Raunir í kraganum

Dagfari telur að Sjálfstæðisflokkurinn í Suðvestur kjördæmi sé í miklum vandræðum.
Prófkjör flokksins misheppnaðist í meginatriðum og formanni flokksins virðist hafa hrosið hugur við að leggja í kosningabaráttuna með lið sitt þar.

Mjög var um það rætt að engin kona lenti ofar en í 5. sæti í prófkjörinu og það var mikið gagnrýnt.

Uppstillingarnefnd var búin að ákveða að halda niðurstöðu prófkjörs óbreyttri þegar Bjarni Benediktsson greip fram fyrir hendur nefndarinnar á síðustu stundu sl. fimmtudag og þvingaði í gegn þá breytingu að Bryndís Haraldsdóttir úr Mosfellsbæ yrði færð upp í 2. sætið en hún hlaut 5. sætið naumlega í prófkjörinu.

Við þetta eru þeir Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason og Vilhjálmur 
Bjarnason færðir niður um sæti.
Það leiðir til þess að Vilhjálmur Bjarnason fellur út af þingi miðað við nýjustu skoðanakönnun Gallups sem birt var á föstudagskvöld.

Mikil ólga er í kjördæminu út af þessu freklega inngripi. Dagfara finnst Bryndís ekki hafi mikinn kjörþokka og því skipti engu máli þó hún hafi verið færð til með þessum hætti.

Dagfari sér ákveðin veikleikamerki hjá Sjálfstæðisflokknum í Kraganum. Formaðurinn leiðir listann. Svo er Jón Gunnarsson úr Kópavogi færður niður en hann nýtur vinsælda eins og niðurstöður prófkjörsins sýndu. Honum er sýnd vanvirðing sem Kópavogsbúar hljóta að vera ósáttir við. Óli Björn Kárason mun ekki draga neitt fylgi að listanum og Vilhjálmi er fórnað með köldu blóði.

Þá liggur fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn teflir engum Hafnfirðingi fram ofarlega á listanum. Það hefði þótt óhugsandi fyrir nokkrum árum.

Verðandi þingmenn flokksins í kjördæminu koma úr Garðabæ, Mosfellsbæ, Kópavogi og af Seltjarnarnesi. Hafnarfjörður er sniðgengin.

Sannarlega þægileg staða fyrir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem leiðir lista Viðreisnar en hún er Hafnfirðingur.