Óþarfi ráðherrann reynir að beina athyglinni að borgarmálum

Við myndun núverandi vinstri stjórnar þurfti að búa til óþarft ráðuneyti til að geta komið Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur fyrir við ríkisstjórnarborðið. Bjarni Benediktsson lét það eftir áhrifamiklum flokkseigendum Sjálfstæðisflokksins sem vilja ýta henni áfram á sviði stjórnmálanna þó svo að hún hafi enn sem komið ekki sýnt neina burði sem kalla á að hún fái mikinn frama í stjórnmálum. Hún virðist hafa öðrum hnöppum að hneppa en að gera gagn í stjórnmálum.

Búið var til óþarft ráðuneyti handa Áslaugu Örnu. Full ástæða er til að ætla að næsta ríkisstjórn, sem vonandi og væntanlega verður mynduð án aðkomu Sjálfstæðisflokksins, leggi þetta óþarfa ráðuneyti niður og skili verkefnum þess til fyrri ráðuneyta og spari skattgreiðendur þar með umtalsverða fjármuni. Iðnaðarráðuneytið hefur um árabil átt farsæla samleið með viðskiptaráðuneytinu og ástæðulaust er að slíta starfsemi þeirra í sundur. Þá voru það mikil afglöp að aðskilja málefni háskóla frá öðrum kennslumálum. Mikil glópska er að slíta feril náms í landinu í sundur með þessum hætti. Þessu verður væntanlega breytt með myndun nýrrar ríkisstjórnar þar sem þarf ekki að sinna kjánalegum erindum fyrir gæðinga Sjálfstæðisflokksins.

Í dag birtir Morgunblaðið grein í nafni Áslaugar Örnu sem snýst einkum um að gera lítið úr stöðu Reykjavíkurborgar. Þar virðist helsta skammaryrðið vera „vinstri stjórn“ borgarinnar. Borginni stýrir miðjustjórn Samfylkingar, Viðreisnar, Framsóknar og Pírata. Áslaug Arna á hins vegar sæti í vinstri stjórn formanns Vinstri grænna, sósíalistanna á Íslandi frá gamalli og nýrri tíð. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG hefur verið höfuð þeirra tveggja ríkisstjórna þar sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur verið burðarás í stjórnarsamstarfinu og leyft minni spámönnum úr flokknum að fljóta með. Líti sjálfstæðisfólk á „vinstri stjórn“ sem skammaryrði ætti það að líta sér nær, einkum það sjálfstæðisfólk sem situr í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna. Flokkur hennar er reistur á grunni Alþýðubandalagsins, þar áður Sósíalistaflokks Íslands og enn fyrr á grunni Kommúnistaflokks Íslands.

Til hamingju með vinstri stjórnina sem þú átt sæti í, Áslaug Arna!

Hitt málið sem einkum er fjallað um í umræddri grein snýst um að fjárhagur borgarinnar sé slæmur. Áslaug Arna talar um að yfirdrátturinn sé búinn. Hefur hún spurt fjármálaráðherra vinstri stjórnarinnar, sem hún er hluti af, hvernig gangi með yfirdráttinn hjá honum? Fjármál ríkisins hafa verið í bullandi mínus í fjármálaráðherratíð Bjarna Benediktssonar. En Seðlabanki Íslands prentar seðla fyrir ríkisstjórnina. Veit Áslaug Arna þetta ekki.

Hún ætti að vita betur en til dæmis Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem skrifar sömu blaðagreinina ítrekað um það að fjárhagur borgarinnar sé slæmur án þess að minnast á gríðarlegan hallarekstur ríkisins undir forystu formanns Sjálfstæðisflokksins. Fjárhagur í opinberum rekstri er þungur um þessar mundir, óháð því hverjir halda um stjórnvölinn í daglegum rekstri. Gildir einu hvort um er að ræða Bjarna Benediktsson með þúsund milljarða halla ríkisins, Dag B, Ásdísi í Kópavogi eða Þór Sigurgeirsson í dvergsamfélaginu Seltjarnarnesi, ávallt undir stjórn sjálfstæðismanna, en þar hefur allt verið í mínus síðustu 7 árin. Þannig mætti lengi telja.

Í greininni sem birtist í nafni Áslaugar Örnu er talað um 13 ár sem flokkur hennar hefur verið utan valda í Reykjavíkurborg. Til sanns vegar má færa að að Hanna Birna, fyrrum vonarstjarna flokksins, var felld í kosningum eftir stutta setu á stóli borgarstjóra á kjörtímabilinu 2006 til 2010 þegar fjórir borgarstjórar réðu ríkjum hjá borginni og myndaðir voru fjórir meirihlutar. Í meginatriðum hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið valdalaus í borginni frá árinu 1994. Það er sú staðreynd sem svíður flokkseigendum sárast en þeir hafa engin svör við því. Alla vega ekki enn sem komið er, eftir nær 30 ár.

Ýmsir flokksmenn og málgagn flokksins hafa haldið uppi skítkasti og níði í garð meirihluta borgarstjórnarinnar kjörtímabil eftir kjörtímabil. Svo hafa komið kosningar. Og sífellt fær Sjálfstæðisflokkurinn minna fylgi í borgarstjórnarkosningum. Hver skyldi vera skýringin á því? Getur verið að kjósendum hugnist ekki málflutningur flokksins eða þeim hugnist ekki fólkið sem flokkurinn býður fram? Það hljóta að vera nothæfar skýringar á þessu.

Kjósendum hefur einfaldlega ekki litist á frambjóðendur flokksins eins og Kjartan Magnússon, sem sífellt birtir sömu níðgreinina, Friðjón Friðjónsson, Hildi Björnsdóttur. Eyþór Arnalds, Halldór Halldórsson og marga marga fleiri. Auðvelt er að skilja viðhorf kjósenda sem treysta Sjálfstæðisflokknum ekki fyrir stjórn borgarinnar.

En hvers vegna birtir óþarfi ráðherrann þessa innantómu grein í sínu nafni í Morgunblaðinu?

Það skyldi þó aldrei vera að hún máti sig í að leiða lista flokksins í næstu borgarstjórnarkosningum, þegar hún verður dottin út úr ríkisstjórn?

Þá gæti hún bætt sér í röð mislukkaðra lukkuriddara flokksins í því hlutverki, allt frá Birni Bjarnasyni, Hönnu Birnu, Halldóri Halldórssyni, Eyþóri Arnalds og Hildi Björnsdóttur.

Ekki slæmur félagsskapur!

- Ólafur Arnarson