Straumhvörf í íslenskum stjórnmálum – Samfylkingin hefur tekið afgerandi forystu

Samfylkingin er að festa sig í sessi sem forystuflokkur í íslenskum stjórnmálum. Samkvæmt nýrri mælingu hefur flokkurinn 25,7 prósent atkvæða á bak við sig. Og bætir enn við sig frá síðustu könnunum, að ekki sé talað um úrslit síðustu Alþingiskosninga þegar Samfylkingin náði einungis 10 prósentum atkvæða á bak við sig.

Sjálfstæðisflokkurinn er á áframhaldandi niðurleið og er kominn niður í 18,7 prósent stuðning. Ekki eru mörg ár síðan hann mældist með um 40 prósent fylgi meðal landsmanna. Sú tíð er reyndar löngu liðin. Flokkurinn fengi nú einungis 12 þingmenn kjörna. Hann fékk 16 menn kjörna og fékk svo einn gefins rétt eftir kosningar, Birgi Þórarinsson, sem lét Miðflokksfólk hafa fyrir því að koma sér á þing – og hljóp svo á brott eftir viku. Varla teljast það mikil heilindi, ekki einu sinni í pólitíkinni.

Missi Sjálfstæðisflokkurinn 5 þingmenn miðað við síðustu kosningar og þessa könnun væru eftirtaldir fallnir: Óli Björn Kárason, Birgir Þórarinsson, Birgir Ármannsson, Hildur Sverrisdóttir og annar maður flokksins í öðru hvoru norðurkjördæmanna. Væri það mikill missir?

Ríkisstjórnin er löngu kolfallin samkvæmt öllum skoðanakönnunum og Samfylkingin er á óendanlegu flugi. Margt bendir til þess að flug flokksins endi ekki fyrr en í meira en 30 prósentum eins og þegar Össur réð för. Samtímis tapar Sjálfstæðisflokkurinn fylgi og einnig Vinstri grænir sem eiga þó leiðtoga núverandi vinstri stjórnar. Katrín er við það að hverfa sem stjórnmálamaður. Hennar tími er bæði kominn og farinn.

Aðrir flokkar gera það nokkuð gott samkvæmt þessari skoðanakönnun. Viðreisn, Framsókn og Píratar mælast í kringum tíu prósent. Framsókn tapar reyndar miklu frá kosningum eins og hinir ríkisstjórnarflokkarnir.

Upp er komin sama aðstaða og var í tíð vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms J. Stjórnin hefur misst trúnað og traust en heldur samt áfram. Nú mun reyna á hve lengi flokkarnir eru tilbúnir að sitja rúnir trausti og fylgi. Sennilega út tímann sem er í boði. Sumir verða aldrei aftur ráðherrar, eins og til dæmis allir ráðherrar Vinstri grænna. Verður sá flokkur með fólk á þingi næst?

Hver er ástæðan fyrir fylgishruni Sjálfstæðisflokksins? Sennilega eru þær nokkrar. Dæmi:

  • Vandræðamál í kringum formann flokksins eins og Íslandsbankamálið og Lindarhvolsmálið.
  • Jón Gunnarsson veldur mörgum vinstri mönnum mikilli armæðu vegna útlendingamála, vopnaburði lögreglu og ýmsu öðru.
  • Flokksmenn í Suðurkjördæmi eru reiðir vegna þess að leiðtoga þeirra er haldið á ís þegar kemur að ráðherradómi. Guðrún Hafsteinsdóttir hefur verið niðurlægð.
  • Sjálfstæðisflokkurinn er enn klofinn í flokkseigendur og Gulla-fólkið sem er þó um 40 prósent af flokknum. Engin heilindi verða í samstarfi þessara fylkinga.
  • Að ekki sé nú talað um málflutning fulltrúa flokksins í sveitarstjórnum, eins og í Reykjavík, þar sem Kjartan Magnússon gerir harða atlögu að því að verða hin nýja Vigdís Hauksdóttir – sem kjósendur höfnuðu reyndar í síðustu kosningum í borginni.

Sjálfstæðisflokkurinn á enga leiðtoga núna. Og ekki í sjónmáli. Á meðan svo er þá blasir við að Kristrún Frostadóttir myndi næstu ríkisstjórn.

- Ólafur Arnarson