mikið ægilegt væl og rugl og bull er þetta. Mér finnst svo mikið væl í þessu þjóðfélagi og aumingjavæðing og aumingjadýrkun. Þetta er farið að ganga allt of langt. Að vera að segja það að fólk sé að fremja sjálfsmorð út af því að það eigi ekki pening. Þetta er bara alrangt. Þetta eru ranghugmyndir.
Þetta er bara rugl í ykkur. Þið eigið ekki að láta svona. Þið eruð að ala á þessum ranghugmyndum. Þetta er ekkert svona. Það er enginn að svelta nema hann sé að fara í megrun. Það er nóg af mat, það er Fjölskylduhjálp og allt. Svo er fólk að drekka, reykir hass. Þetta eru dýrustu liðirnir, það er heilbrigðiskerfið okkar sem tekur 140 milljarða. Velferðarkerfið tekur 120 milljarða á ári og það er alveg ógrynni, þúsundir manna, sem lifa hryllilegu líferni og ætlast til þess að skattborgarar borgi undir aumingjaskapinn í sjálfum sér.
Ég er ekkert að alhæfa. Ég er að tala um það að það eru þúsundir manna sem eru í þessari stöðu. Við erum að sjá fólk fá útrétta peninga um hver mánaðamót. Það fer beint og kaupir sér dóp eða brennivín svo er það að svelta allan mánuðinn og fer í Fjölskylduhjálp. Ég er að tala um það að þetta er orðið svo mikið og svo heldur fólk að það eigi að lifa í einhverjum lúxus.”
Hættiði að væla!
Og Viðar heldur áfram að djöflast svo undan svíður: „Fólk á bara að taka sig á. Auðvitað viljum við vera góð við þá sem eru sannarlega alvöru öryrkjar. En það er eitthvað að í kerfinu. Þú getur ekki neitað því. Þegar fólk er svínfeitt, vælir og hreyfir sig ekki neitt. Dillandi maganum og heldur að það eigi alltaf að fá peninga til að megra sig. Það er fullt af stórvandamálum í kerfinu bara af því að fólk er ekki með alvöru lífsstíl að leiðarljósi.
Svo verðum við að muna það. Af hverju er lífslengd eldri borgara að aukast svona gríðarlega? Lífslengd er orðin langmest í heimi. Það hlýtur að þýða að eldri borgurum líði vel fyrst þeir lifa svona lengi. Þeim fjölgar eins og kanínum og hvað á að gera? Á skattborgarinn alltaf að taka undir og bara ausa pening í þetta?”
Stálin stinn
Þegar Pétur er við símann fer hann ekki leynt með andúð sína á málstað Viðars og í vetur sauð upp úr þegar þeim lenti harkalega saman í magnaðri sennu sem endaði með því að Pétur skellti á hægri manninn. Þetta varð þó ekki lokasenna þar sem Viðar byrjaði aftur að hringja nokkrum dögum síðar, óbugaður.
Viðar: Bíddu ég er að tala um annað. Ekki það sem þú vilt tala um. Ég vil tala um hvað Sjálfstæðisflokkurinn er farinn að bæta sig í skoðanakönnunum. Tekurðu eftir því? Tekurðu eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn þrátt fyrir hatursglæpi þína gagnvart Sjálfstæðisflokknum....
Pétur: Heyrðu, bíddu nú. Hættu nú sko.
Viðar: Nei, nú ætla ég að fá að rökstyðja. Leyfðu mér að rökstyðja það!
Pétur: Nei! Þú færð ekkert að tala um að ég sé... Þú átt ekki að tala um að ég sé að fremja einhverja hatursglæpi hér.
Viðar: Jú! Þú ert að segja...
Pétur: Ég ætla að slíta þessu samtali við þig. Nú þið eruð að hlusta á Útvarp Sögu. Sko, maður þarf nú að líða ýmislegt en að vera að tala um að ég sé að fremja einhverja hatursglæpi gagnvart hvað,?Sjálfstæðisflokknum. Það gengur bara ekkert upp.
Út á hafsauga með allt þetta pakk
Eldri borgarinn Einar hringir nánast daglega, yfirleitt til þess að kvarta yfir því sama: Lífeyrissjóðunum sem hann finnur allt til foráttu. Honum er uppsigað við stjórnvöld og flesta sem hafa einhver áhrif í samfélaginu. Hann sér landráðamenn og þjóðníðinga í hverju horni og hefur eina lausn á þessu öllu: Burt með þetta pakk!
Innhringingar Einars eru eins og bestu Fóstbræðrasketsar og ekki spillir fyrir að í bakgrunninum heyrist oft í eiginkonu hans sem leggur línurnar. Hér bregst Einar við deilu Péturs og Viðars:
„Maðurinn er bilaður. Við verðum bara að taka honum eins og hann er. Hann er bilaður. Hann er bara Bjarni, Bjarni, Bjarni.... og við þurfum ekkert að hlusta meira á hann. Hann getur spilað þessa plötu alveg endalaust vegna þess að Bjarni er nákvæmlega ekkert að gera fyrir eldri borgara. Bara ekki nokkurn skapaðan hlut. Hann getur troðið öllu sínu bulli bara í sinn eigin barm. Og hann þarf ekkert að vera að hringja inn daglega á Útvarp Sögu með þennan þvætting. Maður er alveg búinn að fá upp í kok af þessu. “
Spaugsami stjórnmálaskýrandinn
Eins og Viðar Guðjohnsen er hataður á Sögu er nafni hans Viðar Þorkelsson dáður. Segja má að hann sé stjórnmálaskýrandi innhringjendahópsins. Hann hringir vel undirbúinn, fær meiri tíma en aðrir til þess að tjá sig og virðist lesa fyrirfram skrifaðar skýringar sínar af blaði. Vissulega vel í lagt þótt stundum verði honum fótaskortur í staðreyndum.
Viðar Þorkelssson leggur mikið upp úr því að vera fyndinn og sniðugur í ræðum sínum og á það til að hefja mál sitt á tilvitnunum sem vissulega dýpka textann og einhvern veginn má heyra hrifninguna og hláturinn ískra í öðrum hlustendum á meðan einræðum Viðars er útvarpað:
„Á Borginni dansaði hún vika-vaka. Þetta hérna söng hún Björk einu sinni eftir hann Bjartmar. Þetta vinstri-græna lið það skorar ekki hátt í skoðanakönnunum núna. Hvað leggur formaðurinn til? Hvað hefur hún til málanna að leggja? Jú, hún ætlar að rannsaka ástandið, hérna Kleppjárnsreykina. Þetta var stærsta málið hennar. Ástandið já. Þá er gott að lesa textann þarna eftir hann Bjartmar.
En það er búið að ráða manneskju sem á að fylgjast með uppgangi öfgahópa á Íslandi. Hún er varaþingmaður VG. Hún á að fylgjast með hatursglæpum. Hún var líka á landsfundi Vinstri-grænna. Hún samþykkti þar að setja bann á vörur frá Ísrael. Ætlar hún að byrja á borgarstjórninni og ætlar hún að taka Vinstri-græna og bara rannsaka þá?
Þegar þetta var samþykkt í borgarstjórninni þá var ekkert á bak við það. Það kannast enginn við það af þessum lögfræðingum. Hann Dagur er bara búinn að ljúga í þessu máli. Tvísaga? Hann er bara margsaga. Svona maður væri bara í þriðju gráðu yfirheyrslu hjá lögreglunni ef hann væri svona í einhverju sakamáli.
Sko, það er ekkert skrýtið að þetta sé vinsælt, náttúrlega. Þetta er hlaupandi alveg hreint eins og bjáni. Hann er hlaupandi til að saga niður tré í Osló og þar fylgja myndavélarnar honum eftir. Hann er hlaupandi hér að ná í tré og gefa til Færeyinganna og myndavélin komin aftur. Þetta er náttúrlega ekkert eðlilegt. Maðurinn baðar sig alveg hreint og stillir sér upp. Það má ekki stinga skóflu í jörð hérna þá er hann kominn í mynd.”
Klassískur leigubílstjóri
Einn öflugasti innhringjandinn á Sögu er hinn orðhvati fyrrverandi leigubílstjóri Kristinn Snæland. Kiddi hefur verið sannkallaður álitshafi í áratugi og gaf meðal annars út blaðið Taxa tíðindi þar sem hann sagði fréttir af starfi og deilum hjá leigubílastöðinni Hreyfli.
Kiddi er orðinn áttræður en er vægast sagt ern og hefur skoðanir á flestu. Hann er einarður andstæðingur ESB og ekur á bíl sem merktur er slagorði gegn efnahagsbandalaginu. Áfengi er líka eitur í beinum Kidda:
„Það er ungur maður sem var lögregluþjónn og ætti manna best að vita um hörmulegar afleiðingar áfengis á heimilislíf í landinu. Hann er í forystu fyrir því að fá inn lög til þess að verði selt áfengi í öllum mögulegum verslunum.
Þetta er alveg hrikalega ömurlegt og þessi lögregluþjónn má hafa óendanlega skömm mína fyrir það að hann er búinn að starfa í starfi þar sem menn komast mest í kynni við hörmulegar afleiðingar áfengisdrykkju á heimilum. Að hann skuli vera í forystu fyrir þessu. Ég skil þetta ekki. Maðurinn er bara, það hlýtur að vera tómur á honum hausinn eða bara fullur af vínanda.”
Hlustendur Sögu eru upp til hópa sannkristnir og mjög áfram um að skólabörn geti gengið til kirkju á skólatíma. Þeim er því uppsigað við Pírata sem vilja stöðva þessar kirkjuferðir: „Það er verið að tala um kristna trú og mér finnst hún eiga mjög í vök að verjast á Íslandi. Sjáum bara Píratana, þeir gefa algjört frat. Þeir vilja algjörlega eins og anarkistar. Það eiga ekki að vera neinar reglur.”
Söguforsetinn
Vörubílstjórinn Sturla Jónsson er ein aðalkempan í hringjendahópnum. Hann talar um fátt annað en stjórnarskrána og er eldheitur bókstafstrúarmaður þegar hún er annars vegar. Hann er einna uppteknastur af 14., 25. og 26. grein stjórnarskrárinnar og nú mest af þeirri númer 25 núna, eftir að hann tilkynnti fyrirhugað framboð sitt til embættis forseta Íslands. Á Útvarpi Sögu, að sjálfsögðu. Þessa grein telur hann gefa forsetanum heimild til þess meðal annars að reka ráðherra. Eitthvað sem Sturla hyggst óhikað gera fari svo að hann hljóti kosningu og ráðherrar fari ekki að vilja hans og þjóðarinnar.
Sturla var lengst af dyggur stuðningsmaður Ólafs Ragnars og greinir oft frá tíðum fundum sínum með forsetanum þegar hann hringir inn. Nú er hann hins vegar farinn að nota tíma sinn á Sögu til þess að grafa undan sitjandi forseta og færa um leið rök fyrir því að þjóðinni sé betur borgið með hann sjálfan á Bessastöðum.
Þessi boðskapur Sturlu fer fyrir ofan garð og neðan á Sögu enda Ólafur Ragnar frelsishetja í hugum flestra hlustenda. Þess ber þó að geta að hlustendur bera almennt mikið traust til Sturlu og völdu hann Mann ársins 2014 á Útvarpi Sögu í fyrra.
Cató gamli
Hér er því miður ekki pláss til þess að gera öllum þeim spekingum sem láta til sín taka í Símatíma Útvarps Sögu tæmandi skil en ekki er þó hægt að ljúka þessari umfjöllun án þess að minnast á öldunginn, „the grand old man”, Alvar Óskarsson.
Alvar er einn helsti vinur og velgjörðarmaður Útvarps Sögu, einarður þjóðernissinni sem lætur veikindi og háan aldur hvergi aftra sér. Alvar getur verið hvass og harður í palladómum en er sannkallaður ástmögur hlustenda sem völdu hann Innhringjanda ársins í fyrra.
„Það er verið að vega að honum Ólafi forseta með ýmsum hætti og af ýmsum. Ég vil skora á Ólaf að gera þessum fjandmönnum sínum og fjandmönnum okkar ekki þann greiða að fara að hætta. Ég skora á hann að fara eina ferðina enn,” sagði Alvar í nýlegri stuðningsyfirlýsingu.
Pólitíkusar eiga almennt ekki upp á pallborðið hjá Alvari: „Mig langar að nefna þetta böl sem við búum við. Að við erum með sérgóða stjórnarmenn á öllum póstum sem einhverju skipta máli, frá þingmönnum og ráðherrum og ég veit ekki hvert en alls staðar hafa þessir menn einhver ítök,” sagði Alvar þegar hann vísaði í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um miklar lántökur ráðamanna á bóluárunum. En „þeir sem kjósa þessa glæpamenn yfir sig og jarma svo yfir því að þeir skuli stjórna landinu,” hafa ekki efni á að segja mikið að mati Alvars.
Alvar er ræðuskörungur í anda Cató gamla í Róm og lýkur öllum þrumuræðum sínum með sömu orðum: „Eins og venjulega, veljum íslenskt!”
Svo mörg voru þau orð en rétt er að vekja athygli á því að hlustun er sögu ríkari og fólk ætti að kynna sér skemmtilegasta útvarpsþátt landsins, Símatímann, sem stundum er kallaður Skrúfan er laus. Það verður enginn svikinn af kynnum við þennan skrautlega hóp sem vandar um fyrir þjóðinni milli 9-12 alla virka daga á Útvarpi Sögu.
-ÞÞ