Þau eru skemmd, sagði refurinn

Raunalegt er að sjá hve yfirgengilega svekktir sjálfstæðismenn eru vegna þeirrar staðreyndar að þeir þurfa að verja enn einu kjörtímabilinu í valdalausum minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Þeir geta sjálfum sér um kennt enda hefur fylgi flokksins í borgarstjórnarkosningum aldrei verið minna. Einungis 24,4 prósent, sem er lægsta hlutfall í sögunni. Flokkurinn tapaði 6,3 prósentustigum frá kosningunum 2018 og missti tvo borgarfulltrúa. Kjósendur gerðu því ekkert tilkall til þess að flokkurinn kæmi að stjórn borgarinnar að þessu sinni. Þess vegna deilir Sjálfstæðisflokkurinn óspennandi minnihluta og deilir þar valdaleysinu með Vinstri grænum og Sósíalistaflokki Íslands, sem Gunnar Smári stofnaði.

Engin ástæða er til að vorkenna Sjálfstæðisflokknum þó að hann komist ekki til valda í Reykjavík. Flokkurinn er burðarás í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur og myndar meirihluta í nokkrum stórum sveitarfélögum eins og t.d. Kópavogi, Hafnarfirði og Akureyri.

En valdagræðgin er mikil og vitanlega er Reykjavíkurborg krúnudjásn íslenskra stjórnmála sem allir flokkar vilja taka þátt í að stjórna. Sjálfstæðisflokkurinn á erfitt með að sætta sig við þá staðreynd að þar kemur hann hvergi nærri – nema í nöldrandi stjórnarandstöðu. Yfir 40 prósent allra kjósenda landsins búa í Reykjavík og þar er miðstöð stjórnsýslu landsins, Alþingi, ríkisstjórn, hjarta viðskiptalífsins og þungamiðja menningar og lista. Vitanlega er sárt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að þurfa enn á ný að vera utangarðs í borginni. Þannig verður það áfram á meðan flokkurinn er klofinn í höfuðborginni og óstjórntækur. Þannig verður það einnig á meðan flokkurinn getur ekki teflt fram öflugum frambjóðendum og sterkum leiðtoga eins og einkenndi Sjálfstæðisflokkinn fyrr á árum.

Þetta taumlausa svekkelsi skín í gegn í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag eftir Óla Björn Kárason þingmann Sjálfstæðisflokksins. Fyrirsögn greinar hans er: „Samstarfssáttmáli orðskrúðs og lítils innihalds.“ Sei, sei. Ætli þingmaðurinn hafi ekki lesið stjórnarsáttmála núverandi vinstri stjórnar sem hann styður sem þingmaður? Við samanburð á þessu tvennu blasir við að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar í þinginu hafa hreint ekki efni á að reyna að sverta samkomulag miðjuflokkanna í Reykjavík með þessum hætti.

Grein þingmannsins undirstrikar einungis svekkelsi og nánast sorg sjálfstæðismanna vegna þess að flokkurinn verður í valdalausum minnihluta næstu fjögur árin. Þá er gripið til þess að gera lítið úr öllu sem þessir fjórir miðjuflokkar hyggjast hrinda í framkvæmd. Allt er innihaldslaust og ónýtt.

Hvað sagði refurinn ekki þegar honum var ljóst að hann gæti ekki náð að hremma og éta berin sem hann langaði svo mikið í: „Þau eru skemmd!“

- Ólafur Arnarson.