Ríkisstjórnarflokkunum hafnað samkvæmt nýrri könnun

Ný skoðanakönnun fyrir Stöð 2 sýnir verstu útkomu ríkisstjórnarflokkanna sem mælst hefur. Þeim er algerlega hafnað og fá einungis 35 prósenta fylgi samtals.

Flokkur forsætisráðherra fengi einungis 6 prósenta fylgi og fjóra þingmenn kjörna og tapar fjórum þingmönnum frá kosningunum 2021 samkvæmt könnuninni. Katrín og flokkur hennar virðist rúin trausti eins og mælingar hafa sýnt mánuðum saman.

Hvergi á Vesturlöndum myndi líðast að 6 prósenta flokkur fengi að leiða ríkisstjórnarsamstarf. Þessi staða hér á landi hlýtur eiginlega að fara að kalla á viðbrögð.

Sjálfstæðisflokkurinn er kominn niður í 19 prósenta fylgi, samkvæmt könnun Stöðvar 2, fengi 13 þingmenn kjörna og tapar fjórum þingmönnum. Flokkurinn er ekki lengur stærstur eftir að Samfylkingin hefur tekið afgerandi forystu með 27 prósenta fylgi sem skilaði 18 þingmönnum – bætti 12 sætum við sig frá kosningum 2021.

Framsókn tapar einnig miklu fylgi, fer niður í 10 prósent, fengi sjö menn kjörna en tapaði sex þingsætum. Samkvæmt könnun Stöðvar 2 missa ríkisstjórnarflokkarnir 14 þingsæti. Allar skoðanakannanir allt frá síðasta hausti hafa sýnt mikið fylgistap stjórnarflokkanna en þessi niðurstaða er sú svartasta enn sem komið er.

Ríkisstjórnin er greinilega komin á endastöð.

Hve lengi flokkarnir þrír þumbast við að sitja við völd, rúnir trausti, er enn ekki vitað.

Vandi þeirra gerir ekki annað en að aukast.

Formaður Samfylkingarinnar hefur öll tromp á hendi ef úrslit kosninga yrðu í líkingu við þessa könnun sem var gerð dagana 4. til 16. maí sl. á meðan jákvæð athygli beindist að stjórnarflokkunum vegna leiðtogafundarins sem haldinn var í Reykjavík. 1.726 tóku afstöðu í könnuninni.

Samfylkingin gæti hæglega myndað miðjustjórn með sama mynstri og í borginni með 38 þingmenn á bak við sig.

Í könnun Stöðvar 2 birtist fyrst og fremst krafa kjósenda um að ríkisstjórnin játi sig sigraða, fari frá völdum og boði strax til kosninga.

- Ólafur Arnarson.