Skattleysingi hefur áhyggjur af sköttum

“Nú er rétt að hafa áhyggjur. Meiri líkur en minni eru á því að ríkisstjórn vinstri flokkanna taki við stjórnartaumunum að loknum kosningum í haust. Þar með verður lækkun skatta um næstu áramót í uppnámi. Tími skattahækkana gengur í garð.”

Framangreint er kjarninn í grein sem Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar í Þjóðmál sem hann ritstýrir. Greinin snýst öll um að lýsa miklum áhyggjum af háum sköttum hér á landi, sem að sjálfsögðu eru vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms að kenna. Breytir engu þó núverandi stjórn hafi verið við völd í meira en 3 ár án þess að taka stór skref til skattalækkana eins og lofað var fyrir kosningar. Hins vegar hafa ráðherrar núverandi stjórnar haft góð orð um að lækka skatta á næsta kjörtímabili, þegar þeir verða ekki lengur í ríkisstjórn.

Að sönnu hafa margir ástæðu til að kvarta undan þungum sköttum. Gildir það bæði um einstaklinga og fyrirtæki sem skila miklum sköttum til samfélagsins.

Hins vegar er það afar hjákátlegt þegar Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, rekur upp rammakvein út af háum sköttum og sér vá fyrir dyrum og enn meiri skattpíningu framundan. Óli Björn greiðir ekki neina skatta ef marka má skattskrá sem út kom í sumar. Tekjublað DV birti fyrr í sumar lista yfir tekjur 2,600 íselndinga á síðasta ári. Þar kom fram að Óli Björn Kárason taldi fram tekjur til skatts 130 þúsund krónur á mánuði sem segir að hann hefur ekki greitt neina skatta vegna ársins 2015. Persónuafsláttur hefur verið meiri en álagður tekjuskattur og útsvar. Óli Björn hefur því ekkert lagt til sameignilegra þarfa þjóðarinnar með beinum sköttum á síðasta ári.

Áhyggjur skattleysingja af þessu tagi vegna hugsanlegra skattabreytinga geta ekki talist merkilegar.

Óli Björn spyr eftir að hafa fjallað um vonda skattastefnu sem hann telur að rekja megi til vinstri stjórnar:

“En hver borgar þessa skatta á endanum? Það er ekki endilega svo að einstaklingar greiði minna séu fyrirtækin látin greiða meira. Að lokum eru skattar ávallt bornir af einstaklingum, þ.e. eigendum, launþegum eða viðskiptavinum og er spurning einungis hvernig þær byrðar dreifast.”

Víst er að skattleysingjar bera ekki mikið af þeim byrðum.