Sjálfstæðisflokkur með veikan prófkjörshóp í kraganum

Mikið gekk á í Sjálfstæðisflokknum í SV kjördæmi áður en birtur var listi yfir þá sem taka þátt í prófkjöri Flokksins þar. Frestað var í tæpan sólarhring að birta listann meðan reynt var að fá öflugra fólk til að taka þátt. En það tókst ekki.

Bjarni Benediktsson hefur leitað logandi ljósi að sterkri konu til að taka annað sætið á listanum þar sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur verið en hún er að hætta.

Bjarni hefur gengið á eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að koma aftur til liðs við flokkinn og bjóða sig fram til þings. Hún hefur ítrekað afþakkað boðið enda telur hún flokkinn hafa svikið gefin loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB eins og kunnugt er. Þorgerður hefur verið í hópi þeirra sem unnið hafa að mótun Viðreisnar.

Þegar Þorgerður afþakkaði þá gerði Bjarni atlögu að Höllu Tómasdóttur sem var í öðru sæti í forsetakosningunum fyrr í sumar. En það gekk ekki heldur. Halla afþakkaði.

Bjarni veit að listinn hefði sárlega þurft á andlitslyftingu að halda en ekki tókst að fá neinar nýjar kanónur í framboð.
Því getur listi flokksins ekki orðið nema óspennandi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú 5 þingmenn í kjördæminu. Samkvæmt skoðanakönnunum mun þeim fækka í fjóra.

Dagfari spáir því að röð frambjóðenda verði þessi: Bjarni Benediktsson, Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Bjarnason og Helga Ingólfsdóttir sem næðu þingsætum. Þar á eftir kæmu Karen Halldórsdóttir, Óli Björn Kárason, Bryndís Loftsdóttir og Elín Hirst sem yrðu varaþingmenn.

Því miður fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Þetta yrði afar veikur framboðslisti.


Sent from my iPhone