Óráð að byggja nýtt fangelsi á rústum Litla-Hrauns – stækkun Hólmsheiðar augljós kostur

Dómsmálaráðherra hefur nú stokkið fram og tilkynnt að ætlun sé að rífa fangelsið að Litla-Hrauni til grunna og byggja nýtt fangelsi á rústunum fyrir austan. Það sem Guðrúnu Hafsteinsdóttur virðist vera efst í huga er að fangelsið verða áfram á sama stað – í kjördæmi hennar og í nágrenni við heimili ráðherrans í Hveragerði, auk þess sem skipt verði um nafn. Hraunið hefur vonda áru og nú brýnt er að koma með „krúttlegt“ nafn á fangelsið

Í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi er hvergi minnst í fjárveitingar til fangelsis sem á að kosta sjö milljarða. Ekki er heldur gert ráð fyrir slíkum útgjöldum í fjármálaáætlun til næstu fimm ára. En dómsmálaráðherra kemur samt fram og tilkynnir um fyrirhuguð útgjöld sem nema sjö milljörðum króna. Engu máli virðist skipta þótt ekki sé gert ráð fyrir þessu í fjárhagsáætlunum ríkisins á næsta ári eða næstu árum. Mestu varðar að endurbyggða fangelsið á að rísa í kjördæmi ráðherrans sem er þegar farinn að leita leiða til að ganga í augu kjósenda næst þegar verður kosið og þá munar um sjö milljarða framkvæmdir á svæðinu.

Fáist fjárveiting frá ríkinu á næstu árum til að loka Litla-Hrauni og tryggja úrræði fyrir fanga í staðinn er einsýnt að hagkvæmast verður að stækka nýlegt fangelsi að Hólmsheiði sem var hannað og byggt sem fangelsi og uppfyllir öll skilyrði sem slíkur staður þarf að uppfylla. Eðlilegast væri að stækka á Hólmsheiðinni, þar er yfirdrifið landrými og við hönnun fangelsisins þar hlýtur að hafa verið gert ráð fyrir því að aðgengilegt sé að bæta við álmum og stækka húsnæðið til að geta tekið við þeirri viðbót sem á þarf að halda. Ætla má að stækkun þar yrði mun hagfelldari leið fyrir ríkið en að byggja nýtt frá grunni á rústum vinnuhælisins að Litla-Hrauni, jafnvel þó að tækist að finna hlýlegt nafn á Nýja-Hraunið.

Engum heilvita manni dytti í hug að hanna og skipuleggja nýtt 100 rýma fangelsi frá grunni 45 kílómetra frá höfuðborginni ef hagkvæmni þess og notagildi væru höfð að leiðarljósi. Þá má velta því fyrir sér hvort æskilegasta þróunin í fangelsismálum hér á landi sé að byggja einatt meira húsnæði til að nauðungarvista fólk fremur en að leita lausna í aukinni samfélagsþjónustu dæmdra og öðrum leiðum en að loka fólk inni í læstum klefum.

Svo virðist hins vegar sem þingmenn og ráðherrar séu enn þá fastir í taumlausu kjördæmapoti í stað þess að láta þjóðarhag og hagkvæmni ráða för. Þetta vanhugsaða útspil Guðrúnar er enn eitt dæmið um slíkt. Framkvæmdin verður að vera í kjördæminu, það þarf að vernda nokkur störf á svæðinu. Þessi gamaldags „hrepparígur“ grasserar enn og er hreint ekki boðlegur.

Guðrúnu Hafsteinsdóttur mun varla takast að láta endurbyggja fangelsið að Litla-Hrauni, í sínu kjördæmi, fyrir sjö milljarða. Þegar málið fær umfjöllun fjárveitingarvaldsins verður skynsemin væntanlega látin ráða og valin sú leið að byggja við mannvirkið á Hólmsheiði og spara ríkissjóði þar með óþarfa útgjöld. Ekki má gleyma hagræðinu af því fyrir lögreglu, réttargæslumenn og aðra sem þurfa að annast um fanga að þurfa ekki að aka austur fyrir fjall í hvert skipti. Nú, eða aðstandendur fanga. Hólmsheiðin er vel staðsett og hagræðið er augljóst.

Nýi dómsmálaráðherrann á greinilega margt ólært og henni mun ekki líðast að slá keilur af þessu tagi á kostnað skattgreiðenda sem leggja ríkissjóði til tekjur til að standa undir sívaxandi ríkisbákni.

- Ólafur Arnarson